ESO fagnar 50 ára afmæli sínu

Vinningshafi í leik ESO tekur mynd af Þórshjálmsþokunni með VLT í beinni útsendingu

Sævar Helgi Bragason 05. okt. 2012 Fréttir

Í dag eru liðin 50 ár frá því stofnun Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli. Í tilefni afmælisins var tekin ný og glæsileg mynd af Þórshjálmsþokunni.

  • Þórshjálmsþokan, Thor's Helmet Nebula, stjörnumyndunarsvæði, geimþoka, NGC 2359

Í dag, 5. október 2012, heldur Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (ESO) upp á að 50 ár eru liðin frá því, að stofnsáttmáli samtakanna var undirritaður. Síðastliðna hálfa öld hefur ESO orðið öflugasta stjörnustöð heims. Í morgun var í fyrsta sinn tekin ljósmynd með Very Large Telescope ESO af fyrirbæri sem almenningur valdi. Vinningshafinn í afmælisleik ESO beindi VLT í átt að Þórshjálmsþokunni glæsilegu og voru athuganirnar sýndar í beinni útsendingu á netinu. Í tilefni afmælisins hafa ESO og samstarfsaðilar skipulagt marga aðra viðburði í ríkjunum fimmtán sem eiga aðild að ESO.

Við undirritun ESO sáttmálans þann 5. október 1962 og stofnun ESO í kjölfarið, rættist draumur fremstu stjörnufræðinga fimm Evrópuríkja — Belgíu, Frakklands, Þýskalands, Hollands og Svíþjóðar. Stjörnufræðingarnir ákváðu að taka höndum saman með það að markmiði að koma upp stórum stjörnusjónaukum sem veittu þeim aðgang að glæstum fyrirbærum á suðurhveli jarðar.

„Fimmtíu árum síðar hafa upphaflegu vonir stofnríkjanna fimm ekki aðeins orðið að veruleika, heldur farið fram úr björtustu vonum“segir Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO. „ESO hefur staðið við það ætlunarverk sitt að hanna, smíða og starfrækja öflugustu stjörnusjónauka á jörðinni.“

Í Chile starfrækir ESO þrjár stjörnustöðvar á heimsmælikvarða — La Silla, Paranal og Chajnantor — og er nú leiðandi í stjarnvísindarannsóknum [1].

Á Paranal starfrækir ESO Very Large Telescope (VLT), öflugasta stjörnusjónauka heims fyrir sýnilegt ljós sem hefur hrundið af stað nýju skeiði uppgötvana frá því að hann var tekinn í notkun árið 1998. Á Chajnantor hásléttunni í norður Chile eru ESO og alþjóðlegir samstarfsaðilar [2] að koma upp byltingarkenndum sjónauka — ALMA, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array [3] sem á að ráða í leyndardóma hins kalda alheims.

Fyrsta stjörnustöð ESO á La Silla er enn mjög afkastamikil og enn í fararbroddi í stjarnvísindum. Til dæmis hefur HARPS mælitækið á 3,6 metra sjónaukanum náð mestum árangri tækja á jörðinni í leitinni að fjarreikistjörnum.

Eftir nokkur ár mun næsti risasjónauki ESO líta dagsins ljós. Hinn 39 metra breiði European Extremely Large Telescope (E-ELT) verður þá „stærsta auga jarðar“. Áætlað er að sjónaukinn verði tekinn í notkun snemma næsta áratug en E-ELT mun leita svara við stærstu spurningum stjarnvísinda nútímans og gæti byllt sýn okkar á alheiminn á sama hátt og sjónauki Galíleós gerði fyrir meira en 400 árum.

Til að fagna 50 ára afmælinu hafa ESO og samstarfsaðilar skipulagt fjölmarga viðburði fyrir almenning árið 2012 [4]. Í dag fara fram skipulagðir viðburðir fyrir almenning í aðildarríkjunum fimmtán sem og fjöldi Awesome Universe ljósmyndasýningar.

Í morgun var VLT í fyrsta sinn beint að fyrirbæri á himninum sem almenningur hafði valið — Þórshjálmsþokunni [5] — en þessi viðburður er hluti af afmælisfögnuðinum. Þessi þoka varð fyrir valinu í Veldu það sem VLT skoðar samkeppninni (ann12060). Brigitte Bailleul — vinningshafinn í Tístaðu þig til VLT! keppninni — gerði athuganirnar en þær voru sendar út í beinni útsendingu á netinu frá Paranal stjörnustöðinni. Þessi mynd, tekin við fyrsta flokks aðstæður sem ríkja í Paranal, er sú besta sem tekin hefur verið af þessu glæsilega fyrirbæri.

„Með VLT, ALMA og E-ELT í framtíðinni er ESO að hefja nýtt skeið sem stofnendur ESO gætu ekki hafa ímyndað sér, jafnvel í þeirra villtustu draumum. Til allra sem hafa gert þetta mögulegt segi ég fyrir hönd ESO, takk!“ segir Tim de Zeeuw að lokum.

Skýringar

[1] Hér eru upplýsingar um birtingar ritrýndra greina frá mismunandi stjörnustöðum.

[2] ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og austur Asíu í samvinnu við Chile.

[3] ALMA verður sjónauki sem samanstendur úr 66 nákvæmum loftnetum. Smíði ALMA verður lokið árið 2013 en árið 2011 hófust fyrstu vísindalegu mælingar með hluta raðarinnar (eso1137).

[4] Í tilefni afmælisins hefur verið gefin út heimildarmynd auk glæsilegrar og ríkulega myndskreyttrar bókar. Heimildarmyndin hefur einnig verið gefin út sem stakir þættir í hinni vinsælu ESOcast vefþáttaröð. Að auki hefur ný og mjög ítarleg bók um glæsta sögu ESOverið gefin út.

[5] Þórshjálmsþokan, einnig þekkt sem NGC 2359, er stjörnumyndunarsvæði í stjörnumerkinu Stórahundi. Hjálmlaga þokan er í um 15.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og meira en 30 ljósár í þvermál. Hjálmurinn er gaskúla, mynduð fyrir tilverknað vinds frá bjartri og massamikilli stjörnu nálægt miðju hennar sem blæs burt sameindaskýinu í kring. Orkurík geislun frá stjörnunni í miðjunni hitar gasið svo það glóir. Á myndinni sjást margir litir sem rekja má til mismunandi frumefna í gasinu en líka til margra rykskýja.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1238.

Tengdar myndir

  • ÞórshjálmsþokanÞessi ljósmynd VLT af Þórshjálmsþokunni var tekin í tilefni 50 ára afmælis ESO þann 5. október 2012 með hjálp Brigitte Bailleul — vinningshafanum í Tístaðu þig til VLT leik ESO. Athuganirnar voru sendar út í beinni útsendingu á internetinu frá Paranal stjörnustöðinni í Chile. Þetta fyrirbæri, sem einnig er þekkt sem NCG 2359, er stjörnumyndunarsvæði í Stórahundi. Hjálmlaga þokan er í um 15.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og meira en 30 ljósár í þvermál. Hjálmurinn er gaskúla, mynduð fyrir tilverknað vinds frá bjartri og massamikilli stjörnu nálægt miðju hennar sem blæs burt sameindaskýinu í kring. Mynd: ESO/B. Bailleul
  • ÞórshjálmsþokanÞessi víðmynd sýnir svæðið á himninum í kringum Þórshjálmsþokuna (NGC 2359) í stjörnumerkinu Stórahundi. Myndin var búin til úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin