Líf á Venusi?

Gastegund finnst í skýjaþykkni Venusar sem líf gefur alla jafna frá sér

Sævar Helgi Bragason 12. sep. 2020 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa fundið gastegundina fosfín í andrúmslofti Venusar. Uppgötvunin gæti bent til þess að örverur þrífist í skýjum þessarar systurplánetu Jarðar.

  • Venus, fosfín

Stjörnufræðingar sem notuðu tvo útvarpssjónauka á Jörðinni – James Clerk Maxwell sjónaukann á Hawaii og ALMA sjónaukann í Chile – hafa fundið merki um fosfíngas í skýjaþykkni Venusar. (Sjá fréttatilkynningu frá ESO (á íslensku))

Á Jörðinni verður fosfíngas aðeins til í iðnaði eða sem úrgangsefni frá örverum sem þrífast í súrefnissnauðu umhverfi.

Eftir að hafa útilokað aðrar hugsanlegar ólífrænar uppsprettur fosfíngassins (eldingar, eldfjöll, jarðfræðileg og efnafræðileg ferli í andrúmsloftinu) situr býsna stór spurning eftir: Hvað gæti mögulega framleitt fosfín á Venusi í því magni sem það mælist (20 hlutar úr milljarði)?

Svif-örverur í skýjum Venusar?

Fyrir geimöld voru uppi vangaveltur um að Venus væri hreint ekki svo ósvipuð Jörðinni: Skógi vaxin og rennblaut fenjapláneta sem skartaði jafnvel forsögulegum skriðdýrum.

En þegar fyrstu gervitunglin heimsóttu systurplánetu Jarðar kom í ljós að líf var óhugsandi á 480°C heitu yfirborði hennar.

Um leið varð til ráðgáta.

Þegar Venus og Jörðin voru yngri voru aðstæður á yfirborði beggja reikistjarna keimlíkar.

Á Venusi, eins og Jörðinni, voru líklega höf, lífræn efni í miklu magni, eldvirkni og eldingar – staður þar sem líf ætti hæglega að geta kviknað, þ.e. ef það sem við vitum um uppruna lífs á Jörðinni er á rökum reist.

Venus, eldgosSnemma í sögunni voru að öllum líkindum höf og eldvirkni. Mynd: NASA Visualization Studio

Venus hefur nefnilega ekki alltaf verið jafn heit og hún er í dag.

Í upphafi var sólin okkar daufari og kaldari en þegar hún eldist verður hún bjartari og heitari. Í fjarlægri fortíð virðist sem þetta hafi leitt til þess, að höf Venusar gufuðu upp. Í fjarlægri framtíð bíða Jarðar sömu örlög.

Gæti líf hafa kviknað í höfum Venusa fyrir óralöngur? Ef svo er, hvað varð þá um Venusarbúana þegar höfin gufuðu upp og yfirborðið varð of heitt fyrir líf?

Gæti verið að lífverur hafi leitað skjóls í andrúmsloftinu?

Þeir Carl Sagan og Harold Morowitz voru með þeim fyrstu til að ljá máls á þeim möguleika að líf gæti þrifist í efri skýjalögum Venusar. Birtu þeir grein um vangaveltur sínar í tímaritinu Nature árið 1967.

Aðstæður í efri hluta skýjaþykknisins eru nokkuð vinsamlegar lífi.

Þar, í um 50-60 km hæð, er nokkurn veginn sama hitastig og sami loftþrýstingur og á Jörðinni. Í svo mikilli hæð er orkuuppspretta fyrir hugsanlegt líf, auk næringarefna og vatns, þó af fremur skornum skammti líklega.

Í andrúmslofti Venusar er ennfremur óráðin gáta. Í skýjunum sjást breytilegar myndanir eða form sem ekki hefur tekist að útskýra. Í mælingum gervitungla sjáum við einnig óþekkt efni sem gleypir útfjólublátt ljós frá sólinni. Báðar ráðgátur gætu hugsanlega átt sér líffræðilega skýringu .

20190828_venus_akatsuki_tpr_headerSký í lofthjúpi Venusar á mynd japanska gervitunglsins Akatsuki. Í sýnilegu ljósi er andrúmsloft Venusar sviplaust en í útfjólubláu ljósi sjást dularfullar myndanir sem gleypa sólarljós. Mynd: JAXA/ISAS/DARTS/Damia Bouic

Eftir að jaðarörverur – örverur sem þrífast til dæmis helst í sterkri sýru eða háan hita – fundust á Jörðinni jókst áhugi á svífandi örverum á Venusi til muna.

Þessi áhugi varð til þess að stjörnufræðingar beindu James Clerk Maxwell útvarpssjónaukanum að Venusi og fundu óvænt merki um fosfíngas. Uppgötvunin var síðan staðfest með ALMA.

Í stjörnulíffræði er fosfíngas einn þeirra lífvísa sem risasjónaukar og geimsjónaukar framtíðar eiga að skyggnast eftir í andrúmslofti fjarreikistjarna. 

Í andrúmslofti Venusar fannst fosfíngas í magni (20 sameindir fyrir hvern milljarð sameinda) sem erfitt eða ómögulegt er að útskýra með ólífrænum ferlum.

Ekki er hægt að fullyrða að gasið eigi sér lífrænan uppruna. Stórkostlegar staðhæfingar krefjast enda stórkostlegra sönnunargagna.

Rannsaka þarf andrúmsloft Venusar miklu betur til að fá úr því skorið hvort það séu í raun svífandi Venusarbúar sem gefi frá sér fosfíngasið eða eitthvert annað óþekkt ólífrænt ferli.

Í dag eru á teikniborðum geimvísindastofnana loftbelgir sem gætu í framtíðinni svifið um skýjaþykkni Venusar, eins og sovésku Vega 1 og Vega 2 geimförin gerðu árið 1985. Hver veit nema á vegi þeirra verði fosfínmyndanir örverur?

Margar góðar ástæður eru fyrir því að kanna Venus, einkum og sér í lagi sú að varpa ljósi á fortíð hennar til að skilja framtíð Jarðar.

Á Venusi eru óðagróðurhúsaáhrif sem hafa soðið höfin burt og hækkað hitastigið upp í 480°C. Hvenær gerðist það? Af hverju gerðist það?

Ef við finnum svör við þessum spurningum vitum við betur hvaða framtíð bíður Jarðar.

Ef líf í deyjandi höfum gæti hafa „stigið upp til himna“, ef svo má segja, Þegar höf Jarðar taka að gufa upp eftir rúmam milljarð ára gæti himinninn verið síðasta vin lífsins á Jörðinni.

Að lokum má geta þess að Venus er á lofti í austri sem morgunstjarna þessa dagana og verður það fram í desember.

Screenshot-2020-09-13-at-23.40.48

Ítarefni fyrir áhugasama