Litadýrð Lónþokunnar á 28 ára afmælismynd Hubbles

Sævar Helgi Bragason 19. apr. 2018 Fréttir

Ár hvert halda vísindamenn upp á afmæli Hubble-sjónaukans í geimnum með því að birta nýja og glæsilega mynd frá honum. Í ár er hún af Lónþokunni í Bogmannninum

  • Lónþokan í Bogmanninum

Hubble geimsjónauka NASA og ESA var skotið á loft hinn 24. apríl árið 1990. Á þeim tuttugu og átta árum sem liðin eru hefur sjónaukinn bylt sýn okkar á alheiminn og tekið ótalmargar stórkostlegar ljósmyndir.

Ár hvert halda vísindamenn upp á afmæli sjónaukans í geimnum með því að birta nýja og glæsilega mynd frá sjónaukanum.

Í ár prýðir Lónþokan í Bogmannninum afmælismynd Hubbles. Hún er 55 ljósára breið geimþoka í um 4000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Þrátt fyrir þessa miklu fjarlægð sést þokan með berum augum við bestu aðstæður og virkar þá gráleit.

Á myndinni sést svæði sem er aðeins fjögur ljósár í þvermál. Skýið glóir vegna þess að í henni eru stjörnur að fæðast . Ungstirnin eru gríðarlega heit og geisla frá sér útfjólubláu ljósi sem jónar gasið og rykið í kring.  Geislun og stjörnuvindar móta þokuna og skapa þau mynstur sem við sjáum á myndinni.

851x315_Saevar