Dularfull blá ljós á himni

Geimskot í Kaliforníu veldur ljósasýningu yfir Íslandi

Sævar Helgi Bragason 13. jan. 2018 Fréttir

Föstudagskvöldið 12. janúar, kl. 22:11 að íslenskum tíma, var njósnagervitungli skotið á loft frá Vandenberg herstöðinni í Kaliforníu og olli hún ljósasýningu yfir Íslandi um það bil einni og hálfri klukkustund síðar

  • IMG_5488

Föstudagskvöldið 12. janúar, kl. 22:11 að íslenskum tíma, var NROL-47 njósnagervitunglinu skotið á loft frá Vandenberg herstöðinni í Kaliforníu með Delta IV (4) eldflaug United Launch Alliance. Um það bil einni og hálfri klukkustund síðar flaug annað þrep eldflaugarinnar yfir Ísland og olli fallegri ljósasýningu sem glöggir leiðsögumenn í norðurljósaferðum náðu á mynd.

Delta IV er tveggja þrepa eldflaug. Fyrra þrepið kom flauginni langleiðina út í geiminn en annað þrepið kom gervitunglinu á rétta braut sem er sennilega í um 1500 km hæð yfir Jörðinni. Þegar gervitunglið var komið á rétta braut var afgangseldsneyti losað úr öðru þrepinu

Annað þrepið var nógu hátt yfir Jörðinni til þess að eldsneytið lýstist upp af sólinni og olli það bláu þokunni sem sést á myndunum. Í svo mikilli hæð ríkir því sem næst fullkomið tómarúm svo eldsneytisskýið þenst út án nokkurrar fyristöðu og ferðast svo með öðru þrepinu og gervitunglinu. Eldsneytið er blanda fljótandi vetnis og fljótandi súrefnis.

Eldsneytisský frá Delta IV eldflaugMynd: Rúnar Jóhannsson

Myndirnar tóku þeir Rúnar Jóhannsson og Þröstur Freyr frá Reykjanesskaga í gærkvöld, skömmu fyrir miðnætti. Horft var í norðurátt og sést eldsneytisskýið við væng stjörnumerkisins Svansins. Græni bjarminn í bakgrunni eru norðurljós en rauðguli bjarminn í forgrunni er ljósmengun frá Reykjanesbæ.

Mér vitanlega er þetta í fyrsta sinn sem fyrirbæri af þessu tagi sést og næst á mynd yfir Íslandi.

IMG_7434Mynd: Þröstur Freyr

NROL47_traject_kaart_anotFerill gervitunglsins eftir geimskot

851x315_Saevar