VLT Survey Telescope (VST)

  • VST, VLT Survey Telescope, Paranal, OmegaCAM
    VLT Survey Telescope (VST), nýjasti sjónaukinn í Paranal stjörnustöð ESO, er 2,6 metra breiður kortlagningarsjónauki. VST er samvinnuverkefni ESO og INAF, INAF-Osservatorio Astronomico di Capodimonte í Napólí á Ítali. Mynd: ESO/G. Lombardi
Helstu upplýsingar
Samtök: European Southern Observatory, INAF
Staðsetning:
Cerro Paranal í Chile
Hæð:
2.600 m.y.s.
Tegund:
Spegilsjónauki
Bylgjulengd:
Sýnilegt
Þvermál safnspegils:
2,6 metrar

VLT Survey Telescope (VST) er 2,4 metra sjónauki í hæsta gæðaflokki. Á honum er OmegaCAM, 268 megapixla CCD-myndavél með fjórfalt víðara sjónsvið en sem nemur flatarmáli fulls tungls á himinhvolfinu. VST kortleggur himininn í sýnilegu ljósi og er þess vegna góð viðbót við VISTA. Sjónaukinn er afrakstur samstarfs ESO og Capodimonte Astronomical Observatory (OAC) í Napólí sem er rannsóknarmiðstöð Ítölsku stjarneðlisfræðistofnunarinnar (INAF: Italian National Institute for Astrophysics).[1]

VST var hannaður í Stjörnustöð INAF í Capodimonte í Napóli. Ítölsk fyrirtæki sáu um smíði allra hluta hans fyrir utan sjóntækjanna sjálfra sem komu frá rússneska fyrirtækinu LZOS. Smíði og samsetning sjónaukans í Paranal stjörnustöðinni var líka í höndum INAF. Sjónaukinn var tekinn í notkun árið 2011.[2]

Sjónaukinn og OmegaCAM

VLT Survey Telescope (VST) er nýjasti sjónaukinn sem tekinn er í notkun í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í norður Chile. Sjónaukinn er við hlið VLT sjónaukanna fjögurra undir ósnortnum stjörnuhimni Cerro Paranal sem er einn besti staður heims til rannsókna í stjarnvísindum. VST er stærsti sjónauki veraldar sem er hannaður sérstaklega til að kortleggja himininn í sýnilegu ljósi. Á komandi árum fara nokkur mjög ítarleg kortlagningarverkefni á suðurhimninum fram með VST og OmegaCAM myndavél sjónaukans og verða öll gögn gerð opinber.

VST er samstarfsverkefni INAF-Osservatorio Astronomico di Capodimonte í Napólí á Ítalíu og ESO. Hönnun og smíði sjónaukans var í höndum INAF, með þátttöku ítalskra fyrirtækja en ESO lagði til húsið undir hann og og sá um verkfræðilega stjórnun á byggingarsvæðinu. OmegaCAM, myndavél VST, var hönnuð og smíðuð í samvinnu hollenskra, þýskra og ítalskra stofnana sem nutu þó mikillar aðstoðar ESO. ESO sér um viðhald og rekstur sjónaukans en líka gagnasöfnun og -dreifingu frá sjónaukanum.[2]

OmegaCAM

Omega Centauri, VST, Mannfákurinn, kúluþyrping
Önnur mynd VST er besta mynd sem birt hefur verið að kúluþyrpingunni Omega Centauri í stjörnumerkinu Mannfáknum. Omega Centauri er stærsta kúluþyrping himins en með víðu sjónsviði VST og hinni öflugu OmegaCAM myndavélinni sést hún í heild sinni. Á myndinni eru 300.000 stjörnur. Gögnin voru unnin með VST-Tube hugbúnaðinum sem A. Grado og samstarfsfólk hannaði hjá INAF-Capodimonte Observatory. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: A. Grado/INAF-Capodimonte Observatory

VST er útbúinn virkum sjóntækjum sem tryggja að speglarnir eru á öllum stundum samstilltir. Á bakvið stórar linsur, sem leiðrétta skekkjur og tryggja bestu mögulegu myndgæði, er 770 kg OmegaCAM myndavélin sem smíðuð er umhverfis 32 CCD myndflögur sem geymdar eru í lofftæmi svo úr verða 268 megapixla ljósmyndir.

Til að mæla liti fyrirbæra á himninum eru mjög stórar glersíur settar fyrir framan CCD flögurnar. Hver sía er meira en 30 sentímetrar á alla kanta og flestar sérstaklega húðaðar til að sem mest ljós berist í gegnum þær. Einnig er stór loki sem samanstendur af tveimur blöðum sem hægt er nota til að hindra að ljós berist inn á meðan nemarnir lesa upplýsingarnar.[2]

Kortlagningarverkefni

Á næstu fimm árum verða unnin þrjú opinber kortlagningarverkefni með VST. KIDS kortlagningin verður unnin á nokkrum svæðum himins sem liggja utan við Vetrarbrautina. Sú kortlagning snýr að ítarlegum rannsóknum á hulduefni, hulduorku og þróun vetrarbrauta en búist er við að fjölmargar áður óþekktar vetrarbrautaþyrpingar finnist í leiðinni sem og fjölmörg ný dulstirni með hátt rauðvik. VST ATLAS kortlagningin þekur stórt svæði af himninum en markmið hennar er að auka skilning okkar á hulduorku og veita stuðning við nákvæmari rannsóknir með VLT og öðrum sjónaukum. Í þriðja verkefninu, VPHAS+, verður miðflötur Vetrarbrautarinnar kortlagður svo draga megi upp nákvæma mynd af skífu hennar og stjörnumyndunarsögu. Með VPHAS+ verður til skrá yfir meira en 500 milljón fyrirbæri og búist er við að ný dæmi um óvenjulegar stjörnur á öllum þróunarstigum sínum finnist.

OmegaCAM framleiðir gríðarlegt gagnamagn. Ár hvert verða til um 30 terabæti af hráum gögnum en þeim verður miðlað í gagnaver í Evrópu til frekari úrvinnslu. Í Groningen og Napólí hefur nýr og mjög vandaður hugbúnaður verið þróaður svo hægt sé að höndla þetta mikla gagnamagn. Að lokum verður útbúinn stór listi yfir þau fyrirbæri sem fundist hafa og hann, ásamt myndum, verður allt gerður aðgengilegur stjörnufræðingum um heim allan til frekari rannsókna.[2]

Tilvísanir

  1. Kortlagningarsjónaukar ESO. Sótt 19.06.11
  2. Fyrstu myndir VLT Survey Telescope: VST og 268 megapixla OmegaCAM tekin í notkun. Sótt 19.06.11

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). VLT Survey Telescope (VST). Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/vlt-survey-telescope sótt (DAGSETNING)