Hubble kemur auga á ljósblossa frá ungri stjörnu

Sævar Helgi Bragason 07. feb. 2013 Fréttir

Hubble geimsjónauki NASA og ESA hefur náð myndum af ljósblossa sem berst frá dularfullri frumstjörnu.

  • ljóspúls, ljósblossi, frumstjarna

Hubble geimsjónauki NASA og ESA hefur náð myndum af ljósblossa sem berst frá dularfullri frumstjörnu. Á 25,34 daga fresti gefur fyrirbærið, sem nefnist LRLL 54361, frá sér ljósblossa sem berst í gegnum gas og ryk í kring. Þetta er aðeins í þriðja sinn sem slíkt fyrirbæri sést en er um leið það öflugasta.

Uppspretta flugeldasýningarinnar á þessum ljósmyndum og myndskeiðum Hubbles er falin á bak við þéttan rykhjúp og -skífu. Stjörnufræðingar telja að blossana megi rekja til lotubundinnar víxlverkunnar milli tveggja nýmyndaðra stjarna sem eru bundnar hvor annarri.

Stjörnurnar tvær eru í mótun og draga til sín efni úr gas- og rykskífu sem umlykur þær. Líklegast verða ljósblossarnir sem sjást í myndskeiðunum til þegar þetta efni fellur skyndilega ofan á vaxandi stjörnurnar þegar þær nálgast hvor aðra á brautum sínum.

„Þessi frumstjarna hefur svo mikla, lotubundna birtubreytingu að erfitt er að útskýra hana,“ segir James Muzerolie við Space Telescope Science Institute í Baltimore í Bandaríkjunum sem hefur rannsakað þetta torkennilega fyrirbæri með Hubble og Spitzer geimsjónauka NASA. Spitzer hafði fylgst með fyrirbærinu í meira en sjö ár áður en Hubble var beint að því. Athuganir Hubbles ná yfir eina púlslotu.

Mælingar Hubbles sýna hve glæsilega ljósið berst burt út frá kerfinu. Þetta er sjónvilla sem kallast ljósbergmál. Þótt það líti út fyrir að gas streymi frá frumstjörnunni eru púlsarnir í raun ljósblossar sem ferðast í gegnum gasið og rykið í kring sem svo endurvarpar ljósinu til okkar. Skýin hreyfast nánast ekki neitt á meðan þessu stendur.

Snúningur frumstjörnunnar veldur annarri og jafnvel enn skrítnari sjónvillu: Ljósfrárri hreyfingu (hreyfing sem er hraðari en ljósið) sem er vitanlega ómöguleg.

Frumstjarnan snýst þegar hún gefur ljósblossana frá sér, svo ljósbogi myndast sem berst í gegnum skýið. Boginn veldur því að sýndarfærslan lítur út fyrir að vera á meira en þreföldum ljóshraða. Aftur á móti er það ekki efnið sjálft virðist ferðast hraðar en ljósið svo lögmál eðlisfræðinnar standa óhögguð.

Ljósblossar frá tvístirnakerfum eins og þessu eru sjaldgæfir vegna þess að þétt tvístirni eru tiltölulega fágæt í Vetrarbrautinni okkar. Þar að auki eru svona ljósblossar talin skammvinn fyrirbæri í frumbernsku stjarna.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Myndir: NASA/ESA og J. Muzerolle (STScI). Skýringarmynd: NASA, ESA, J. Muzerolle (STScI), E. Furlan (NOAO, Caltech) og R. Hurt (Caltech)

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1303

Tengdar myndir

  • LRLL 54361, IC 348, frumstjarna, myndun stjarna, ljósbergmál, ljósblossiInnrauð ljósmynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA af frumstjörnunni LRLL 54361 og nágrenni hennar, svæði sem kallast IC 348. Frumstjarnan, sem er bjarta fyrirbærið með keilulaga ljósstróka sem stefna frá því, hægra megin á myndinni, gefur frá sér ljósblossa á 25,3 daga fresti.
  • LRLL 54361, IC 348, frumstjarna, myndun stjarna, ljósbergmál, ljósblossiInnrauð ljósmynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA af frumstjörnunni LRLL 54361 sem gefur frá sér ljósblossa á 25,3 daga fresti.
  • LRLL 54361, IC 348, frumstjarna, myndun stjarna, ljósbergmál, ljósblossiMyndaröð frá Hubblessjónauka NASA og ESA sem sýnir ljósblossa koma frá frumstjörnunni LRLL 54361. Nánast allt ljósið er endurvarp af gasi og ryki sem umlykur frumstjörnuna.
  • LRLL 54361, IC 348, frumstjarna, myndun stjarna, ljósbergmál, ljósblossiVinstra megin sést innrauð mynd frá Spitzer geimsjónauka NASA af LRLL 54361 í stjörnumyndunarsvæðinu IC 348 sem er í 950 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í miðjunni er mynd Hubbles af smáatriðum í nágrenni frumstjörnunnar. Hægra megin sést svo teikning af því hvernig stjörnufræðingar sjá fyrir sér blossana verða til, þegar efni í skífunni sest skyndilega ofan á vaxandi stjörnurnar sem gefa í staðinn frá sér ljósblossa í hvert sinn sem stjörnurnar nálgast hvor aðra á brautum sínum.

Myndskeið