Leita að geimverum í mistrinu

Kjartan Kjartansson 13. feb. 2017 Fréttir

Aðstæður á jörðinni fyrir milljörðum ára gefa stjörnufræðingum betri hugmynd um möguleikann á lífi á fjarreikistjörnum.

Sagt er að margt búi í þokunni en það vilja sumir stjarnvísindamenn sannreyna með því að rannsaka mistur í lofthjúpi fjarlægra reikistjarna. Til þess að átta sig betur á hvað getur skapað lífvænlegar aðstæður á fjarreikistjörnu og hvernig mistur lífrænna efnasambanda hefur áhrif á þær skoðaði hópur stjörnufræðinga jörðina eins og hún var fyrir milljörðum ára. Þær rannsóknir gætu hjálpað til við leitina að lífi á öðrum hnöttum í fyllingu tímans.

Vísindamennirnir rannsökuðu jörðina eins og hún var á upphafsöld, fyrir um fjórum til tveimur og hálfum milljarði ára. Þá telja menn að lofthjúpur jarðarinnar hafi verið allt öðru vísi en hann er í dag. Súrefni hafi verið af skornum skammti en styrkur metans, ammoniaks og annarra lífrænna efna sem mynduðu mistur í lofthjúpnum hafi verið mikill.

„Við segjum gjarnan að jörðin á upphafsöld hafi verið mest framandi reikistjarnan sem við höfum jarðefnafræðileg gögn um,“ segir Giada Arney frá Goddard-geimrannsóknastofnun NASA sem er aðalhöfundur tveggja greina sem hópurinn hefur birt. Hún og félagar hennar notuðu tölvulíkön til þess að líkja eftir aðstæðum í lofthjúpi þessarar ungu jarðar að því er kemur fram í frétt á vef NASA .

Ýmsar kenningar eru um hvernig mistur af þessu tagi gæti haft áhrif á möguleika lífs til að kvikna á reikistjörnum. Jafnvel er talið að efnahvörf í mistrinu gætu myndað fyrstu lífrænu sameindirnar á nýjum hnetti og sömuleiðis gæti mistrið varið viðkvæmt erfðaefni fyrir skaðlegri útfjólublárri geislun móðurstjarna reikistjarnanna. Á hinn bóginn gæti mistrið orðið svo þykkt að lítið ljós næði yfirborðinu og reikistjarnan hreinlega frosið.
Þessi síðastnefndu áhrif gætu hafa verið sérstaklega mikil á jörðinni á upphafsöld því að við upphaf hennar er talið að sólin hafi gefið frá sér allt að 80% minna ljós en hún gerir nú.

Niðurstöður Arney og félaga hennar voru þær að mistrið á jörðinni hafi haldið sjálfu sér í skefjum. Þegar það jókst og minna sólarljós komst inn dró úr efnahvörfunum sem myndaði mistrið. Það kom í veg fyrir að þokan breytti jörðinni í íshnött sem væri fjandsamlegur lífi. Mistrið hafi engu að síður lækkað hitastigið á jörðinni um 20°C.

Stjörnufræðingarnir prófuðu þessar aðstæður á upphafsaldarjörðinni fyrir aðrar gerðir stjarna en sólina okkar til að glöggva sig á hvernig lofthjúpar fjarreikistjarna gætu hafa þróast og þar með möguleikarnir á lífi á yfirborði þeirra. Svo virðist sem að aðstæður á jörðinni hafi verið sérlega heppilegar þar sem mistrið virkaði sem sólavörn. Hefði sólin verið eins sterk og í dag hefði mistrið orðið þéttara.

Í öðrum tilfellum þar sem stjarna geislaði meiri útfjólublárri geislun gat mistrið alls ekki myndast og í enn öðrum gat stór hluti ljóssins frá móðurstjörnunum smogið í gegnum mistrið þannig að reikistjörnurnar fengu vernd fyrir útfjólubláum geislum án þess að kólna verulega.

Með því að koma auga á mistur í lofthjúpi fjarreikistjarna gætu vísindamenn þannig fundið hugsanlega vænlega kosti til að leita að lífi. Arney og félagar benda jafnframt á að mælitæki geimsjónauka næstu ára séu líklega næmari fyrir þessu mistri en sumum gastegundum eins og metani en metan í lofthjúpi hefur verið talið mögulegt merki um líf.

„Mistur gæti reynst afar gagnlegt þegar við reynum að finna út hvaða fjarreikistjörnur eru líklegastar til að vera lífvænlegar,“ segir Arney.