Curiosity finnur óvæntar vísbendingar um vatn í fortíð Mars

Sævar Helgi Bragason 11. feb. 2023 Fréttir

Gárur í setlögum í hlíðum Sharp-fjalls á Mars, lendingarstað Curiosity jeppans, benda til ölduganga í grunnu stöðuvatni sem þar var fyrir milljörðum ára.

  • Curiosity jeppinn í Marke Band dalnum á Mars

Mars-jeppinn Curiosity hefur fundið ævafornar gárur sem urðu til á botni grunns stöðuvatns í Gale-gígnum á Mars. Gárurnar eru sönnun fyrir öldugangi á stöðuvatninu.

Curiosity jeppinn lenti við rætur hins 5 km háa Sharp-fjalls á Mars árið 2012. Fyrstu tvö árin varði jeppinn í að rannsaka merki um vatn í kringum fjallið en hefur frá árinu 2014 ekið löturhægt upp hlíðar þess.

Fjallið hefur líklegast staðið eins og eyja upp úr grunnu stöðuvatni sem umlék það. Sönnunargögn sem jeppinn hefur fundið benda til þess að stöðuvatnið hafi verið lífvænlegt þótt ekki hafi fundist nein merki um líf hingað til. 

Curiosity ók fram á súlfatsvæði síðastliðið haust. Töldu vísindamenn að þá hefðu þau séð síðustu sönnunargögnin um stöðuvatnið sem eitt sinn þakti svæðið. Súlfötin eru sölt sem talin eru hafa orðið til eða setið eftir þegar stöðuvatnið þornaði upp.

Þess vegna kom mjög á óvart þegar jeppinn fann bestu sönnunargögnin til þessa um gárur í setlögunum. Það sýnir að fyrir milljörðum ára varð öldugangur í vatninu sem hrærði upp í seti á botni vatnsins. Gárurnar sjást vel á myndinni hér undir.

Gárur í setlögum á Mars

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Þetta gáru-setlag er svo grjóthart að jeppinn hefur enn ekki náð að bora í það þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Leit stendur yfir að mýkra bergi til að rannsaka berggrunninn betur.

Sharp-fjall er lagskipt. Elstu lögin eru neðst en þau yngstu efst. Þegar jeppinn ekur upp hlíðar fjallsins ferðast hann því í gegnum tímann.

Þetta gerir vísindamönnum kleift að rannsaka hvernig Mars breyttir úr hlýjum og blautum stað sem liktist Jörðinni í fortíðinni, yfir í þá nístingsköldu eyðimörk sem reikistjarnan er í dag.

Jeppinn stefnir nú að öðrum forvitnilegum stað, Gediz Vallis. Þessi dalur er vindrofinn en í gegnum hann liggur farvegur sem á rætur ofar á Sharp-fjalli og er talinn eftir uppþornaða á.

Grunur leikur á að blautar skriður hafi fallið niður árfarveginn og flutt með sér hnullunga og set á stærð við bíla í skriðusvuntu sem liggur á dalbotninum. Dalbotninn sést á miðri mynd hér undir.

Mars-curiosity-gediz-vallis

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Skriðusvuntan liggur við dalmynnið ofan á eldri lögum. Það segir okkur að hún sé með yngstu myndunum á svæðinu. Nærmyndir eins og sú sem sést hér undir sýnir hnullungana vel. Þar gefst kjörið tækifæri til að rannsaka grjót á tindi Sharp-fjalls sem Curiosity nær aldrei til.

Mars-curiosity-gediz-vallis-naermynd

Mynd: NASA/JPL-Caltech/LANL/CNES/CNRS/IRAP/IAS/LPG

Myndir teknar úr geimnum benda til þes að á þessum slóðum sé að finna óvenjulega bergmyndun sem rekja megi til einhverrar veðurfræðilegrar hringrásar, eins og eftir hrynur rykstorma. Þessi setlög geta kennt okkur eitt og annað um sveiflur í flóknu veðurfari Mars í fyrndinni.

Upprunaleg frétt á vef JPL