Ryki dustað af humri í geimnum

Ný innrauð ljósmynd af NGC 6357

Sævar Helgi Bragason 20. feb. 2013 Fréttir

Á nýrri mynd VISTA sjónauka ESO sést Humarþokan í nýju ljósi

  • NGC 6357, humarþokan, geimþoka

Þessi nýja ljósmynd VISTA sjónauka ESO fangar himneskt landslag glóandi gasskýja og dökkra rykslæða í kringum heitar, ungar stjörnur. Ljósmyndin er innrauð og sýnir stjörnumyndunarsvæðið NGC 6357 í nýju ljósi. Myndin var tekin fyrir eitt af verkefnum VISTA sem snýst um að kortleggja uppbyggingu Vetrarbrautarinnar og skýra hvernig hún myndaðist.

Í um 8.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum er NGC 6357 — stundum kölluð Humarþokan [1] vegna útlits síns í sýnilegu ljósi — svæði fyllt miklum gasskýjum og dökkum rykslæðum. Í skýjunum eru stjörnur að myndast, þar á meðal mjög massamiklar og heitar stjörnur sem gefa frá sér skært bláhvítt ljós.

Þessi mynd var sett saman úr innrauðum gögnum frá Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA) sjónauka ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile. Hún er aðeins lítill hluti af stóru kortlagningarverkefni sem nefnist VISTA Variables in the Via Láctea(VVV) sem snýst um að ljósmynda miðsvæði Vetrarbrautarinnar (eso1242). Myndin gefur okkur allt aðra sýn en þá sem sést í sýnilegu ljósi — eins og sjá má á mynd sem tekin var með danska 1,5 metra sjónaukanum í La Silla — því innrautt ljós berst tiltölulega greiðlega í gegnum stóran hluta af rykinu sem umvefur fyrirbærið [2].

VISTA er stærsti og öflugasti kortlagningarsjónauki sem til er og helgaður kortlagningu himins í innrauðu ljósi. VVV verkefnið snýst um að skanna miðbunguna og hluta af fleti Vetrarbrautarinnar svo útbúa megi stórt gagnasafn sem mun hjálpa stjörnufræðingum að læra meira um uppruna, þróun og uppbyggingu Vetrarbrautarinnar.

Hubble geimsjónauki NASA og ESA hefur einnig kannað hluta NGC 6357 (heic0619a) sem og Very Large Telescope ESO (eso1226c). Báðir sjónaukar hafa tekið myndir í sýnilegu ljósi af ýmsum hlutum þessa svæðis. Með samanburði á þeim og þessari innrauðu mynd sést mikill munur. Á innrauðu myndinni eru rauðleitu efnisstrókarnir ekki eins áberandi heldur orðnir að fölum, fjólubláum slæður úr gasi sem teygja sig út frá þokunni á mismunandi stöðum.

Skýringar

[1] Nafnið Humarþokan er óformlegt og raunar líka stundum notað yfir Messier 17 (eso0925), glæsilegt stjörnumyndunarsvæði, sem þó er oftast kallað Omegaþokan.

[2] Innrauðar mælingar geta leitt í ljós smáatriði sem ekki sjást í sýnilegu ljósi, til dæmis ef fyrirbærið er of kalt, hulið þykku ryki, eða mjög fjarlægt sem þýðir þá að útþensla alheimsins hefur teygt á ljósi þess yfir í rauða enda litrófsins.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1309.

Tengdar myndir

  • NGC 6357, Humarþokan, geimþokaÞessi ljósmynd VISTA sjónauka ESO fangar himneskt landslag glóandi gasskýja og dökkra rykslæða í kringum heitar, ungar stjörnur. Ljósmyndin er innrauð og sýnir stjörnumyndunarsvæðið NGC 6357 í nýju ljósi. Myndin var tekin fyrir VISTA Variables in the Via Láctea (VVV) kortlagningarverkefnið sem snýst um að kortleggja uppbyggingu miðsvæða Vetrarbrautarinnar til að útskýra hvernig hún myndaðist. Mynd: ESO/VVV Survey/D. Minniti. Þakkir: Ignacio Toledo
  • NGC 6357, Humarþokan, geimþokaHér sést hluti af stjörnumerkinu Sporðdrekanum í kringum NGC 6357 sem hefur stjörnuþyrpinguna Pismis 24 í miðjunni. Þessi litmynd var sett saman úr gögnum Digitized Sky Survey (DSS). Sjónsviðið er 3,8x3,3 gráður. Mynd: Davide De Martin (ESA/Hubble), the ESA/ESO/NASA Photoshop FITS Liberator & Digitized Sky Survey 2