Ljós úr myrkrinu

Sævar Helgi Bragason 14. jan. 2013 Fréttir

ESO hefur birt nýja mynd af dökku stjörnumyndunarskýi og björtum stjörnum sem hafa þegar yfirgefið rykuga fæðingarstaði sína.

  • Lupus 3, skuggaþoka, geimþoka

Á þessari nýju og glæsilegu mynd ESO sést dökkt ský sem í eru að myndast nýjar stjörnur, auk þyrpingar bjartra stjarna sem hafa þegar yfirgefið rykuga fæðingarstaði sína. Myndin var tekin með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile og er sú besta sem til er af þessu lítt þekkta fyrirbæri í sýnilegu ljósi.

Vinstra megin á myndinni sést dökkur stólpi sem minnir á reykmökk. Hægra megin skín lítill hópur bjartra stjarna. Við fyrstu sýn gætu svæðin vart verið ólíkari en í raun eru þau nátengd. Skýið inniheldur mikið magn af köldu geimryki og er staður þar sem nýjar stjörnur eru að fæðast. Sennilega varð sólin okkar til í svipuðu stjörnumyndunarsvæði fyrir rúmum fjórum milljörðum ára.

Skýið er kallað Lupus 3 og er í um 600 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Svæðið sem sést á myndinni er um fimm ljósár á breidd.

Þegar þéttustu hlutar skýja af þessu tagi byrja að falla saman fyrir tilverknað þyngdarkraftsins, hitna þau og taka að skína. Í fyrstu kemur rykskýið í veg fyrir að geislunin berist í gegn svo hún sést aðeins með sjónaukum sem nema lengri bylgjulengdir en sýnilegt ljós, eins og innrautt. Þegar stjörnurnar verða heitari og bjartari, hreinsar geislun og vindur frá þeim skýið í kring, uns þær brjótast út úr því í allri sinni dýrð.

Björtu stjörnurnar hægra megin við miðju myndarinnar eru gott dæmi um lítinn hóp slíkra stjarna. Rykið sem eftir er í kringum þær, dreifir bjarta bláa ljósinu frá þeim að hluta til. Tvær björtustu stjörnurnar eru nógu bjartar til að sjást leikandi í gegnum litla stjörnu- eða handsjónauka. Þær eru ungar stjörnur sem hafa enn ekki byrjað að skína vegna kjarnasamruna og eru sveipaðar glóandi gasi[1]. Líklega eru þær innan við milljón ára gamlar.

Þótt þessar stjörnur séu ekki jafn áberandi og björtu bláu stjörnurnar, hafa rannsóknir stjörnufræðinga leitt í ljós fjölmargar aðrar ungar stjörnur á svæðinu, sem er eitt nálægasta stjörnumyndunarsvæðið við sólina okkar.

Stjörnumyndunarský geta verið risavaxin, eins og til dæmis Tarantúluþokan (eso0650) en í henni eru mörg hundruð massamiklar stjörnur í mótun. Flestar stjörnur í Vetrarbrautinni okkar eru aftur á móti taldar myndast í miklu minni skýjum en því sem hér sést, þar sem einungis tvær stjörnur sjást og engar mjög þungar stjörnur verða til. Af þessari ástæðu er Lupus 3 svæðið heillandi fyrir stjörnufræðinga og fallegt dæmi um fyrstu stigin í ævi stjörnu.

Skýringar

[1] Þessi fyrirbæri eru þekkt sem Herbig Ae/Be stjörnur, nefndar eftir stjörnufræðingnum sem skilgreindi þær fyrst. A og B vísa til litrófsgerða stjarnanna sem eru nokkuð heitari en sólin okkar en „e“ vísar til ljómlína í litrófum þeirra, sem er komin til af glóandi gasi í kringum þær. Þær gefa frá sér ljós með því að breyta þyngdarstöðuorku í varma þegar þær skreppa saman.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1303.

Tengdar myndir

  • Lupus 3, skuggaþoka, geimþokaÁ þessari nýju og glæsilegu mynd ESO sést dökkt ský sem í eru að myndast nýjar stjörnur, auk þyrpingar bjartra stjarna sem hafa þegar yfirgefið rykuga fæðingarstaði sína. Skýið er kallað Lupus 3 og er í um 600 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Sennilega varð sólin okkar til í svipuðu stjörnumyndunarsvæði fyrir rúmum fjórum milljörðum ára. Myndin var tekin með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile og er sú besta sem til er af þessu lítt þekkta fyrirbæri í sýnilegu ljósi. Mynd: ESO/F. Corneron
  • Lupus 3, skuggaþoka, geimþokaÁ þessari víðmynd sést skuggaþoka þar sem nýjar stjörnur eru að myndast auk þyrpingar skærra stjarna sem hafa þegar brotist út úr rykugum fæðingarstöðum sínum. Skýið er kallað Lupus 3 og er í um 600 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Sennilega varð sólin okkar til í svipuðu stjörnumyndunarsvæði fyrir rúmum fjórum milljörðum ára. Myndin var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í Digitized Sky Survey 2 verkefninu.Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.