Falinn fjársjóður í Stóra Magellansskýinu

Sævar Helgi Bragason 15. jan. 2013 Fréttir

Hubblessjónaukinn hefur tekið glæsilega mynd af stjörnumyndunarsvæði í Stóra Magellansskýinu

  • LHA 120-N11, stjörnumyndunarsvæði, Stóra Magellansskýið, stjörnuþyrping, geimþoka

Í nærri 200.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni stígur Stóra Magellansskýið, fylgivetrarbraut okkar, langan og hægan dans í geimnum umhverfis Vetrarbrautina okkar. Þyngdartog Vetrarbrautarinnar togar í gasský náganna okkar svo þau falla saman og geta af sér nýjar stjörnur. Síðan lýsa stjörnurnar upp litríku gasskýin sem sjást á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA.

Stjörnumyndunarsvæði lýsa upp Stóra Magellansskýið. Þessi litla og óreglulega vetrarbraut er skreytt glóandi geimþokum, allt frá Tarantúluþokunni, bjartasta stjörnumyndunarsvæðinu í nágrenni okkar í geimnum, til LHA 120-N 11, sem sést að hluta á þessari mynd Hubblessjónaukans.

Stóra Magellansskýið er vel staðsett fyrir stjörnufræðinga sem rannsaka myndun stjarna. Það er að finna á heppilegum stað á himninum, langt frá fleti Vetrarbrautarinnar svo það hverfur ekki í stjörnuskarann, né heldur á bak við ryk í miðju Vetrarbrautarinnar. Skýið er nógu nálægt okkur til þess að hægt sé að rannsaka það í smáatriðum (innan við einn tíundi af fjarlægðinni til Andrómeduþokunnar, nálægustu þyrilvetrarbrautarinnar við okkur), auk þess sem sjáum hana ofan frá [1].

LHA 120-N 11 (þekkt sem N11, til styttingar) er sérstakleg bjartur staður í Stóra Magellansskýinu sem samanstendur af aðlægum gasbólum og stjörnumyndunarsvæði. NGC 1769 (á miðri mynd) og NGC 1763 (til dægri, sjá heic1011) eru með björtustu hlutum þess.

Á miðri mynd dregur rykstólpi úr birtunni að miklu leyti. Þótt þokan sé að mestu úr vetni, einfaldasta og algengasta frumefni alheims, búa rykský líka yfir þyngri og flóknari frumefnum sem síðan mynda bergreikistjörnur eins og jörðina. Þetta miðgeimsryk er miklu fínna en heimilisryk (líkara reyk) og má rekja til efnis sem fyrri kynslóðir stjarna vörpuðu frá sér þegar þær dóu.

Josh Lake, stjörnufræðikennari frá Connecticut í Bandaríkjunum, fann gögnin sem þessi mynd er sett saman úr, í Hidden Treasures myndasamkeppni Hubbles. Í keppninni gafst almenningi kostur á að finna óbirt vísindagögn úr stóru gagnasafni Hubbles og breyta þeim í glæsilegar myndir.

Josh Lake hlaut fyrstu verðun í keppninni fyrir mynd sem sýndi ljós frá glóandi vetni og nitri í N11. Myndin hér að ofan er sett saman úr gögnunum sem hann fann en búið er að bæta við myndum sem teknar voru í bláu, grænu og nær-innrauðu ljósi.

Frekari upplýsingar

Hubble geimsjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

[1] Þótt Stóra Magellansskýið sé skilgreint sem óregluleg vetrarbraut, minnir hún um margt á þyrilvetrarbraut og hefur t.a.m. greinilegan bjálka og form sem líkist einum þyrilarmi. Talið er að Stóra Magellansskýið hafi verið lítil þyrilvetrarbraut sem Vetrarbrautin okkar afmyndaði.

Myndir: NASA, ESA

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1301

Tengdar myndir

  • hringþoka, NGC 5189Í nærri 200.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni stígur Stóra Magellansskýið, fylgivetrarbraut okkar, langan og hægan dans í geimnum umhverfis Vetrarbrautina okkar. Þyngdartog Vetrarbrautarinnar togar í gasský náganna okkar svo þau falla saman og geta af sér nýjar stjörnur. Síðan lýsa stjörnurnar upp litríku gasskýin sem sjást á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Mynd: NASA, ESA. Þakkir: Josh Lake
  • hringþoka, NGC 5189Á þessari víðmynd sést hluti af Stóra Magellansskýinu og sá staður þar sem stjörnumyndunarsvæðið N11 er að finna. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin