Hámarki sólsveiflunnar náð árið 2024?

Sævar Helgi Bragason 04. nóv. 2023 Fréttir

Rætist spá sólareðlisfræðinga má búast við að ljómandi góð norðurljósaár séu framundan

  • Sólblettir

Ný spá sólareðlisfræðinga bendir til þess að sólblettasveiflan nái hámarki fyrr en áður var talið eða árið 2024 og verði sömuleiðis ögn öflugri. Rætist spáin má búast við að framundan séu ljómandi góð norðurljósaár.

Hamfarir - Vísindalæsi

Sólin gengur í gegnum 11 ára virknisveiflu sem kölluð er sólblettasveiflan eða sólsveiflan (e. Solar Cycle). Sveiflan hefst þegar sólvirkni er í lágmarki og fáir sem engir sólblettir prýða sólina. Á fimm til sex árum fjölgar blettunum jafnt og þétt og færast nær miðbaug sólar uns hámarki er náð. Þá fjarar virknin aftur út og ný sveifla hefst.

Sólblettasveiflan er mislöng, stundum átta ár og stundum fjórtán ár, en að meðaltali ellefu ár. Þetta sýna athuganir sem gerðar hafa verið frá því að skráningar hófust árið 1755. Sveiflan sem nú stendur yfir er sú 25. í þeirri röð.

Fyrir fáeinum árum gáfu vísindamenn út spá fyrir sólsveiflu 25 sem gerði ráð fyrir því að hún næði hámarki milli 2023 og 2026. Fjöldi sólbletta yrði 95 til 130 sem er nokkuð undir meðallagi sem er milli 140 og 220 sólblettir.

En sólin kemur okkur sífellt á óvart. Sólblettir hafa reynst fleiri og sólvirknin meiri en búist var við. Nýja uppfærða spáin bendir til nú til þess að Sólsveifla 25 nái hámarki milli janúar og október 2024 og að fjöldi sólbletta verði milli 137 og 173. Spáin er uppfærð mánaðarlega þegar ný gögn bætast við.

Solar-cycle-25-prediction-2023

Þetta eru góðar fréttir fyrir íslenska ferðaþjónustu og áhugafólk um norðurljós. Þegar sólin er nálægt hámarki eru sólblettir gjarnan margir og stórir. Mikil orka hleðst upp í kringum þá sem losnar úr læðingi sem sólblossar. Þegar kórónuskvettur fylgja með sem ausast hraðfleygar rafhlaðnar agnir út í geiminn. Verði Jörðin í vegi þessa kröftuga rafagnaskýs – sem myndar geimveðrið – birtast gjarnan falleg og litrík norðurljós. 

Aftur á móti sýna athuganir að norðurljósin eru tíðari skömmu eftir að hámarki sólvirkninnar er náð. Það er vegna þess að kórónugeilar eru stöðugari á rólegri sól. Úr kórónugeilum streymir líka hraðfleygur sólvindur sem veldur sömuleiðis kvikum og litríkum norðurljósum í lengri tíma. 

Rætist spárnar ættu næstu ár  því að vera prýðisgóð norðurljósaár.

Frétt frá SWPC NOAA

Frétt frá Sky & Telescope