Fréttasafn
  • Tunglmyrkvinn 28. september 2015. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Almyrkvi á tungli aðfaranótt 21. janúar

13. jan. 2019 Fréttir

Aðfaranótt mánudagsins 21. janúar 2019 verður almyrkvi á tungli, sá fyrsti sem sést hefur frá Íslandi síðan 28. september 2015. Næst sést almyrkvi á tungli frá Íslandi 16. maí 2022.

Tunglmyrkvinn hefst klukkan 02:37 en milli klukkan 04:41 og 05:43 er tunglið almyrkvað og þá rauðleitt á himninum. Myrkvinn á sér stað á næst nálægasta fulla tungli ársins.

Svarthol_FB_cover

Af hverju verða tunglmyrkvar?

Tunglmyrkvar verða þegar sólin, Jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Tunglmyrkvar verða því aðeins þegar tungl er fullt og gengur inn í skugga Jarðar.

Þrátt fyrir það verða tunglmyrkvar ekki mánaðarlega vegna þess að brautarplan tunglsins og brautarplan Jarðar eru ósamsíða.

Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt undir eða yfir tunglið.

Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á Jörðinni. Í þetta sinn sést myrkvinn best frá Norður- og Suður-Ameríku og að öllu leyti frá Íslandi.

Ástæður fyrir mismunandi gerðum tunglmyrkva. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Hermann HafsteinssonHvað sést?

Ekki þarf nein hjálpartæki eins og sjónauka til að sjá tunglmyrkva svo allir geta notið hans með berum augum.

Tunglmyrkvinn 21. janúar hefst eftir miðnætti þegar tunglið er hátt á lofti, nokkurn veginn í suðri í stjörnumerkinu Krabbanum.

Tunglið snertir þá hálfskugga Jarðar sem er daufur. Því sést lítil sem engin breyting á tunglinu þegar þetta gerist. Það er ekki fyrr en um 70% tunglsins eru komin inn í hálfskuggann að einhverjar birtubreytingar sjást. Hálfskuggamyrkvinn verður meira áberandi eftir því sem á líður.

Þegar tunglið snertir alskuggann, klukkan 03:34, hefst deildarmyrkvi. Deildarmyrkvinn er mun greinilegri. Snemma í deildarmyrkvanum sérðu örugglega óræka sönnun þess að jörðin sem við byggjum er kúla.

Klukkan 04:41 er tunglið allt í alskugga Jarðar og þá almyrkvað. Lengd almyrkvans ræðst af því hvort tunglið ferðast beint í gegnum alskuggann eða ekki.

Hraði tunglsins í gegnum skuggann er um 1 km á sekúndu svo almyrkvi getur mest staðið yfir í 1 klukkustund og 42 mínútur. Í þetta sinn stendur almyrkvinn yfir til klukkan 05:43 eða í 1 klukkustund og 2 mínútur.

Að almyrkva loknum færist tunglið smám saman í austurátt á braut sinni í kringum Jörðina. Ferlið endurtekur sig en nú í öfugri röð. Forgönguhvel tunglsins stingur sér út úr alskugganum og hefst þá deildarmyrkvi aftur.

Þegar tunglið er allt komið út úr alskugganum hefst hálfskuggamyrkvi á ný. Smám saman færist myrkrið af tunglinu svo að lokum skín fullt tungl skært á himni eins og ekkert hefði í skorist.

Tunglmyrkvinn 28. september 2015

„Blóðrauður ofurmáni“

Þegar tunglið er inni í alskugga Jarðar fær það á sig blóðrauðan blæ. Þennan lit má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki.

Sólarljósið berst í gegnum lofthjúp jarðar sem tvístrar rauða litnum síðar en hinum litunum. Ljósið berst til tunglsins og gefur því rauðan lit.

Frá yfirborði tunglsins sæi geimfari sólmyrkva og þunnan rauðan hring umlykja myrkvaða Jörð – án efa tignarleg sjón.

Tunglmyrkvi, rautt tungl

Tunglmyrkvinn að þessu sinni ber upp á næst nálægasta fulla tungli ársins 2019. Tunglið er með öðrum orðum í jarðnánd – 357.345 km í burtu.

Fullt tungl í jarðnánd er stundum kallað „ofurmáni“, þótt það sé ekkert „ofur“ við tunglið þá (ekki nema 15 tommu pizza sé ofurpizza miðað við 14 tommu pizzu).

Fullt tungl í jarðnánd er 14% stærra en fullt tungl í jarðfirrð. Þrátt fyrir það er afar erfitt að sjá nokkurn mun á stærð tunglsins á himninum.

Nálægasta fulla tungl ársins 2019 verður 19. febrúar næstkomandi, þá 356.762 km frá okkur.

Helstu tímasetningar

  Atburður Tímasetning m.v. Reykjavík*
  Tunglris 15:34
P1 Hálfskuggamyrkvi hefst 02:37
U1 Deildarmyrkvi hefst 03:34
U2 Almyrkvi hefst 04:41
  Almyrkvi í hámarki 05:12
U3 Almyrkva lýkur 05:43
U4 Deildarmyrkva lýkur 06:51
P4 Hálfskuggamyrkva lýkur 07:48
  Tunglsetur 11:05

Tunglmyrkvinn stendur yfir í 5 stundir og 11 mínútur.

Almyrkvinn stendur yfir í tæplega 1 klukkustund og 2 mínútur.

Tunglmyrkvi_21jan2019