3,6 metra sjónauki ESO

  • 3,6 metra sjónauki ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Mynd: ESO
    3,6 metra sjónauki ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Samtök: European Southern Observatory
Staðsetning:
La Silla stjörnustöðin í Chile
Tegund:
Ritchey-Chrétien
Bylgjulengd:
Sýnilegt ljós
Þvermál:
3,57 metrar
Heimasíða:
The ESO 3.6m Telescope

3,6 metra sjónauki ESO er, eins og nafnið bendir til, 3,6 metra breiður stjörnusjónauki European Southern Observatory (ESO). Sjónaukinn tilheyrir La Silla stjörnustöð ESO í Chile.[1] Hann var smíðaður árið 1977 (og var þá einn stærsti sjónauki heims) en fékk yfirhalningu árið 1999.

Á 3,6 metra sjónauka ESO er aðeins eitt mælitæki: Litrófsritinn HARPS eða High Accuracy Radial velocity Planet Searcher. HARPS er kvarðarófriti (echelle spectrograph) með mikla upplausn og hefur skilað bestum árangri allra mælitækja á jörðu niðri í leit að fjarreikistjörnum. HARPS gerir Doppler litrófsmælingar í leit að áhrifum reikistjörnu á móðurstjörnuna.[1]

Með HARPS fundu menn sólkerfið umhverfis Gliese 581 sem inniheldur hugsanlega fyrstu bergreikistjörnuna sem finnst í lífbelti stjörnu utan okkar sólkerfis[2] og fjölhnatta sólkerfi með allt að sjö reikistjörnum á braut um stjörnu sem líkist sólinni okkar.[3]

Með sjónaukanum tókst stjörnufræðingum að leysa ráðgátu um sefíta, tegund sveiflustjörnu, sem hvílt hefur á stjarnvísindamönnum í áratugi. Stjörnufræðingarnir fundu í fyrsta sinn sefíta í sjaldgæfu myrkvatvístirnakerfi sem gerði þeim kleift að mæla massa sefítsins með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr. Spár um massa sefíta höfðu áður verið gerðar eftir tveimur ólíkum tilgátum, annars vegar um sveiflur stjarna og hins vegar þróun stjarna, sem gáfu ólíkar niðurstöður. Nýju niðurstöðurnar sýndu að tilgátan um sveiflur stjarna kom heim og saman við mælingarnar en tilgátan um þróun stjarna ekki.[4]

Myndasafn

3,6 metra sjónauki ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Mynd: ESO

Panoramamynd af hvolfi 3,6 metra sjónauka ESO

Panoramamynd af hvolfi 3,6 metra sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni. Hvolfþakið er 30 metra breitt og sjónaukinn er á pólstilltu sjónaukastæði. Á sjónaukanum er aðeins eitt mælitæki: HARPS litrófsritinn sem skilað hefur bestum árangri allra mælitækja á jörðinni í leit að fjarreikistjörnum.

Mynd: ESO

3,6 metra sjónauki ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

3,6 metra sjónaukinn og svissneski sjónaukinn á La Silla

Í forgrunni sést svissneski 1,2 metra sjónaukinn en í bakgrunni er 3,6 metra sjónauki ESO í La Silla stjörnustöðinni undir stjörnubjörtum himni.

Mynd: Iztok Boncina/ESO

Tengt efni

Tilvísanir

  1. La Silla - Fyrsta stjörnustöð ESO“ Sótt 8.6.2011
  2. Lightest exoplanet yet discovered“ Sótt 9.6.2011
  3. Fjölhnatta sólkerfi uppgötvað“ Sótt 9.6.2011
  4. Ráðgáta um sveiflustjörnur leyst“ Sótt 8.6.2011

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). 3,6 metra sjónauki ESO. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/3-6-metra-sjonauki-eso sótt (DAGSETNING)