Jafndægur að hausti 23. september 2023

Sævar Helgi Bragason 21. sep. 2023 Fréttir

Laugardaginn 23. september kl. 06:50 verða haustjafndægur á norðurhveli Jarðar. Hvað er svona merkilegt við jafndægur?

  • Jafndægur á norðurhveli

Laugardaginn 23. september kl. 06:50 verða haustjafndægur á norðurhveli Jarðar og vorjafndægur á suðurhveli. Á jafndægrum færist sólin undir miðbaug himins, frá norðri til suðurs, þar til hún nær syðstu stöðu á sólstöðum í desember.  Haustið er formlega gengið í garð, að minnsta kosti stjarnfræðilega séð.

Ups_FB_cover

Stjarnfræðilega séð verða árstíðaskipti við jafndægur og sólstöður. Við jafndægur í september kveðjum við sumarið og tökum á móti haustinu sem lýkur svo á sólstöðum í desember þegar vetur gengur í garð. Í veðurfræði eru árstíðirnar skilgreindar öðruvísi.

Af hverju eru jafndægur ekki alltaf á sama degi?

Jafndægur geta alla jafna orðið 22-24. september. Ástæða þess að dagsetningarnar sveiflast er sú að almanaksárið (e. calendar year) okkar passar ekki nákvæmlega við hvarfárið (e. tropical year).

Hvarfárið er hinn raunverulegi tími Jarðar að ferðast um sólina og nemur 365,24 dögum. Almanaksárið er aftur á móti 365 dagar (stundum 366 dagar). Mismunurinn veldur því að tímasetning jafndægra og sólstaða færist til um um það bil sex klukkustundir á ári. Til að stilla það aftur þarf að leiðrétta almanaksárið með hlaupársdegi á fjögurra ára fresti (næstum alltaf).

Fleira hefur áhrif, svo sem pólvelta Jarðar, sveiflur á möndulsnúningi Jarðar og umferðartíma um sólina og breyting á lengd hvarfársins.

Algengast er að jafndægur beri upp 22. eða 23. september en sjaldan 21. og 24. september. Næst verða jafndægur 21. september árin 2092 og 2096. Seinast urðu jafndægur 24. september árið 1931 og næst árið 2303.

Eru dagur og nótt jafn löng?

Þótt heitið jafndægur vísi til þess að dagur og nótt séu jafn löng, er raunin ekki sú. Í Reykjavík er sólargangur 12 stundir og 13 mínútur. Ástæðan er sú að andrúmsloftið beygir sólarljósið eins og linsa og lengir sólarganginn. Sólin „lyftist“ því yfir sjóndeildarhringinn örfáum mínútum áður en hún skríður raunverulega yfir sjóndeildarhringinn. Að sama skapi hefur hún þegar sest við sólsetur þegar okkur sýnist hún enn yfir sjóndeildarhring. Hve mikil áhrifin eru fer eftir hitastigi og loftþrýstingi en í útreikningum er miðað við staðalloftþrýsting og 15 gráðu hita. 

Þann 25. september er sólargangur því sem næst 12 klukkustundir.

Norðurljósin eru að meðaltali algengust í kringum jafndægur

Athuganir sýna að norðurljós eru að meðaltali tíðust í kringum jafndægur, þ.e. í september/október og mars/apríl. Ástæðan er líklegast sú að þá er afstaða segulsviðs Jarðar heppilegust fyrir sólvindinn að komast inn og mynda norðurljós.

Á jafndægrum rís sólin í austri og sest í vestri

Jafndægur í mars og september eru einu tveir dagar ársins þar sem sólin rís akkúrat í austri og sest akkúrat í vestri.

Lærðu meira