Atacama Pathfinder Experiment (APEX)

  • APEX, Atacama Pathfinder Experiment
    Atacama Pathfinder Experiment (APEX) hálfsmillímetrasjónaukinn á Chajnantor sléttunni. Mynd: H.H. Heyer
Helstu upplýsingar
Samtök:
Max Planck stofnunin í útvarpsstjörnufræði (50%), Onsala Space Observatory (23%) og ESO (27%)
Staðsetning:
Chajnantor sléttan í Chile
Hæð:
5100 m.y.s.
Bylgjulengdir:
Millímetra og hálfsmillímetra (0,2-1,5mm)
Tekinn í notkun:
2005
Heimasíða:
APEX-Telescope.org

Atacama Pathfinder Experiment (APEX) er 12 metra breiður útvarpssjónauki á Chajnantor sléttunni í Atacamaeyðimörkinni í Chile, 50 km austan San Pedro de Atacama, í 5.100 metra hæð yfir sjávarmáli. Sjónaukinn var tekinn í notkun þann 25. september árið 2005.

APEX er undanfari Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), byltingarkenndrar útvarpssjónaukaröaðar sem ESO og alþjóðlegir samstarfsaðilar setja nú upp á Chajnantor sléttunni. APEX er frumgerð loftnetsins sem smíðað var fyrir ALMA. Hann á að finna fjölmörg fyrirbæri sem ALMA kemur til með að kanna nánar. APEX nemur millimetra og hálfsmillimetra bylgjulengdir, á svæðinu milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna í rafsegulrófinu. Með því að rannsaka hálfsmillimetra bylgjulengdir opnast gluggi út í kaldan, rykugan og fjarlægan alheim. Vatnsgufan í lofthjúpi jarðar dregur að mestu leyti í sig þessa geislun. Þess vegna er Chajnantor sléttan, sem er einn þurrasti staður jarðar, kjörinn fyrir sjónauka eins og APEX. Hún er meira en 750 metrum hærri en stjörnustöðvarnar á Mauna Kea og 2.400 metrum hærri en Very Large Telescope á Cerro Paranal.[1]

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans.[2]

LABOCA

APEX er stærsti hálfsmillimetra-sjónaukinn sem starfræktur er á suðurhveli jarðar. Á honum eru fjölmörg mælitæki. Helst ber að nefna LABOCA, Large APEX Bolometer Camera. LABOCA er röð mjög næmra hitageislunarmæla (alrófsmæla), sem greina ljós með hálfsmillimetra bylgjulengd. Myndavélin er 300 pixla, sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Hver hitageislunarmælir er kældur niður í innan við 0,3 gráður yfir alkul (-272,85°C) svo hægt sé að greina hárfínar hitastigsbreytingar í hálfsmillímetra-geisluninni. LABOCA er mjög næmt og með vítt sjónsvið (þriðjungur af þvermáli fulls tungls) og er stjörnufræðingum ómetanlegt verkfæri í að kortleggja alheiminn í hálfsmillímetra-bylgjulengdum.[1]

ATLASGAL

ATLASGAL, APEX
Flötur Vetrarbrautarinnar séður með ATLASGAL kortlagningunni. Hálfsmillímetra bylgjulengdir APEX eru sýndar rauðar. Mynd: ESO/APEX & MSX/IPAC/NASA

Árið 2009 birtu stjörnufræðingar nýtt kort af innri svæðum Vetrarbrautarinnar sem sýnir þúsundir þéttra og áður óþekktra kekki úr köldu geimryki — hugsanlega fæðingarstaði nýrra stjarna. Kortið var búið til úr mælingum sem gerðar voru með APEX sjónaukanum í Chile. Þessi nýi leiðarvísir stjörnufræðinga nefnist APEX Telescope Large Area Survey of the Galaxy (ATLASGAL).  kortið er um það bil 95 fergráður að stærð. Það nær yfir langa en mjóa rönd á fleti Vetrarbrautarinnar sem er tvær gráður á breidd (fjórfalt breiðara en fullt tungl) og meira en 40 gráður að lengd. Kortið er 16.000 pixla langt og var útbúið með LABOCA hálfsmillímetra mælinum á APEX sjónauka ESO.[3]

Stjörnumyndunarsvæði í hinum fjarlæga alheimi

Í mars árið 2010 var tilkynnt að stjörnufræðingum hefði tekist í fyrsta sinn að mæla stærð og birtu stjörnumyndunarsvæða í vetrarbrautinni SMM J2135-0102. Massamikil vetrarbrautaþyrping í forgrunni magnar ljós SMM J2135-0102 sem veldur því að hún virðist mjög björt. Stjörnumyndunarsvæðin í þessari vetrarbraut eru álíka stór og í Vetrarbrautinni okkar en hundrað sinnum bjartari. Það bendir til þess að snemma í sögu hennar hafi stjörnumyndun verið miklu öflugri en í þeim vetrarbrautum sem við sjáum nær okkur í tíma og rúmi.[4]

Vetnisperoxíð í geimnum

Í júlí árið 2011 var tilkynntu stjörnufræðingar að vetnisperoxíð — sameind sem er nátengd vatni og súrefni — hefði fundist í geimnum með APEX sjónaukanum.[5]

Tilvísanir

  1. APEX - Nýjum hæðum náð í hálfsmillímetra stjörnufræði. Sótt 19.06.11
  2. APEX - Atacama Pathfinder EXperiment. Sótt 19.06.11
  3. Nýr leiðarvísir stjörnufræðinga um Vetrarbrautina: Stærsta kort af köldu ryki birt. Sótt 19.06.11
  4. APEX nær fyrstu nærmyndinni af stjörnumyndunarsvæðum í hinum fjarlæga alheimi. Sótt 19.06.11
  5. Vetnisperoxíð fundið í geimnum. Sótt 06.07.11.

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). Atacama Pathfinder Experiment (APEX). Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/atacama-pathfinder-experiment sótt (DAGSETNING)