Hubble fylgist með breytilegu ofsaveðri á ofurheitri fjarreikistjörnu

Sævar Helgi Bragason 07. jan. 2024 Fréttir

Veðurspáin á WASP-121 b gerir ráð fyrir 3000 gráðu heitum fellibyljum á daginn og járnregni á næturnar

  • Teikning af WASP-121 b

Stjörnufræðingar sem notuðu Hubble geimsjónaukann hafa fundið merki um fellibylji myndast og hverfa í andrúmslofti ofurheits gasrisa í 880 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Niðurstöðurnar eru mikilvægt framfaraskref í skilningi okkar á veðrakerfum annarra reikistjarna.

Hamfarir - Vísindalæsi

Reikistjarnan WASP-121 b er heitur gasrisi (svipaðs eðlis og Júpíter nema mjög heitur) sem sveimar um stjörnu í um 880 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. 

Reikistjarnan gengur um móðurstjörnuna sína, sem er ekki ósvipuð sólinni okkar en aðeins heitari, á aðeins 30 klukkustundum. 

WASP-121 b er svo nálægt sólinni sinni að önnur hlið hennar snýr ætíð að stjörnunni. Önnur hlið hennar er því mjög heit eða í kringum 2000 til 3000 gráður á Celsíus. Til samanburðar er basalthraunkvika um 1200 gráðu heit.

Stjörnufræðingarnir notuðu litrófsgöng sem Hubble geimsjónaukinn aflaði árin 2016, 2018 og 2019. Sjónaukinn hafði þá fylgst með reikistjörnunni ganga bæði fyrir og aftur fyrir sólina sína trekk í trekk.

Þegar búið var að hreinsa gögnin og vinna úr þeim fundu stjörnufræðingarnir merki um breytilega heita bletti í lofthjúpi reikistjörnunnar. 

Líkön benda til þess að blettirnir séu risavaxnir fellibyljir og skil sem myndast á brennheitri daghliðinni en tortímast á næturhliðinni vegna mikils hitastigsmunar. Líftími byljanna virðist í kringum fimm WASP-121 b sólarhringar. 

Niðurstöðurnar marka þáttaskil í athugunum okkar á veðrakerfum fjarlægra reikistjarna.

Myndskeiðið hér undir sýnir hitastigsspá yfir 130 sólarhringa á WASP-121 b við sólarupprás, hádegi, sólsetur og miðnætti. Í björtu, gulu blettunum nær hitastigið meira en 2000 gráðum á Celsíus. Hitastigsmunurinn á daghliðinni og næturhliðinni veldur því að járn og aðrir þungmálmar sem gufa upp í hitasvækjunni á daginn, þéttist og verði að járn-úrkomu á næturhliðinni.

Frá frá ESA

Myndir: NASA, ESA, Q. Changeat et al., M. Zamani (ESA/Hubble)