Lucy finnur óvæntan fylgihnött við smástirnið Dinkinesh

Sævar Helgi Bragason 06. nóv. 2023 Fréttir

Sjálfvirkt leiðsagnarkerfi Lucy gervitunglsins sannar gildi sitt

  • Smástirnið Dinkinesh

Annan nóvember síðastliðinn sveif Lucy gervitungl NASA framhjá smástirninu 152830 Dinkinesh. Kom þá óvænt í ljós fylgihnöttur sem reyndist sömuleiðis snertismástirni eða samtvinnað smástirni. Framhjáflugið var jafnframt tækifæri til þess að prófa sjálfstýringu gervitunglsins fyrir könnunarleiðangurinn í Trójusmástirnahópinn sem deila sporbraut með Júpíter.

Hamfarir - Vísindalæsi

Fyrir framhjáflugið bentu gögn frá WISE geimsjónaukanum til þess að Dinkinesh væri í kringum 760 metrar að stærð. Matið reyndist býsna nærri lagi því Dinkinesh mælist 790 metrar í þvermál um miðbaug, svipað að stærð og Lómagnúpur. 

Í fyrstu mældist fylgihnötturinn óvænti 220 metrar í þvermál, ekki ósvipað Eldfelli í Vestmanneyjum. Þegar fleiri myndir frá öðru sjónarhorni bárust til Jarðar kom annað óvænt í ljós: Fylgihnötturinn er snertismástirni (contact binary) var að ræða, það er tvö smástirni límd saman.

Dinkinesh-family-portrait-2

Smástirnið Dinkinesh (vinstri) og snertismástirnið óvænta (hægri). Mynd: NASA/Goddard/SwRI/Johns Hopkins APL

Dinkinesh og fylgihnötturinn eru minnstu smástini sem heimsótt hafa verið í smástirnabeltinu til þessa. Myndirnar sýna að þau eru sennilegast samlímdir berg- og rykhaugar, líkt og jarðnándarsmástirnin Bennu og Ryugu.

Tvísmástirnakerfi eins og Dinkinesh eru algeng í smástirnabeltinu. Þau urðu líklegast ekki til hvort í sínu lagi, heldur er fylgihnötturinn sennilegast brot úr Dinkinesh. 

Áhrif sem kallast YORP geta valdið því að smástirni tekur að snúast sífellt hraðar og kasta frá sér efni. Efnið sem þeysist burt myndar í upphafi hring sem þjappast á endanum saman í nýjan hnött. 

Veikur þyngdarkraftur frá nýja fylgihnettinum hægir svo á snúningi móðurhnattarins uns hans læsist þannig að báðir hnettir snúa sömu hlið að hvor öðrum.

Þann 20. apríl 2025 flýgur Lucy næst framhjá öðru smástirni, 52246 Donaldjohanson. Í ágúst 2027 heimsækir gervitunglið loks fyrsta Trójusmástirnið.

Frétt frá Sky & Telescope