Fréttasafn
  • Júpíter og Satúrnus á himni

Jólastjarna á himni?

Júpíter og Satúrnus nánast „snertast“ 21. desember 2020

15. des. 2020 Fréttir

Mánudagskvöldið 21. desember 2020 verða Júpíter og Satúrnus sérlega þétt saman á himni. Raunar hafa þær ekki verið svona nálægt hvor annarri, frá Jörðu séð, síðan 16. júlí árið 1623. Líklega sá enginn samstöðuna þá. Þá voru pláneturnar nefnilega svo nálægt sólinni.

Svarthol_FB_cover

Fara þarf alla leið aftur til Sturlungaaldar til að finna álíka þétta samstöðu plánetnanna sem lá vel við athugun, nánar tiltekið þann 4. mars árið 1226. Sama ár og Viðeyjarklaustur var stofnað. Skyldi Snorri Sturluson hafa virt þá samstöðu fyrir sér þegar hann dvaldi í Noregi?

Hvað sést?

Í haust hafa pláneturnar smám saman færst nær hvor annarri á himninum. Mánudagskvöldið 21. desember verður bilið á milli þeirra minnst. Aðeins 0,1 gráða skilur þær að. Þær virðast snertast - virka nánast sem ein.

Screenshot-2020-12-15-at-11.11.33Samstaða Júpíters og Satúrnusar mánudagskvöldið 21. desember 2020, lágt á suðvesturhimni. Mynd: Stellarium.

Í raun skilja þó næstum 800 milljónir km á milli þeirra. Satúrnus er nú um stundir 1,6 milljarða km frá Jörðu en Júpíter tæpa 900 milljónir km frá okkur. Ljósið frá Júpíter því rúman hálfan fótboltaleik að berast til Jarðar eða 48 mínútur en heilan fótboltaleik frá Satúrnusi eða 1 klukkustund og 30 mínútur.

Handkíkir hjálpar mjög en útsýnið í gegnum stjörnukíki verður stórfenglegt! Þá sjást Galíleótunglin fjögur við Júpíter og nokkur af tunglum Satúrnusar sjást vel líka. Satúrnus verður áberandi daufari en Júpíter. Með stjörnukíki sjást hringarnir vel og skýjabeltin á Júpíter.

Screenshot-2020-12-15-at-11.13.50Útsýnið í gegnum sjónauka við 150x stækkun. Mynd: Stellarium

Sést samstaðan frá Íslandi?

Já og nei. Það fer eftir því hvar á landinu þú ert stödd eða staddur.

Pláneturnar liggja best við athugun um klukkan 17 þennan mánudag. Þá verða þær mjög lágt á lofti í suðvestri.

Þegar orðið er nógu dimmt í Reykjavík verður tvíeykið aðeins 3 gráður fyrir ofan sjóndeildarhring. Á Akureyri verða þær helmingi lægra á lofti eða 1,5 gráðu yfir sjóndeildarhring á sama tíma.

Pláneturnar hverfa loks undir sjóndeildahring um klukkan 18. Svo glugginn til að sjá þær þegar bilið er þéttast er stuttur.

Þetta þýðir að ekkert má skyggja á, hvorki byggingar né fjöll.

Frá Norðurlandi er því útilokað að sjá samstöðuna en sunnlendingar eiga ögn meiri möguleika ef veður leyfir og ekkert skyggir á.

Með öðrum orðum, það er því miður nánast útilokað fyrir flesta Íslendinga að berja dýrðina augum.

Hvað gerist þetta oft?

Á tæplega tuttugu ára fresti. En ekki eru allar samstöður jafn góðar.

Júpíter er um það bil 12 ár að ganga um sólina en Satúrnus tæp 30. Á nálega 20 ára fresti tekur Júpíter „framúr“ Satúrnusi. Þá er sem pláneturnar tvær mætist á himninum og eiga stefnumót. Í tungumáli stjörnufræðinnar er þetta kallað samstaða.

Seinast var þétt samstaða 31. maí árið 2000. Þá var bilið á milli þeirra þó það breitt að tvö tungl hefðu komist fyrir í bilinu á milli þeirra. Pláneturnar voru þá reyndar líka mjög lágt á lofti. Samstaðan sást auk þess ekki frá Íslandi vegna sumarbirtunnar. 

Í nóvember árið 2040 (sjá mynd undir) verður önnur ekki alveg jafn þétt en samt mjög falleg samstaða Júpíters og Satúrnusar á morgunhimninum. Að morgni 2. nóvember verður sýningin sérlega glæsileg og skartar þá líka minnkandi tungli og Merkúríusi

Screenshot-2020-12-15-at-11.21.23

Næsta álíka þétta samstaða verður þann 16. mars árið 2080. Líklega munu þau sem eru börn í dag geta virt hana fyrir sér.

Það verður svo ekki fyrr en eftir árið 2400 að Júpíter og Satúrnus verða jafn þétt saman aftur.

Getur Júpíter gengið fyrir Satúrnus?

Já, en það gerist sárasjaldan. Seinast fyrir næstum 9000 árum og næst eftir 5500 ár.

Plánetur sólkerfisins liggja allar nokkurn veginn í sama fleti sem miðaður er út frá sporbraut Jarðar um sólina – dálítið eins og hlauparar á hlaupabraut. Þegar við horfum eftir fletinum geta pláneturnar virst í sömu sjónlínu.

Væru pláneturnar allar í nákvæmlega sama fleti myndi Júpíter ganga fyrir Satúrnus að þessu sinni og myrkva hann. Það gerist þó ekki vegna þess að sporbrautirnar halla örlítið.

Jup-Sat-6856Seinast gerðist það að Júpíter myrkvaði Satúrnus hinn 1. júní árið 6856 fyrir Krist. Þá hvarf Satúrnus alveg á bakvið Júpíter svo aðeins sitt hvor endinn á hringunum sáust. 

Næst myrkvar Júpíter Satúrnus árið 7541, þá tvisvar, hinn 16. febrúar annars vegar og 17. júní hins vegar. Get ekki beðið!

Ítalski stjörnufræðingurinn Aldo Vitagliano hefur tekið saman 160.000 ára skrá yfir alla myrkva Júpíters á Satúrnusi. Skráin hans sýnir að á þessu tímabili verða slíkir myrkvar á að meðaltali 3810 ára fresti eða 42 myrkvar milli áranna 80.000 f.Kr. og 80.000 e.Kr.

Vetrarsólstöður 2020

Klukkan 10:02 að morgni 21. desember verða vetrarsólstöður á norðurhveli Jarðar en sumarsólstöður á suðurhveli. Í Reykjavík rís sólin kl. 11:22 og sest 15:29 svo fullrar dagsbirtu nýtur í aðeins 4 stundir og 7 mínútur.

Eftir mánudaginn tekur sól að rísa á ný og dagur að lengjast.

Það styttist í vorið.

Jörð er svo næst sólu klukkan 13:51 laugardaginn 2. janúar 2021.

Heimildir