Fylgstu með rökkrinu og silfurskýjum á himni

Sævar Helgi Bragason 24. júl. 2017 Fréttir

Aðfaranótt 24. júlí hófst almannarökkur í Reykjavík en 31. júlí á Akureyri. Í nótt hófst þar með það tímabil árs sem mestar líkur eru á að silfurský (noctilucent clouds) sjáist á himni.

  • Silfurský

Nú er sá tími árs runninn upp eftir sumarsólstöður að farið er að rökkva eftir stöðuga dagsbirtu. Rökkur eða ljósaskiptin er tíminn milli myrkurs og sólarupprásar eða sólseturs og myrkurs. Rökkrið verður til vegna þess að lofthjúpurinn dreifir sólarljósi þegar sólin er enn nógu nálægt sjóndeildarhringnum en samt nógu langt neðan hans. Geislar sólar lýsa upp lögin næst sjóndeildarhringnum svo landslagið í kringum okkur er hvorki fullkomlega upplýst né fullkomlega dimmt.

Því lengra sem sólin gengur til viðar undir sjóndeildarhringinn, því dimmara er rökkrið. Þegar sólin er 18 gráður undir sjóndeildarhring — sem jafngildir 36 sólar- eða tunglþvermálum á himninum (sólin og tunglið þekja hálfa gráðu af himninum) — er orðið myrkur. Þegar sólin nær aftur 18 gráðu hæð undir sjóndeildarhringnum hefst dögun. Í rökkrinu er blái liturinn ráðandi í kringum okkur og dökknar þegar líður á kvöldiið eða lýsist þegar líður á morguninn.

Rökkrið fer sem sagt eftir sólarhæð miðað við sjóndeildarhringinn. Til eru þrjár mismunandi skilgreiningar á rökkri, allt eftir því hve langt undir sjóndeildarhring miðja sólar er. Almannarökkur, sem er bjartast, siglingarökkur og loks stjörnurökkur sem er dimmast.

Á morgnana hefst almannarökkur (civil twilight) þegar miðja skífu sólar er 6 gráður undir sjóndeildarhringnum og lýkur við sólarupprás sem er skilgreind þegar miðja sólskífunnar skríður upp fyrir sjóndeildarhringinn.

Á kvöldin hefst almannarökkur þegar miðja skífu sólar er að hverfa undir sjóndeildarhringinn og lýkur þegar hún er komin 6 gráður undir hann.

Almannarökkur er markar nokkurn veginn þau birtuskilyrði sem mannsaugað þarf til að sjá hluti vel í kringum sig. Við almannarökkur byrja björtustu stjörnur og plánetur að sjást, eins og margir tóku eftir síðastliðinn vetur þegar Venus birtist á himni við sólsetur.

Við almannarökkur sést líka skugginn sem Jörðin varpar út í geiminn í gagnstæða átt við sólarupprás eða sólsetur. Skugginn er dökkblátt, grátt eða jafnvel dökkfjólublátt belti alveg við sjóndeildarhringinn skömmu eftir sólsetur. Fyrir ofan hann sést, rétt eftir sólsetur eða skömmu fyrir sólarupprás, bleikt belti sem kallast belti Venusar. Bæði jarðskugginn og Venusarbeltið eru áberandi á kvöldin þessa dagana og ætti fólk að veita þeim athygli. Sjá má bæði fyrirbæri vinstra megin á myndinni hér undir sem sýnir upphaf almannarökkurs við Hótel Rangá.

Tunglið er líka alltaf einstaklega fallegt á þessum tíma árs, lágt á lofti í almannarökkrinu, sér í lagi þegar það er fullt (næst 7. ágúst 2017).

Almannarökkur við Hótel RangáMynd: Sævar Helgi Bragason

Á undan, eða eftir, almannarökkri, fer eftir hvort um sé að ræða morgun eða kvöld, er siglingarökkur (nautical twilight). Siglingarökkur er þegar sólin er milli 6 til 12 gráður undir sjóndeildarhringnum. Við siglingarökkur geta sæferndur ekki séð sjóndeildarhringinn á hafi úti. Við birtuskilyrði siglingarökkurs á mannsaugað erfitt með að greina birtu nálægt þeim stöðum á himninum þar sem sólin settist eða þar sem hún rís. Við siglingarökkur er hægt að sjá vel flestar stjörnur himins.

Stjörnurökkur (astronomical twilight) hefst, eða lýkur, þegar miðja skífu sólar er 18 gráður undir sjóndeildarhring. Fyrir það á morgnana eða eftir það á kvöldin er orðið nægilega dimmt til þess að daufustu stjörnur himins sjáist. Stjörnurökkur er dimmasta rökkrið og áður en nóttin hefst. 

Aðfaranótt 24. júlí hófst almannarökkur í Reykjavík en 31. júlí á Akureyri. Almannarökkur er þessa dagana dimmasti tími næturinnar hjá okkur — nálægt náttúrulegu miðnætti, eða um kl. 01:30.

Í nótt hófst þar með það tímabil árs sem mestar líkur eru á að silfurský (noctilucent clouds) sjáist á himni.

Silfurský sjást um miðnætti á þessum tíma árs. Þau eru örþunnar bláhvítar eða silfurleitar skýjaslæður sem fáir veita athygli þótt þau séu mjög falleg. Silfurský eru í 80-85 km hæð í miðhvörfunum, í kaldasta hluta lofthúpsins  — rétt undir hæð grænu norðurljósanna.

Skýin eru úr agnarsmáum ískristöllum sem eru 500 sinnum minni en breidd mannshárs. Við sjáum þessi ský vegna þess að við almannarökkur er sólin nógu lágt undir sjóndeildarhringnum til að lýsa þau upp. Blái liturinn er sennilega kominn til vegna þess að óson í heiðhvolfinu, 30 kílómetrum neðar, gleypir rauða litinn í sig en dreifir bláa. 

Til að silfurský myndist þarf hitastigið í þessari hæð að fara niður í um 150 stiga frost. Trausti Jónsson fjallar um silfurskýin í grein á veður.is en þar kemur meðal annars fram að mannanna verk kunni að hafa áhrif á myndun þeirra.

SilfurskýMynd: Kristian Pikner - Own work, CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=53662268

Silfurskýjatímabilinu lýkur um 20. ágúst í Reykjavík því aðfaranótt 16. ágúst sígur sólin meira en 6 gráður undir sjóndeildarhring og er þá orðið siglingarökkur. Að sama skapi hækkar hitastigið í miðhvörfunum. Þetta gerist 21. ágúst á Akureyri. Á þessum tíma er orðið vel nógu dimmt til að sjá norðurljós á himni, jafnvel fyrr.

Það er síðan ekki fyrr en 3. september í Reykjavík og 7. september á Akureyri að stjörnurökkur skellur á hjá okkur. Þá er stjörnuskoðunartímabilið formlega hafið og lýkur ekki fyrr en í lok apríl í Reykjavík en í byrjun apríl á Akureyri þegar ekki er lengur fyllilega dimmt á næturnar. Munurinn stafar af möndulhalla Jarðar og legu staðanna mislangt frá heimskautsbaugnum.

Tengt efni