Þytur í geimnum: Jólakveðja frá Hubble

Sævar Helgi Bragason 16. des. 2012 Fréttir

Jólamynd Hubbles 2012 er af glæsilegri hringþoku, NGC 5198

  • NGC 5189, hringþoka,

Hubblessjónauki NASA og ESA fagnar hátíðum með glæsilegri mynd af hringþokunni NGC 5189. Margslungin bygging stjörnuleifarinnar líkist helst risastórum og litríkum jólaborða í geimnum.

Hringþokur er hinsta ástand stjörnu eins og sólarinnar okkar. Þegar hún brennir síðustu eldsneytisdropunum í kjarnanum, varpar hún frá sér ytri lögum sín. Þau hitna og glóa og mála margslungna byggingu stjarnanna á himinhvelfinguna sem vísindamenn skilja enn ekki til hlítar. Lagið innan með NGC 5189 er sérlega stórbrotið. Mynd Hubbles er sú nákvæmasta sem birst hefur af þessu fyrirbæri [1].

Hubble er helsta verkfæri þeirra sem rannsaka hringþokur og hafa fjölmargar myndir sjónaukans gert víðreist fyrir augum fólks um gervalla heimsbyggðina. Þær eru heillandi en segja okkur líka af örlögum sólarinnar okkar sem mun mynda svona hringþoku þegar eldsneytið klárast eftir ríflega fimm milljarða ára.

Þegar stjörnufræðingar börðu fyrstu hringþokurnar augum í gegnum stjörnusjónauka við litla stækkun, minntu þær þá á skífur reikistjarna og kölluðu þær þess vegna plánetuþokur (e. planetary nebula). Bjartar þokur eru iðulega nokkuð kúlulaga og minna um margt á gasrisa eins og þá sem eru í ytra sólkerfinu.

Margar þeirra virðast áþekkar plánetum, en það á víst ábyggilega ekki um NGC 5189 því út myndun hennar má lesa öfugt S.

Ef grannt er skoðað eru greinilegir gaskekkir í hringþokunni, þökk sé mikilli upplausn myndar Hubbles. Gasið og geislunin sem flæða út frá deyjandi stjörnunni, grefur út myndanir í skýin og myndar glóandi bogadregin form sem vísa að miðju þokunnar.

Kekkirnir í NGC 5189 eru til vitnis um gríðarlega stærð hringþokunnar. Og þótt þeir virðist smáir á myndinni, er hver þeirra áþekkur sólkerfinu okkar að stærð.

Stjarnan í miðju þokunnar er þéttur hvítur dvergur, sem vegna smæðar sinnar birtist sem lítill ljósblettur, þrátt fyrir að vera á stærð við jörðina.

Lögun NGC 5189 kann (þvert á það sem ætla mætti) að vera til vitnis um hvað hendir á smáum kvarða umhverfis þessa litlu stjörnu. NGC 5189 minnir á garðúðara og efnið sem frá henni ferðast virðist iða og snúast.

Áþekkar myndanir hafa sést áður, sérstaklega ef tvístirni er að finna í miðri hringþokunni. Það er einnig sennileg skýring á lögun NGC 5189, þótt enn sem komið er hafi aðeins ein stjarna fundist í hjarta þokunnar.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni ESA og NASA.

[1] Áður voru bestu myndirnar af NGC 5189 frá Gemini Observatory og New Technology Telescope Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli. Mynd Hubbles tekur þeim fram bæði í skerpu og skýrleika.

Tenglar

Tengiliður

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands
Sími: 663-6867
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1220

Tengdar myndir

  • hringþoka, NGC 5189Hubble fangar NGC 5189. Hubblessjónauki NASA/ESA fagnar hátíðum með mikilfenglegri mynd af hringþokunni 5189. Margslungin innri gerð hennar líkist risastórum litríkum borða í geimnum. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA).br />