Fréttasafn
  • R Coronae Australis, stjörnumyndunarsvæði, Suðurkórónan

Vatnslitir R Coronae Australis

30. jún. 2010 Fréttir

Þessi glæsilega mynd af svæðinu í kringum stjörnuna R Coronae Australis var búin til úr myndum sem teknar voru með Wide Field Imager (WFI) í stjörnustöð ESO í La Silla. R Coronae Australis er í hjarta nálægs stjörnumyndunarsvæðis og er umlukin fallegri blárri endurskinsþoku innan í stóru rykskýi. Á myndinni sjást ný og ævnt smáatriði á þessu tilþrifamikla svæði himinhvolfsins.

Stjarnan R Coronae Australis er í einu nálægasta og tilkomumesta stjörnumyndunarsvæðinu við jörðina. Þessi mynd var tekin með Wide Field Imager (WFI) á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöðinni á La Silla í Chile. Myndin er blanda tólf mismunandi ljósmynda sem teknar voru í gegnum rauða, græna og bláa síu.

Myndin sýnir svæði á himninum sem er rúmlega á við breidd fulls tungls. Þetta jafngildir um fjórum ljósárum miðað við að þokan sé í um 420 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Suðurkórónunni. Svæðið er nefnt eftir stjörnunni R Coronae Australis sem er fyrir miðju myndarinnar. Hún er ein nokkurra stjarna á þessu svæði sem tilheyrir flokki mjög ungra stjarna sem breyta birtu sinni og eru enn umluktar gas- og rykskýjunum sem þær mynduðust úr.

Þessar heitu ungu stjörnur gefa frá sér sterka geislun sem víxlverkar við gasið í kring. Gasið annað hvort endurvarpar ljósinu eða geislar því frá sér á öðrum bylgjulengdum. Þessi flóknu ferli eru háð eðlisfræði miðgeimsefnisins og eiginleikum stjarnanna og eiga sök á litbrigðum þokunnar. Ljósbláa þokan sem sést á myndinni má að mestu rekja til endurvarps ljóss frá litlum rykögnum. Ungu stjörnurnar á R Coronae Australis svæðinu eru svipaðar sólinni að massa og gefa ekki frá sér nægu útbláu ljósi til að jóna stærsta hluta vetnisins í kring. Það þýðir að skýið gefur ekki frá sér þann rauða lit sem einkennir mörg stjörnumyndunarsvæði.

Hárfín smáatriði sjást í stóra rykskýinu sem endurskinsþokan er greypt inn í. Litbrigði og áferð rykskýsins minna um margt á málverk impressjónista. Frá miðjunni og niður til vinstri liggur dökk en áberandi rykrák. Þar gleypir rykið sýnilegt ljós sem stjörnurnar sem eru að myndast innan í skýinu gefa frá sér. Aðeins er hægt að sjá þessi fyrirbæri á lengri bylgjulengdum með myndavélum sem greina innrautt ljós.

R Coronae Australis sést ekki með berum augum en litla kórónulaga stjörnumerkið sem hún tilheyrir sést auðveldlega við góðar aðstæður sökum nálægðar þess á himninum við stjörnumerkið Bogmanninn og stjörnumprýtt svæðið við miðju okkar Vetrarbrautar.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, Survey Telescopes PIO
Garching, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1027

Tengdar myndir

  • R Coronae Australis, Suðurkórónan, endurskinsþokanHér sést stjörnumyndunarsvæðið í kringum R Coronae Australis á mynd sem tekin var með Wide Field Imager (WFI) á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöðinni í La Silla í Chile. Myndin þekur svæði á himinhvolfinu sem er álíka stórt og þvermál fulls tungls. Hún var sett saman úr tólf 67 megapixla ljósmyndum sem teknar voru í gegnum B, V og R síur, fjórum sinnum í fimm mínútur í hvert skipti. Mynd: ESO
  • R Coronae Australis, Suðurkórónan, endurskinsþokanÞessi glæsilega víðmynd sýnir svæðið í kringum stjörnuna R Coronae Australis. Risastórt rykský, um átta ljósár í þvermál, er áberandi á miðri mynd. Bláa endurskinsþokan nálægt R Coronae Australis er hægra megin við miðju og ofarlega, hægra megin þokunnar, sést kúluþyrpingin NGC 6723. Suðurkórónan er kórónulaga stjörnumerki við hlið stjörnumerkisins Bogmannsins við miðju Vetrarbrautarinnar. Þótt það sé dauft sést þetta stjörnumerki auðveldlega við góðar aðstæður. Mynd: Loke Kun Tan (StarryScapes.com)