Málmaör á pól hvíts dvergs

Sævar Helgi Bragason 26. feb. 2024 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa fundið merki um að hvítur dvergur hafi sundrað hnött og gleypt leifarnar

  • Hvítur dvergur gleypir hnött

Stjörnufræðingar sem notuðu Very Large Telescope ESO í Chile hafa fundið merki um ör úr málmum við pólsvæði hvíts dvergs. Örið virðist hafa orðið til eftir að hvíti dvergurinn gleypti lítinn hnött. 

Hamfarir - Vísindalæsi

Áður en stjarna eins og sólin okkar endar ævina þenst hún út og breytist í rauða risastjörnu. VIð það getur hún gleypt reikistjörnur og smástirni sem eru nærri henni. Þegar stjarnan svo loks deyr verður eftir hvítur dvergur – kólnandi kjarni stjörnunnar sálugu.

Stjörnufræðingar hafa nú í fyrsta sinn fundið ummerki þess að hvítur dvergir hafi sundrað hnetti og gleypt efnið úr honum sem hafi skilið eftir ör á yfirborði hvíta dvergsins. 

Örið er blettur af málmum á yfirborði hvíta dvergsins WD 0816-310. Mælingarnar benda til þess að málmana megi rekja til hnattar sem var álíka stór eða stærri en Vesta, sem er um 500 km að þvermáli og næst stærsta smástirnið í sólkerfinu okkar.  

Mælingar stjörnufræðinganna sýna að efnið er ekki jafndreift um hvíta dverginn, heldur virðist það hafa safnast saman á lítinn blett við annan segulpól stjörnunnar. Þá sýndu mælingar ennfremur að bletturinn breyttist í takti við segulsvið hvíta dvergsins. Svo virðist því sem segulsviðið hafi veitt málmunum eins og eftir trekt í átt að pólnum og myndað örið. 

Á Jörðinni verða norðurljós til í svipaðan hátt, þegar sólvindurinn ferðast eftir segulsviði Jarðar að pólsvæðunum. Eitthvað þessu líkt hefur aldrei áður sést á hvítum dvergum. 

Greint var frá niðurstöðunum í tímaritinu Astrophysical Journal Lettes. 

Frétt frá ESO