Himneskur nornakústur?

Ný mynd af Blýantsþokunni

Sævar Helgi Bragason 12. sep. 2012 Fréttir

ESO hefur birt nýja mynd af Blýantsþokunni sem er leifar stjörnu sem sprakk fyrir um 11.000 árum.

  • Blýantsþokan, NGC 2736, sprengistjörnuleif, geimþoka

Blýantsþokan prýðir þessa nýju mynd frá La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Þetta sérkennilega glóandi gasský er hluti af risavöxnum hring sem er leifar stjörnu sem sprakk fyrir um 11.000 árum. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum.

Þótt kyrrð ríki yfir næturhimninum og hann virðist óbreytanlegur er alheimurinn langt í frá kyrrlátur. Stjörnur fæðast og deyja í endalausri hringrás og stundum getur dauði stjörnu skapað ægifagrar myndanir þegar efni þýtur út í geiminn og ýmis furðuverk á himninum verða til.

Á þessari nýju mynd Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La SIlla stjörnustöðinni í Chile sést Blýantsþokan [1]fyrir framan aragrúa stjarna í bakgrunni. Þetta einkennilega ský sem einnig kallast NGC 2736 er lítill hluti af sprengistjörnuleif [2] í stjörnumerkinu Seglinu. Slæðurnar glóandi urðu til við ofsafenginn dauðdaga stjörnu fyrir um 11.000 árum. Skærasti hlutinn líkist blýanti og dregur þokan nafn sitt af því, jafnvel þótt í heild sinni minni hún fremur á nornakúst.

Sprengistjörnuleifin í Seglinu er gasskel sem er að þenjast út í kjölfar sprengistjörnunnar. Upphaflega ferðaðist höggbylgja frá sprengistjörnunni á margra milljóna kílómetra hraða á sekúndu en á sama tíma og það þandist út í geimnum, plægði það sig í gegnum gasið á milli stjarnanna sem hægði töluvert á henni. Þá mynduðustu fellingar í þokunni sem margar eru sérkennilegar í laginu. Blýantsþokan er bjartasti hluti þessarar risavöxnu skeljar.

Þessi nýja mynd sýnir stóra, reytingslega þræði, litla, bjarta gaskekki og bletti úr dreifðara gasi. Birta þokunnar stafar frá þéttu gassvæði sem höggbylgjan frá sprengistjörnunni hefur rekist á. Þegar höggbylgjan ferðast í gegnum geiminn, rekst það á miðgeimsefni. Í fyrstu hitnaði gasið upp í milljónir gráða en kólnaði síðan og gefur enn frá sér þá daufu birtu sem myndin fangar.

Stjörnufræðingar hafa kortlaggt hitastig gassins með því að skoða mismunandi liti þokunnar. Sum svæðin eru enn svo heit að geislunin kemur að mestu frá jónuðum súrefnisatómum en þau eru bláglóandi á myndinni. Önnur kaldari svæði eru rauðglóandi vegna geislunar frá vetni.

Blýantsþokan er um 0,75 ljósár að lengd og ferðast í gegnum miðgeimsefnið á um 650.000 km hraða á klukkustund. Þetta þýðir að þótt hún sé í um 800 ljósára fjarlægð frá jörðinni, mun hún breyta sjáanlega staðsetningu sinni á himninum miðað við stjörnur í bakgrunni á einni mannsævi. Þótt liðin séu 11.000 ár frá sprengingunni, breytir hún enn ásýnd næturhimnsins.

Skýringar

[1] Breski stjörnufræðingurinn John Herschel uppgötvaði Blýantsþokuna, sem einnig er þekkt sem NGC 2736 og er stundum kölluð Rák Herschels, árið 1835 þegar hann dvaldi í Suður Afríku. Hann lýsti þokunni sem „einstaklega langri, mjórri og sérstaklega daufri ljósrák“.

[2] Sprengistjörnur marka ævilok hámassastjarna eða hvítra dverga í þéttum tvístirnakerfum. Við sprenginguna verður til sprengistjörnuleif sem samanstendur af efninu sem þeyttist frá stjörnunni og þenst það út með ógnarhraða í miðgeimsefnið í kring. Sprengistjörnur eru helsta uppspretta þungra frumefna í miðgeimsefninu en það auðgar efnið sem nýtist í nýjar kynslóðir stjarna og reikistjarna.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1236.