Leyndardómsfull þyrilvetrarbraut

Sævar Helgi Bragason 05. feb. 2013 Fréttir

Með góðri hjálp frá stjörnuáhugamanni hefur Hubble geimsjónauki NASA og ESA náð einni bestu mynd sem til er af Messier 106, nálægri þyrilvetrarbraut.

  • Messier 106, þyrilvetrarbraut

Með góðri hjálp frá stjörnuáhugamanni hefur Hubble geimsjónauki NASA og ESA náð einni bestu mynd sem til er af Messier 106, nálægri þyrilvetrarbraut. Messier 106 er í rétt rúmlega 20 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni og því svo gott sem nágranni okkar í geimnum.

Útlitslega er Messier 106 harla lík ótal öðrum vetrarbrautum en geymir þrátt fyrir það fjölmörg leyndarmál. Á þessari mynd sem sett er saman úr gögnum frá Hubble geimsjónaukanum og stjörnuáhugamannsins Roberts Gendler, sjást þessir leyndardómar betur en nokkru sinni fyrr.

Í miðju Messier 106 er risasvarthol sem er óvenju virkt og gleypir efni í umtalsverðu magni, ólíkt miðju okkar vetrarbrautar sem gleypir aðeins stöku sinnum efni. Þegar gas þyrlast í átt að svartholinu, hitnar það og gefur frá sér mikla geislun. Hluti af geisluninni úr miðju Messier 106 verður til á samskonar hátt og leysigeislaljós — þó að í þessu tilviki myndi ferlið bjarta örbylgjugeislun [1].

Fyrir utan örbylgjugeislunina úr hjarta Messier 106 ber vetrarbrautin annað merkilegt einkenni: Hún virðist hafa fjóra þyrilarma í stað tveggja. Annað armaparið kemur fram sem þokukenndir gasþræðir á þessari mynd en það sést best í mælingum fyrir utan sýnilega sviðið, eins og á röntgenmyndum Chandra geimsjónaukans eða útvarpsbylgjumælingum.

Þessir aukaarmar eru úr heitu gasi en ekki stjörnum og voru óútskýrðir þar til nýlega. Stjörnufræðingar telja að þá, líkt og örbylgjugeislunina, megi rekja til svartholsins í miðju Messier 106 og eru því gerólíkir hefðbundum stjörnuörmum.

Aukaarmarnir virðast óbein afleiðing af efnisstrókum sem rekja má til mikillar ólgu efnis í kringum svartholið. Þegar strókarnir ferðast í gegnum vetrarbrautarskífuna sundrast þeir og hita gasið í kring, sem aftur örvar þéttara gas í fleti vetrarbrautarinnar og veldur því að það skín skært. Þetta þéttara gas sem er nær miðju vetrarbrautarinnar er bundið þétt saman svo armarnir virðast beinir. Aftur á móti fýkur lausara gas í skífunni lengra í burtu, yfir eða undir skífuna, í gagnstæðar áttir frá strókunum svo það sveigir út úr skífunni og myndar bogadregnu rauðu armana sem hér sjást.

Þótt vetrarbrautin beri nafn 18. aldar stjörnufræðingsins Charles Messier, fann hann hvorki né skrásetti vetrarbrautina. Það var aðstoðarmaður hans, Pierre Méchain, sem uppgötvaði vetrarbrautina en þrátt fyrir það var henni aldrei bætt við skrá Messiers á þeim tíma. Það var ekki fyrr en á 20. öld sem Messier 106 var bætt við Messierskrána ásamt sex öðrum fyrirbærum.

Stjörnuáhugamaðurinn Robert Gendler sótti myndir í gagnasafn Hubbles af Messier 106 til að setja saman mynd af miðju vetrarbrautarinnar. Gendler notaði síðan sínar eigin myndir auk mynda frá öðrum stjörnuáhugamanni, Jay GaBany, til að fylla upp í eyður og holur í gögnum Hubbles og skeytti þeim síðan saman við mynd Hubbles til að útbúa þessa glæsilegu ljósmynd.

Miðja vetrarbrautarinnar er næstum eingöngu gögn frá Hubble sem aflað var með Advanced Camera for Surveys, Wide Field Camera 3 og Wide Field Planetary Camera 2. Ytri þyrilarmarnir eru að mestu gögn frá Hubble sem hafa verið lituð með myndum sem teknar voru með 12,5 og 20 tommu sjónaukum Gendlers og GaBanys í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum.

Gendler vann til verðlauna í Hubble's Hidden Treasures myndasamkeppni Hubbles. Annars vinningshafi, André van der Hoeven, sendi inn aðra útgáfu af Messier 106 þar sem notuð voru gögn frá Hubble og NOAO.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

[1] Leysigeislar verða til þegar ljós örvar útgeislun meira ljóss úr örvuðu gasskýi þar sem upphaflega ljósið hefur í raun verið magnað (enska orðið laser er skammstöfun fyrir light amplification by the stimulated emission of radiation). Í miðju Messier 106 er svipað fyrirbæri sem kallast meysir (enska orðið maser er skammstöfun fyrir microwave amplification by stimulated emission of radiation) sem geislar frá sér örbylgjum sem hafa lengri bylgjulengdir en sýnilegt ljós. Athugaðu að meysir lýsir í allar áttir, ólíkt manngerðum leysigeislum sem hannaðir eru til að mynda mjóan geisla.

Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team (STScI/AURA) og R. Gendler (fyrir Hubble Heritage Team). Þakkir: J. GaBany, A van der Hoeven

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1302

Tengdar myndir

  • Messier 106, þyrilvetrarbraut, vetrarbrautÞyrilvetrarbrautin Messier 106 á ljósmynd sem búin var til úr gögnum Hubblessjónaukans og stjörnuáhugamannsins Roberts Gendler. Messier 106 er tiltölulega nálæg þyrilvetrarbraut í rétt rúmlega 20 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team (STScI/AURA) og R. Gendler (fyrir Hubble Heritage Team). Þakkir: J. GaBany, A van der Hoeven

Vefvarp