InSight öðlast enn betri sýn á kjarna Mars

Sævar Helgi Bragason 09. maí 2023 Fréttir

Skjálftamælingar á Mars benda til að kjarni Mars sé bæði minni og þéttari en áður var talið

  • 2-pia25827-insight-detects-quakes-1041

Skjálftar sem urðu á gagnstæðri hlið við lendingarstað InSight könnunarfarsins á Mars hafa hjálpað reikistjörnufræðingum að átta sig betur á stærð og uppbyggingu kjarna Mars. Mælingarnar benda til þess að hann sé bæði minni og þéttari en áður var talið.

Þann 25. ágúst og 18. september árið 2021 urðu tveir nokkuð snarpir skjálftar á Mars. Sá fyrri mældist 4,2 að stærð en sá seinni 4,1. Báðir urðu þeir gagnstæðri hlið plánetunnar miðað við lendingarstað InSight könnunarfarsins.

Ups_FB_cover

Fjarlægðin og stærð skjálftanna var lykilatriði því að bylgjurnar komust þá bæði dýpra í gegnum Mars og voru nógu „háværar“ til að InSight næmi þær.

Að sögn Jessicu Irving, jarðvísindamanns við Bristholháskóla í Bretlandi þurfti bæði heppni og færni til að nema skjálftana og kreista nothæf gögn úr mælingunum. „Mun erfiðara er að nema skjálftar sem verða á fjærhliðinni því mikil orka glatast þegar skjálftabylgjurnar ferðast í gegnum reikistjörnuna,“ sagði hún.

Skjálftarnir tveir urðu rúmu einu Marsári (tveimur jarðarárum) eftir að InSight lenti á Mars. Það hjálpaði til því á þeim tíma höfðu skjálftafræðingar náð að þjálfa sig í að skilja gögnin. 

1-pia25680-insights-seismometer-1041

Skjálftamælir InSight á Mars. Mynd: NASA/JPL-Caltech

Skipti líka sköpum að loftsteinaárekstur olli öðrum skjálftanum. Árekstrar gefa nákvæma staðsetningu og betri skálftagögn að vinna úr. Á Mars eru engir skorpuflekar svo flestir skjálftar verða vegna álagsbrests í sprungum í skorpunni og vegna loftsteinaárekstra.

Skjálftamælingarnar benda til þess að kjarni Mars sé að mestu leyti fljótandi járn en innihaldi líka önnur frumefni eins og brennistein, súrefni, kolefni og vetni. Þá virðist hann bæði aðeins minni og þéttari en áður var talið.

Upplýsingar um kjarna og innri uppbygginu reikistjörnu eru mikilvægar fyrir skilning okkar á því hvernig reikistjörnur verða til.

InSight lenti á Elysium Planitia svæðinu á Mars hinn 26. nóvember árið 2018 til að rannsaka innviði plánetunnar. Lýst var yfir leiðangurslokum rétt rúmum fjórum árum síðar eða í desember 2022.