Jólatunglið kviknar 18. desember

Sævar Helgi Bragason 14. des. 2017 Fréttir

Klukkan 06:30 mánudaginn 18. desember 2017 er nýtt tungl. Tunglið sem kviknar í þeim tunglmánuði sem nær yfir þrettándann kallast jólatungl.

  • Full tungl. Mynd: Sævar Helgi Bragson/Stjörnufræðivefurinn

Klukkan 06:30 mánudaginn 18. desember 2017 er nýtt tungl . Á nýju tungli hefst nýr tunglmánuður sem lýkur þegar næsta nýja tungl kviknar hinn 17. janúar 2018. Tunglið sem kviknar í þeim tunglmánuði sem nær yfir þrettándann (6. janúar) kallast jólatungl.

828x315_facebookhaus_Geimverur2

Jólatunglið er því kviknað. Næstu tvær vikur fer tunglið vaxandi á himninum uns það verður fullt 2. janúar. Samkvæmt gamalli þjóðtrú boðar vaxandi tungl á jólum gæfuríkt komandi ár.

Hátíð jóla hygg þú að;
hljóðar svo gamall texti:
Ársins gróða þýðir það,
ef þá er tungl í vexti.

En ef máni er þá skerður,
önnur fylgir gáta,
árið nýja oftast verður
í harðari máta.

Tunglmánuðurinn, tíminn milli tveggja nýrra tungl, sem nú er hafinn, er lengsti tunglmánuður 21. aldarinnar. Tunglmánuðurinn er að meðaltali 29 dagar, 12 klukkustundir og 44 mínútur en í þetta sinn er tunglmánuðurinn 7 klukkustundum lengri en að meðaltali eða 29 dagar, 19 klukkustundir og 47 mínútur.

En hvers vegna er tunglmánuðurinn mislangur?

Tunglið er á sporöskjulaga braut um Jörðina svo ferðahraði þess um Jörðina er mismikill. Tunglið ferðast hraðar í kringum Jörðina þegar það er næst Jörðu en örlítið hægar þegar það er fjærst Jörðu.

Lengstu tunglmánuðurnir verða þegar tvö ný tungl kvikna um svipað leyti og tunglið er í jarðfirrð. Hinn 19. desember, daginn eftir að jólatunglmánuðurinn hefst, verður tunglið í jarðfirrð, 406.603 km frá miðju Jarðar og fyrsta nýja tungl næsta árs, sem kviknar 2. janúar, verður sömuleiðis í jarðfirrð eða 406.464 km í burtu frá okkur. Þess vegna verða líka fullu tunglin nálægt þeim tíma þegar tunglið er í jarðnánd.

Þar að auki er Jörðin í sólnánd 3. janúar næstkomandi (daginn eftir fullt tungl sem er þá „ofurmáni“) en þegar Jörðin er næst sólu verða tunglmánuðurnir lengstir. Jörðin er alltaf næst sólu í byrjun janúar, svo tunglmánuðurnir eru lengstir  milli nýrra tungla í desember og janúar.

Stysti tunglmánuður aldarinnar verður í júní og júlí árið 2053, 29 dagar, 6 klukkustundir og 35 mínútur eða 6 stundum og 9 mínútum skemmri en að meðaltali. Lengsti tunglmánuður aldarinnar hefst núna 18. desember 2017.

Horfið til himins!

Lærðu meira

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskyldunaÍ bókinni Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna er fjallað ítarlega um tunglið og hollráð veitt um hvað hægt er að sjá á því.

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna fjallar um undrin sem sjá má á næturhimninum, frá sólsetri til sólarupprásar. Greint er frá því helsta sem sést með berum augum frá Íslandi, allt frá næturregnbogum og norðurljósum til gervitungla og stjörnuhrapa, að himintunglunum ógleymdum.

Sagt er frá tunglinu, sólinni og reikistjörnunum og hvernig best er að skoða þessa nágranna okkar í sólkerfinu. Ítarlega er fjallað um stjörnuhimininn og yfir fimmtíu fyrirbæri sem auðvelt er að finna, ýmist með handsjónauka, litlum stjörnukíki eða kröftugum stjörnusjónauka. Bókin geymir að auki fjölda glæsilegra mynda og vönduð stjörnukort.