Annar hringur finnst um dvergreikistjörnuna Quaoar

Sævar Helgi Bragason 12. maí 2023 Fréttir

Athuganir leiða í ljós tvo hringa innan Roche-markanna í kringum Quaoar

  • Teikning af hring umhverfis útstirnið Quaoar

Stjörnufræðingar hafa uppgötvað annan hring í kringum dvergreikistjörnuna Quaoar. Hringurinn fannst á meðan rannsóknir stóðu yfir á hring sem hafði óvænt fundist skömmu áður.

Quaoar er dvergreikistjarna sem fannst í Kuipersbeltinu árið 2002. Mælingar leiddu í ljós að hún er um það bil 1100 km í þvermál eða helmingi minni en Plútó. Yfirborðið er að megninu til úr vatnsís og eru þar merki um íseldfjöll. Quaoar skartar sömuleiðis tungli sem kallað er Weywot.

Ups_FB_cover

Í febrúar á þessu ári var sagt frá því hér Stjörnufræðivefnum að hringur hefði fundist umhverfis Quaoar. Voru þar ástralskir stjörnuáhugamenn að verki. Hringurinn var óvenjulegur því hann reyndist handan Roche-markanna svonefndu.

Alla jafna ætti efni utan Roche-markanna að þjappast saman og mynda tungl en innan þeirra ætti efnið að sundrast og mynda hring.

Rétt eins og fyrri hringurinn er nýfundi hringurinn sömuleiðis handan Roche-markanna og veldur það vísindamönnum heilabrotum.

Hvorugur hringanna sést með sjónaukum. Báðir fundust þegar fylgst var með Quaoar ganga fyrir eða myrkva stjörnu í bakgrunni. Við það dró úr birtu stjörnunnar í bakgrunni svo að hringar komu í ljós.

Quaoar er ekki eina útstirnið sem skartar hringum. Smástirnið 10199 Chariklo og dvergreikistjarnan Hámea gera það sömuleiðis en innan Roche-markanna.