Litríkur geimmávur

Sævar Helgi Bragason 26. sep. 2012 Fréttir

Á nýrri mynd fra ESO sést litríkt stjörnumyndunarsvæði sem hefur verið kallað Mávaþokan.

  • Mávaþokan, geimþoka, IC 2177, Sh 2-292, RCW 2, Gum 1,

Á þessari nýju mynd frá La Silla stjörnustöð ESO sést hluti af stjörnumyndunarsvæði sem hefur verið kallað Mávaþokan. Þetta gasský, sem ber formlega heitið Sharpless 2-292, minnir á höfuð mávs sem skín skært fyrir tilverknað orkuríkrar geislunar frá heitum, ungum stjörnum sem leynast í hjarta skýsins. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum.

Geimþokur eru með glæsilegustu fyrirbærum næturhiminsins. Þær eru miðgeimsský úr ryki, sameindum, vetni, helíumi og öðrum jónuðum gastegundum sem stjörnur verða til úr. Þótt þær séu misstórar og í ýmsum litum kveikir sérkennileg lögun þeirra í ímyndunarafli stjörnufræðinga sem sjá þær í fyrsta sinn sem leiðir til forvitnilegra nafngifta. Þetta tignarlega stjörnumyndunarsvæði er engin undantekning en það hefur verið nefnt Mávaþokan.

Á myndinni sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile, sést höfuð Mávaþokunnar [1]. Höfuðuð er hluti af miklu stærri þoku sem kallast IC 2177 og breiðir vænghaf sitt meira en 100 ljósár út í geiminn svo minnir á máv á flugi. Þetta gas- og rykský er í um 3.700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mávurinn sést best í heild sinni á víðmyndum.

Mávaþokan er á mörkum stjörnumerkjanna Einhyrningsins og Stórahunds, skammt frá Síríusi, björtustu stjörnu næturhiminsins. Þokan er þó meira en fjögur hundruð sinnum lengra í burtu en stjarnan fræga.

Gas- og ryksvæðið sem myndar höfuð mávsins skín skært vegna sterkrar útfjólublárrar geislunar frá bjartri, ungri stjörnu — HD 53367 [2] — sem sést á miðri mynd og mætti hugsa sér sem auga mávsins.

Geislunin frá ungu stjörnunum í skýjunum veldur því að vetnisgasið í kring verður rauðglóandi svo úr verður rafað vetnisský [3]. Örfínar rykagnir í þokunni dreifa líka ljósi frá heitum blá-hvítum stjörnum í þokunni sem framkallar bláa móðu á sumum hlutum myndarinnar.

Ensk-þýski stjörnufræðingurinn Sir William Herschel sá lítinn bjartan kekk í Mávaþokunni fyrstur manna árið 1785 en sá hluti sem hér sést fanst ekki fyrr en um öld síðar á ljósmynd.

Fyrir tilviljun er þessi þoka nálægt Þórshjálmsþokunni (NGC 2359) á himninum sem hlaut flest atkvæði í Veldu hvað VLT skoðar keppninni (ann12060). Sú þoka hefur auðkennandi útlit og ber þess vegna þetta óvenjulega nafn en almenningur kaus hana sem það fyrirbæri sem Very Large Telescope ESO ætti að taka mynd af. Athuganirnar verða hluti af hátíðahöldunum á 50 ára afmælisdag ESO, 5. október 2012 og sýndar á netinu í beinni útsendingu frá VLT á Paranal. Fylgstu með!

Skýringar

[1] Þetta fyrirbæri hefur verið nefnt ýmsum nöfnum í gegnum árin — það er þekkt sem Sh 2-292, RCW 2 og Gum 1. Nafnið Sh 2-292 þýðir að fyrirbærið er númer 292 í annarri útgáfu Sharpless skrárinnar yfir röfuð vetnisský sem gefin var út árið 1959. RCW númerið vísar til skráar sem Rodgers, Campell og Whiteoak tóku saman og birtu árið 1960. Þetta fyrirbæri var einnig hið fyrsta í eldri lista yfir geimþokur á suðurhveli sem Colin Gum tók saman og birti árið 1955.

[2] HD 53367 er ung stjarna með tuttugu sinnum meiri massa en sólin. Hún er flokkuð sem Be stjarna, þ.e. tegund B stjörnu með áberandi í litrófi sínu. Stjarnan hefur fimm sólmassa fylgistjörnu á mjög sporöskjulaga braut.

[3] Röfuð vetnisský (HII regions) eru nefnd svo þar sem þau samanstanda af jónuðu vetni (H), þ.e. rafeindir eru ekki lengur bundnar við róteindir. Órafað vetni (H1) er hugtak notað yfir ójónað eða óhlaðið vetni. Rauða bjarmann í röfuðum vetnisskýjum má rekja til þess að róteindirnar og rafeindirnar bindast aftur saman og gefa í leiðinni frá sér orku með tilteknum bylgjulengdum eða litum. Ein slík áberandi ástandsbreyting (kölluð vetnis-alfa eða H-alfa) leiðir til sterks rauðs litar.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1237.

Tengdar myndir

  • Mávaþoka, IC 2177Þessi mynd frá La Silla stjörnustöð ESO sýnir hluta af stjörnumyndunarsvæði sem kallast Mávaþokan. Þetta gasský, sem einnig er þekkt sem Sh 2-292, RCW 2 og Gum 1, virðist mynda höfuð mávs og skín skært fyrir tilverknað orkuríkrar geislunar frá mjög heitri, ungri stjörnu sem lúrir í henni. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum. Mynd: ESO
  • Mávaþokan, IC 2177Þessi víðmynd sýnir litríka stjörnumyndunarsvæðið Mávaþokuna, IC 2177, sem er á mörkum stjörnumerkjanna Einhyrningsins og Stórahunds. Þessi mynd var búin til úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin