ESA leitar að varasömum smástirnum með NEOMIR

Sævar Helgi Bragason 21. feb. 2023 Fréttir

Fyrirhugaður geimsjónauki á að hjálpa jarðarbúum að finna lítil og meðalstór smástirni sem gætu skollið á Jörðinni í framtíðinni

  • NEOMIR sjónaukinn leitar að smástirnum

Fyrirhugaður geimsjónauki ESA, Geimvísindastofnun Evrópu, á að finna smástirni niður í 20 metra á breidd og koma úr sólarátt. Verkefnið er mikilvægur hluti af því að verja jarðarbúa fyrir varasömum smástirnum gætu skollið á Jörðinni.

Að morgni 15. febrúar árið 2013 kom tuttugu metra breitt smástirni inn í andrúmsloftið á 18 km hraða á sekúndu. Þótt steinninn væri ekki ýkja stór sprakk hann með miklu afli í 20 km hæð yfir borginni Chelyabinsk í Rússlandi.

Höggbylgjan sem varð til við sprenginguna mölbraut rúður og olli tjóni á byggingum svo 1500 manns slösuðust. Enginn lést en flestir hlutu minniháttar meiðsl þegar glerbrotum rigndi yfir það.

Smástirni eins og það sem sprakk yfir Chelyabinsk skella á Jörðinni á 50 til 100 ára fresti að meðaltali. Sem betur fer eru stærri árekstrar miklu sjaldgæfari en þeir geta líka valdið miklu meira tjóni.

Stjörnufræðingar telja sig hafa fundið flest þau smástirni sem eru meira en 1 km að stærð. Lítil og meðalstór smástirni eru mun algengari og þjóta reglulega „hársbreidd“ framhjá Jörðinni.

Þau smástirni sem koma úr sólarátt, eins og Chelyabinsk steinninn gerði, koma öllum á óvörum. Vegna smæðar þeirra og ægibirtu sólar er mjög erfitt að finna þau fyrirfram.

Geimvísindastofnun Evrópu hyggur nú á smíði sjónauka sem á einmitt að finna þessi mögulega hættulegu smástirni áður en þau stefna á Jörðina.

Fyrirhugaður sjónauki kallast NEOMIR og verður skotið á loft árið 2030 gangi áætlanir eftir. Verður honum komið fyrir milli sólar og Jarðar á þyngdarpunkti sem kallast Lagrange 1.

Sjónaukinn á að vera að minnsta kosti hálfur metri í þvermál og nema innrautt ljós eða hita sem smástirnin geisla frá sér. Þannig týnast þau síður í birtunni frá sólinni

Með sjónaukanum standa vonir til að okkur takist að finna lítil og meðalstór smástirni að minnsta kosti þremur vikum áður en þau skella á Jörðina. Í versta falli fengjum við aðeins þriggja daga fyrirvara. 

Upprunaleg frétt á vef ESA