Hubblessjónaukinn og Very Large Array skoða útvarpsvetrarbrautina Herkúles A

Sævar Helgi Bragason 29. nóv. 2012 Fréttir

Á nýrri mynd Hubbles og VLA sést vetrarbrautin Herkúles A og gríðarmiklir strókar sem skaga úr henni.

  • Herkúles A, útvarpsvetrarbraut, sporvöluvetrarbraut, risasvarthol

Hubble geimsjónauki NASA og ESA og Very Large Array útvarpssjónaukaröðin tóku nýverið höndum saman og skoðuðu útvarpsvetrarbrautina Herkúles A. Útkoman sýnir gríðarmikla stróka sem skaga út úr vetrarbrautinni en þá má rekja til risasvarthols í miðju hennar.

Herkúles A er sporvöluvetrarbraut í um tveggja milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er um 1.000 sinnum massameiri en Vetrarbrautin okkar og í miðju hennar risasvarthol sem vegur á við 2,5 milljarða sólar. Það er því næstum 1.000 sinnum þyngra en svartholið í miðju okkar vetrarbrautar.

Svartholið sýgur til sín feikilegt magn af efni. Efnið hringsnýst í kringum svartholið eins og vatnssvelgur sem fellur ofan í niðurfall baðkars, hitnar óskaplega og sendir þá frá sér mikið efni og ljós (orkuríka röntgengeisla en líka orkuminni útvarpsbylgjur).

Herkúles A er þess vegna það sem kallast útvarpsvetrarbraut og gengur þá undir nafninu 3C 348. Hún er lang bjartasta uppspretta útvarpsgeislunar í stjörnumerkinu Herkúlesi og raunar ein skærasta uppspretta útvarpsgeislunar á himninum þar sem hún er meira milljarðs sinnum bjartari en sólin okkar.

Mælingar Very Large Array sýna uppruna útvarpsgeislunarinnar vel (strókana). Strókarnir gefa ekki frá sér sýnilegt ljós, svo þeir eru ósýnilegir mannsauganu, en þeir eru meira en ein og hálf milljón ljósár að lengd, miklu stærri en vetrarbrautin sjálf.

Strókarnir eru háorkugeislar úr rafgasi og öreindum í mjög öflugu segulsviði og stefna á nærri ljóshraða frá svartholinu í miðjunni.

Í kringum strókana er gríðarheitt gasský sem gefur frá sér öfluga röntgengeislun en hún kemur ekki fram á myndinni sem er sett saman úr sýnilegu ljósi og útvarpsgeislun.

Í báðum strókunum eru ýmis smáatriði sem segja sögu hviða sem urðu í útstreyminu frá svartholinu. Innstu hlutar strókanna, næst miðju vetrarbrautarinnar, sjást ekki vegna þess hins mikla hraða sem efnið er á.

Á víðmynd Hubbles sést líka spörvölulaga fylgivetrarbraut mjög nálægt miðju stóru vetrarbrautarinnar sem er líklega að renna saman við hina. Allt í kring sést fjöldi annarra spörvölu- og þyrilvetrarbrauta.

The VLA Observes Hercules A from NRAO Outreach on Vimeo.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Byggir á fréttatilkynningu NRAO

Tengdar myndir

  • Herkúles A, útvarpsvetrarbraut, sporvöluvetrarbraut, risasvartholSamsett mynd Hubblessjónaukans og Very Large Array (VLA) útvarpssjónaukaraðarinnar af útvarpsvetrarbrautinni Herkúles A. Í miðju hennar er risasvarthol sem gefur frá sér öfluga stróka sem sjást vel í mælingum VLA. Mynd: NASA, ESA, S. Baum og C. O'Dea (RIT), R. Perley og W. Cotton (NRAO/AUI/NSF) og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)