2016 hlýjasta árið frá upphafi mælinga

Kjartan Kjartansson 19. jan. 2017 Fréttir

Þriðja árið í röð var hitamet slegið á síðasta ári. Átta af tólf mánuðum ársins settu nýtt hitamet fyrir þann tiltekna mánuð ársins. Hnattræn hlýnun er nú orðin 1,1°C frá því á seinni hluta 19. aldar.

Athuganir bæði bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA og Haf- og loftslagsrannsóknarstofnunarinnar NOAA sýna að árið 2016 var það hlýjasta frá því að mælingar hófust fyrir tæplega 140 árum. Þetta var jafnframt þriðja árið í röð sem metið er slegið en áður höfðu árin 2014 og 2015 orðið hlýjustu ár sem um getur.

Meðalyfirborðshiti jarðar var 0,99°C meiri en miðgildi miðrar 20. aldar á síðasta ári. Hefur hnattrænn meðalhiti nú risið um 1,1°C frá því á seinni hluta 19. aldar, að mestu leyti vegna losunnar manna á gróðurhúsalofttegundum eins og koltvísýringi út í andrúmsloftið.

Hlýnunin hefur að mestu leyti átt sér stað undanfarin 35 ár en sextán af sautján hlýjustu árum mælisögunnar hafa átt sér stað eftir árið 2001. Auk þess að vera hlýjasta árið frá því að mælingar hófust settu átta mánuðir ársins hitamet fyrir þann tiltekna mánuð, janúar til og með september að júní undanskildum. Hinir mánuðirnir lentu í öðru sæti á eftir hliðstæðum mánuðum ársins 2015.

Meðalútbreiðsla hafíssins á norðurskautinu var einnig sú minnsta frá því að mælingar á henni hófust árið 1979, aðeins rúmlega tíu milljónir ferkílómetra samkvæmt tölum NOAA. Við Suðurskautslandið var útbreiðsla hafíssins rúmlega ellefu milljónir ferkílómetra, sú önnur minnsta frá því að mælingar hófust.

Sterkur El niño-veðurviðburður einkenndi hluta árs 2015 og fyrsta ársþriðjung 2016. Vísindamenn áætla að meðalhiti jarðar hafi verið 0,12°C meiri á síðasta ári fyrir tilstuðlan El niño en hann hefði ella verið.

Rannsóknir NASA á meðalhita jarðar byggjast meðal annars á veðurathugunum frá 6.300 veðurstöðvum, athugunum á yfirborðshita sjávar sem gerðar eru með skipum og baujum og hitastigsmælingum sem gerðar eru á rannsóknastöð á Suðurskautslandinu. NOAA notar mikið af sömu gögnunum en vísindamenn stofnunarinnar nota hins vegar annað viðmiðunartímabil en NASA og beita öðrum aðferðum til að greina póla jarðarinnar og hnattrænan hita.