Þyrilvetrarbraut prýdd dofnandi sprengistjörnu

Sævar Helgi Bragason 20. mar. 2013 Fréttir

Í um 35 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni er þyrilvetrarbraut sem hýsti nýlega sprengistjörnu

  • NGC 1637, vetrarbraut, þyrilvetrarbraut

Í um 35 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni, í stjörnumerkinu Fljótinu, er þyrilvetrarbrautin NGC 1637. Árið 1999 hýsti þessi annars kyrrláta þyrilvetrarbraut mjög bjarta sprengistjörnu. Stjörnufræðingar sem rannsökuðu eftirhreytur sprengingarinnar með Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile tóku þessa glæsilegu mynd af þessari tiltölulega nálægu vetrarbraut.

Sprengistjörnur eru með ofsafengnustu atburðum náttúrunnar. Þær marka ægibjartan dauða stjarna og geta skinið skærar en samanlagt ljós þeirra milljarða stjarna sem í vetrarbrautunum eru.

Árið 1999 tilkynnti Lick stjörnustöðin í Kaliforníu um að fundist hefði sprengistjarna í þyrilvetrarbrautinni NGC 1637. Stjarnan fannst með sjónauka sem hafði verið sérstaklega smíðaður til að rannsaka þessi sjaldgæfu en mikilvægu fyrirbæri í alheiminum [1]. Í kjölfarið voru gerðar frekari mælingar til að staðfesta uppgötvunina og rannsaka stjörnuna frekar. Fjölmargir stjörnufræðingar rannsökuðu þessa sprengistjörnu sem nefnd var SN 1999em en frá því að hún sprakk hafa þeir fylgst grannt með hægfara dofnun hennar.

Stjarnan sem endaði sem SN 1999em var mjög massamikil — meira en átta sinnum massameiri en sólin — áður en hún endaði ævi sína. Við ævilokin hrundi kjarni hennar saman og olli sprengingunni [2].

Þegar stjörnufræðingar gerðu frekari athuganir á SN 1999em tóku þeir ótal myndir af vetrarbrautinni með VLT sem nú hafa verið settar saman í þessa glæsilegu mynd. Þyrilarmarnir sjást vel sem bláleitar slóðir ungra stjarna, glóandi gasskýja og dökkra rykslæða.

Þótt NGC 1637 virðist við fyrstu sýn samhverf býr hún yfir ýmsum áhugaverðum einkennum. Hún er það sem stjörnufræðingar kalla ósamhverf þyrilvetrarbraut: Fyrir ofan kjarnann vinstra megin eru tiltölulega lausofnir þyrilarmar sem teygja sig mun lengra út frá honum en styttri armur neðarlega til hægri, sem virðist klofinn á miðri leið sinni í kringum kjarnann.

Annars staðar á myndinni sjást nálægar stjörnur í vetrarbrautinni okkar og enn fjarlægari vetrarbrautir sem eru í sömu sjónlínu.

Skýringar

[1] Sprengistjarnan fannst með Katzman Automatic Imaging Telescope í Lick stjörnustöðinni á Hamiltonfjalli í Kaliforníu.

[2] SN 1999em er kjarnahrunssprengstjarna af gerð IIp. Bókstafurinn „p“ stendur fyrir „plateau“ eða stöðugleiki sem þýðir að birta sprengistjörnu af þesari gerð helst stöðug í tiltölulega langan tíma eftir að hámarksbirtu var náð.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavik, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1315.

Tengdar myndir

  • NGC 1637, vetrarbraut, þyrilvetrarbrautÞessi mynd frá Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile er af NGC 1637, þyrilvetrarbraut í um 35 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Fljótinu. Árið 1999 fundu stjörnufræðingar sprengistjörnu af gerð II í þessari vetrarbraut og fylgdust grannt með hægfara dofnun hennar næstu ár á eftir. Mynd: ESO
  • NGC 1637, vetrarbraut, þyrilvetrarbrautÞessi mynd frá Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile er af NGC 1637, þyrilvetrarbraut í um 35 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Fljótinu. Árið 1999 fundu stjörnufræðingar sprengistjörnu af gerð II í þessari vetrarbraut og fylgdust grannt með hægfara dofnun hennar næstu ár á eftir. Staðsetning sprengstjörnunnar er merkt. Mynd: ESO
  • NGC 1637, vetrarbraut, þyrilvetrarbrautÁ þessari mynd sést himininn í kringum þyrilvetrarbrautina NGC 1637 í stjörnumerkinu Fljótinu. Myndin var sett saman úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin