Drungaleg, græn bóla

VLT sjónauki ESO tekur mynd af hringþoku

Sævar Helgi Bragason 10. apr. 2013 Fréttir

Á nýrri mynd VLT sjónauka ESO sést óvenjuleg grænglóandi hringþoka sem umlykur deyjandi stjörnu í 3.200 ljósára fjarlægð

  • IC 1295, hringþoka

Á þessari nýju og forvitnilegu mynd frá Very Large Telescope ESO sést grænglóandi hringþoka, IC 1295, sem umlykur daufa, deyjandi stjörnu í um 3.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Skildinum. Þetta er nákvæmasta mynd sem tekin hefur verið af þessu fyrirbæri.

Stjörnur á stærð við sólina okkar enda líf sitt sem litlar og daufar hvítar dvergstjörnur. Áður en það gerist, varpa þær gashjúpum sínum út í geiminn. Í nokkra tugi þúsunda ára eru þær umluktar tignarlegum og litríkum glóandi skýjum úr jónuðu gasi sem kallast hringþokur.

Á þessari nýju mynd VLT sjónaukans sést hringþokan IC 1295 í stjörnumerkinu Skildinum. Hún er óvenjuleg að því leyti að vera umlukin mörgum skeljum svo hún minnir á örveru í smásjá þar sem lögin samsvar frumuhimnum.

Þessar bólur eru úr gasi sem var eitt sinn innan í stjörnunni. Gasið varpaðist út í geiminn þegar óstöðug kjarnahvörf í kjarna stjörnunnar ollu skyndilegri orkulosun, eins og risavaxið kjarnasamrunarop. Öldruð stjarnan í miðjunn, baðar gasið sterkum útfjólubláum geislun og veldur því að það glóir. Mismunandi frumefni glóa í mismunandi litum en fölgræni liturinn sem er áberandi í IC 1295 stafar af jónuðu súrefni.

Á miðri mynd sést útbrennd leif kjarna stjörnunnar; bjartur, blá-hvítur blettur í hjarta þokunnar. Stjarnan í miðjunni verður mjög daufur hvítur dvergur sem kólnar hægt og rólega í marga milljarða ára.

Stjörnur sem eru frá því að vera álíka massamiklar og sólin upp í að vera átta sinnum massameiri, mynda hringþokur þegar ævi þeirra lýkur. Sólin er 4,6 milljarða ára og mun líklega lifa aðra fjóra milljarða ára til viðbótar.

Hringþokur eru nefndar plánetuþokur á ensku þótt þær eigi ekkert skylt við reikistjörnur. Heitið er þannig til komið að í gegnum litla stjörnusjónauka líta margar hringþokur út eins og litlar bjartar skífur og líkjast þannig ystu reikistjörnum sólkerfisins, Úranusi og Neptúnusi [1]. Á nítjándu öld var sýnt fram á með litrófsmælingum að þessy fyrirbæri voru úr glóandi gasi.

Myndin var tekin með FORS mælitækinu (FOcal Reducer Spectrograph) á Very Large Telescope ESO á Cerro Paranal í Atacama eyðimörkinni í norðurhluta Chile. Myndir voru teknar í gegnum þrjár misumandi síur sem hleyptu í gegn bláu ljósi (litað blátt), sýnilegu ljósi (litað grænnt) og rauðu ljósi (litað rautt) og þeim síðan skeytt saman í þessa mynd.

Skýringar

[1] Athugendur eins og William Herschel, sem fann fjölmargar hringþokur og velti uppruna þeirra og samsetningu fyrir sér, vissu að ekki var um reikistjörnur að ræða því þokurnar færðust ekki á himinhvolfinu miðað við fastastjörnurnar.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Umsjón með þýðingum á fréttatilkynningum ESO er í höndum ESO Science Outreach Network sem samanstendur af sérfræðingum í vísindamiðlun í öllum aðildarríkjum ESO og í öðrum löndum.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1317.

Tengdar myndir

  • hringþoka, IC 1295Þessi forvitnilega mynd frá Very Large Telescope ESO sýnir grænglóandi hringþoku, IC 1295, sem umlykur daufa, deyjandi stjörnu í um 3.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Skildinum. Þetta er nákvæmasta mynd sem tekin hefur verið af þessu fyrirbæri. Mynd: ESO