Almyrkvi á sólu í Bandaríkjunum 21. ágúst — 2% deildarmyrkvi í Reykjavík

Sævar Helgi Bragason 16. ágú. 2017 Fréttir

Mánudaginn 21. ágúst 2017 verður almyrkvi á sólu sjáanlegur frá Bandaríkjunum. Frá Íslandi sést lítilsháttar deildarmyrkvi um kvöldmatarleytið.

  • Almyrkvi á sólu 9. mars 2016 yfir Indónesíu

Mánudaginn 21. ágúst 2017 verður almyrkvi á sólu sjáanlegur frá Bandaríkjunum. Almyrkvinn gengur þvert yfir Bandaríkin, frá Oregon á vesturströndinni, þar sem hann hefst kl. 10:15 að staðartíma, til Suður-Karólínu á austurströndinni þar sem honum lýkur um 90 mínútum síðar. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1918 að almyrkvi gengur þvert yfir Bandaríkin en seinast sást almyrkvi frá meginlandi Bandaríkjanna árið 1979.

Almyrkvaslóðin — það svæði þar sem almyrkvi sést — er aðeins um 100 km á breidd en undir henni býr meira en tólf milljónir manna og margar milljónir til viðbótar búa í fáeinna klukkustunda akstursfjarlægð. Því er búist við mikilli bílaumferð að morgni 21. ágúst inn í almyrkvaslóðina.

Áætlanir gera ráð fyrir því að allt að átta milljónir manna leggi leið sína þangað. Umferðin verður líklegast sínu verst í Suður-Karólínu þar sem þéttbýlast er á austurströndinni. Ennfremur er búist við gríðarmiklu álagi á símkerfum innan almyrkvaslóðans þegar fólk reynir að deila myndum og öðru efni á samfélagsmiðla.

Ég mun fylgjast með almyrkvanum frá Casper í Wyoming ásamt nokkrum öðrum Íslendingum. Þar hefst almyrkvinn kl. 11:42 að staðartíma og stendur yfir í 2 mínútur og 26 sekúndur.

Frá Íslandi sést lítilsháttar deildarmyrkvi. Í Reykjavík hylur tunglið aðeins 2,2% sólar en deildarmyrkvinn hefst kl. 18:21, er í hámarki kl. 18:44 og lýkur kl. 19:05. Nota þarf sólmyrkvagleraugu og/eða sólarsíu til að fylgjast með deildarmyrkvanum.

Staður % deildarmyrkvi Myrkvi hefst Myrkvi í hámarki Myrkva lýkur
Reykjavík 2,2% 18:21 18:44 19:05
Ísafjörður 1,95% 18:19 18:40 19:01
Akureyri 1,3% 18:23 18:42 19:00
Egilsstaðir 0,96% 18:26 18:43 18:59
Höfn 1,23% 18:27 18:44 19:02
Vestmannaeyjar 2,1% 18:23 18:45 19:07

Almyrkvar á sólu verða að meðtali á um 18 mánaða fresti einhvers staðar á Jörðinni. Hins vegar geta mörg hundruð ár liðið á milli þess að almyrkvar sjáist frá tilteknum stað. Til dæmis líða 593 milli almyrkva í Reykjavík (seinast árið 1433, næst árið 2026) en 1505 ár milli almyrkva á Akureyri (seinast árið 1469, næst árið 2974).

Ég hef verið á ferðalagi um Bandaríkin að undanförnu og geta áhugasamir séð fáeinar myndir á Instragram og Twitter.

 

Litríkt ský hylur sólina yfir Yellowstone þjóðgarðinum // Tiny water droplets create a colorful cloud that hides the Sun for a moment over Yellowstone National Park #clouds #sky #sun #shotoniphone #iphone7

A post shared by Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) on

 

Grand Prismatic hverinn í Yellowstone þjóðgarðinum. Litadýrðin er vegna hitakærra jaðarörvera sem þrífast við hátt sýru- og hitastig í hvernum // The Grand Prismatic Spring in Yellowstone National Park. The colors are due to extremohiles that thrive in the hot spring. #shotoniphone #iphone7 #naturephotography #nature

A post shared by Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) on