Hubble skoðar glitrandi kúluþyrpingu

Sævar Helgi Bragason 07. sep. 2023 Fréttir

Kúluþyrpingin Terzan 12 roðnar vegna ryks í Vetrarbrautinni

  • Heic2308a-kuluthyrping-terzan-12

Á þessaru nýju mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést glitrandi stjörnuskari í kúluþyrpingunni Terzan 12. Þyrpingin er falin á bak við gas og ryk í Vetrarbrautinni okkar sem gleypir ljósið frá henni og gerir hana rauðleitari.

Ups_FB_cover

Kúluþyrpingar eru svermir gamalla stjarna sem sveima eins og fylgitungl um Vetrarbrautina okkar. Við vitum um 150 slíkar en flestar eru í hjúpnum umhverfis Vetrarbrautina og margar þeirra falleg viðfangsefni stjörnuáhugafólks.

Kúluþyrpingin sem hér sést var mynduð fyrir rannsóknarverkefni sem snýst um að kanna kerfisbundið þær tiltölulega fáu kúluþyrpingar sem liggja að miðju Vetrarbrautarinnar. Terzen 12 er ein þeirra en hún er í 15 þúsund ljósára fjarlægð frá Jörðu. 

Frá okkar sjónarholi er mikið ryk á milli hennar og okkar. Því er erfitt að rannsaka hana. Rykið veldur því líka að ljós sem í raun er blátt virkar rauðleitt frá okkur séð. Stjörnufræðingar kalla það geimroðnun og er hún meginástæða litbrigðanna á myndinni. Því meira ryk sem liggur á milli okkar og þyrpingarinnar, þeim mun meira roðnar ljósið.

Á myndinni eru björtustu rauðu stjörnurnar útþandir, aldraðir risar, mörgum sinnum stærri en sólin okkar. Þessar stjörnur liggja milli Jarðar og þyrpingarinnar. Örfáar gætu raunverulega tilheyrt þyrpingunni. Björtustu, heitu, bláu stjörnurnar eru líka í sömu sjónlínu en tilheyra ekki þyrpingunni sem inniheldur aðeins gamlar, rauðleitar stjörnur.

Heic2308b-kuluthyrping-terzan-12

Samsett mynd sem sýnir hvar kúluþyrpinguna Terzen 12 er að finna á himninum.
Mynd: NASA, ESA, Stéphane Guisard, ESO, Digitized Sky Survey, ESA/Hubble, Roger Cohen (Rutgers University), Joseph DePasquale (STScI)

Frétt frá ESA