Vetrarsólstöður föstudagskvöldið 21. desember 2018

Sævar Helgi Bragason 18. des. 2018 Fréttir

Vetrarsólstöður verða klukkan 22:23 föstudagskvöldið 21. desember 2018. Halli norðurhvels Jarðar frá sólu er þá mestur svo sól er lægst á lofti frá okkur séð og birtustundir fæstar. Eftir föstudaginn tekur sól að rísa á ný.

  • Jörðin í desember 2018

Vetrarsólstöður verða klukkan 22:23 föstudagskvöldið 21. desember 2018. Halli norðurhvels Jarðar frá sólu er þá mestur svo sól er lægst á lofti frá okkur séð og birtustundir fæstar. Eftir föstudaginn tekur sól að rísa á ný.

Svarthol_FB_cover

Á föstudaginn rís sólin kl. 11:22 og sest kl. 15:29 í Reykjavík, svo lengd dagsins er aðeins 4 klukkustundir og 7 mínútur. Eftir tæplega mánuð verða birtustundirnar orðnar rúmlega fimm, svo breytingin er býsna hröð.

Á Akureyri rís sólin kl. 11:38 og sest kl. 14:42, svo fullrar dagsbirtu nýtur aðeins í 3 klukkustundir og 4 mínútur.

Fæstar eru birtustundirnar í Grímsey, aðeins rúmlega tvær stundir.

Vetrarsólstöður marka upphaf vetrar á norðurhveli en upphaf sumars á suðurhveli – ef við skilgreinum árstíðirnar milli sólstaða og jafndægra.

árstíðir, vetur, sumar, vor, haust, jafndægur, sólstöður

Þótt birtustundirnar séu fæstar á þessum árstíma er sólarhringurinn lengstur – þ.e.a.s. tíminn milli hádega er mestur. Þessa dagana er einn sólahringur um það bil hálfrí mínútu lengri en 24 stundir.

Ástæðan fyrir mismuninum er sú, að klukkurnar okkar mæla ekki sanna lengd sólarhringsins. Til þess að mæla tímann milli tveggja hádega nákvæmlega þyrftum við sólúr.

Sólarhringurinn er alltaf lengri en 24 stundir á vetrarsólstöðum en rétt innan við 24 stundir á jafndægrum.

Ástæðan fyrir þessu er sú, að í byrjun janúar (3. janúar 2019) er Jörðin næst sólu. Þá ferðast plánetan okkar örlítið hraðar um sólina (~109.000 km/klst) en þegar hún er fjærst sólu í júlí (~106.000 km/klst).

Þetta þýðir að Jörðin þarf að snúa sér örlítið meira um möndul sinn svo sólin komist aftur á hádegisstað. Þess vegna er sólarhringurinn aðeins lengri á þessum árstíma.

Sólargangurinn og klukkurnar okkar eru ekki samstilltar. Það veldur ýmsu sem kemur mörgum spánskt fyrir sjónir, til dæmis það að sólarupprás verður mínútu seinna næstu daga á eftir sólstöðum en ætla mætti. Dagurinn lengist sem sagt meira í annan endann til að byrja með.

Það að sólarhringurinn sé hálfri mínútu lengri hljómar ekki mikið – en safnast þegar saman kemur. Þetta verður til þess að seinka hádeginu: Föstudaginn 21. desember er sól á hádegisstað kl. 13:25 en á Gamlársdag verður hádegi kl. 13:30.

Það að Jörðin ferðast mishratt um sólina veldur því að árstíðirnar eru sömuleiðis mislangar. Lengsta árstíðin er frá sumarsólstöðum í júní til jafndægra í september, tæplega 94 dagar. Þá er Jörðin lengst frá sólu og ferðast hægast um hana.

Árstíðin sem nú er að hefjast, veturinn milli sólstaða í desember og jafndægra í mars, er aftur á móti styst, tæplega 89 dagar.

Fullt tungl daginn eftir vetrarsólstöður

Laugardaginn 22. desember lýsir síðasta fulla tungl þessa árs upp lengstu nóttina. Ég hvet fólk til að gjóa augunum að tunglinu þegar það rís síðdegis á laugardaginn.

Það kemur til með að líta út fyrir að vera ansi stórt en það er skynvilla sem má sennilega rekja til þess hvernig við skynjum himinninn. Við skynjum himinninn meira eins og súpuskál frekar en hálfkúlu og heilinn stækkar myndina af tunglinu.

Í raun og veru erum við einum jarðradíusi lengra frá tunglinu þegar það rís en þegar það er hæst á lofti.

Glöggir taka eflaust eftir því að tunglið kemst mjög hátt á lofti. Á þessum árstíma er tunglið álíka hátt á lofti og sólin á sumrin.

Næsta fulla tungl, fyrsta fulla tungl ársins 2019, verður aðfaranótt 21. janúar. Þá gengur tunglið inn í skuggann sem Jörðin varpar út í geiminn svo úr verður almyrkvi á tungli . Þessi tunglmyrkvi sést allur frá Íslandi en er í hámarki kl. 05:12 á mánudagsmorgni.

Myrkvinn verður á einu af nálægustu fullu tunglum ársins 2019, svo þú munt án efa sjá internetið ýkja myrkvann upp úr öllu valdi og tala um „blóðrauðan ofurmána“ – þótt það sé ekkert „ofur“ við nálægasta fulla tunglið.

Svarthol_FB_cover