30 ár liðin frá sprengistjörnunni 1987A

Sævar Helgi Bragason 23. feb. 2017 Fréttir

Hinn 23. febrúar 1987 sprakk stjarna í Stóra Magellansskýinu, sú nálægasta eftir að sjónaukinn var fundinn upp.

  • Sprengistjörnuleif SN 1987A.

Hinn 23. febrúar 1987 sprakk stjarna í Stóra Magellansskýinu sem er óregluleg dvergvetrarbraut á sveimi um Vetrarbrautina okkar. Stjarnan sprakk reyndar 168.000 árum fyrr því hún var í 168.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Engu síður var þetta nálægasta sprengistjarna sem sést hafði frá Jörðinni frá árinu 1604 eða eftir að sjónaukinn var fundinn upp. Engin sprengistjarna hefur verið jafn mikið rannsökuð og hún. 

Sprengingin markaði ævilok blárrar reginrisastjörnu sem var um það bil 20 sinnum massameiri en sólin okkar. Við sprenginguna ætti nifteindastjarna að hafa myndast en engin slík hefur fundist til þessa .

Á næturhimninum okkar er stjarnan Alnílam í miðju Fjósakvennanna í belti Óríons samskonar stjarna en þó rúmlega tvöfalt massameiri.

Frá árinu 1990 hefur Hubble geimsjónauki NASA og ESA fylgst grannt með þróun sprengistjörnuleifarinnar. Í janúar 2017 tók sjónaukinn nýjustu myndina af henni og sést hún hér að ofan. 

Tuttugu þúsund árum áður en stjarnan sprakk varpaði hún frá sér efni sem kastaðist í kekki og myndaði hring í kringum stjörnuna. Þegar efni frá sprengingunni sjálfri rakst á þetta eldra efni byrjar það að hitna og lýsast upp.

Þróun SN1987A