Áður óséðir „varðeldar“ á yfirborði sólar á nýjum nærmyndum Solar Orbiter gervitunglsins

Sævar Helgi Bragason 16. júl. 2020 Fréttir

  • Fyrstu nærmyndir Solar Orbiter

Á fyrstu nærmyndum Solar Orbiter gervitungls ESA og NASA sést fjöldi áður óséðra smárra sólblossa sem kallaðir eru „varðeldar“. Þeir eru meira en milljón sinnum minni en hefðbundnir sólblossar en gætu haft áhrif á hitastig sólkórónunnar.

Solar Orbiter var skotið á loft 10. febrúar 2020. Um borð eru sex sjónaukar eða myndavélar og fjögur önnur mælitæki sem skynja næsta nágrenni í kringum gervitunglið.

Vonir standa til um að mælingar gervitunglsins veiti okkur nýja vitneskju um uppruna sólvindsins – straum rafhlaðinna agna sem valda til dæmis norðurljósum .

Fyrr í sumar, hinn 30. maí 2020, tók Solar Orbiter fyrstu nærmyndir sínar af yfirborði sólar úr 77 milljón km fjarlægð, helmingi nær sólu en Jörðin. 

Á myndum frá sjónauka sem nemur fjar-útfjólublátt ljós komu í ljós afar smáir sólblossar sem líkjast einna helst bálköstum hvert sem litið er en eru milljón eða þúsund milljón sinnum minni en hefðbundir sólblossar.

Solar_Orbiter_spots_campfires_on_the_Sun_annotated_pillarsEinn af „varðeldunum“ á yfirborði sólar.

Ekki er vitað hvort varðeldarnir séu aðeins litlar útgáfur af stórum sólblossum, eða hvort þeir verði til með öðrum hætti.

Strax eru þó komnar fram tilgátur um að þeir hafi áhrif á hitun kórónu sólarinnar, eina helstu ráðgátu sólareðlisfræði.

Sólkórónan er ysti efnishjúpur sólar – rafgashjúpur eða andrúmsloft sem umlykur sólina – og sést eingöngu með berum augum við sólmyrkva.

Kórónan nær milljónir kílómetra út í geiminn og er margfalt heitari en yfirborð sólar eða meira en milljón gráðu heit. Til samanburðar er yfirborð sólar, ljóshvolfið , „aðeins“ 5600°C heitt.

Ráðgátan er hvers vegna. Hún er svipuð því og að loftið í kringum varðeld á Jörðinni væri miklu heitara en varðeldurinn sjálfur.

Hvort varðeldarnir hafi í raun áhrif á hitun sólkórónunnar er of snemmt að segja til um. Í öllu falli hlökkum við  til að heyra af enn fleiri uppgötvun þessa nýja sólargervitungls.

Frétt á vef ESA