Dulin slæða í Óríon

Sævar Helgi Bragason 15. maí 2013 Fréttir

Ný og glæsileg mynd frá APEX sjónaukanum sýni logandi slæðu í stjörnumerkinu Óríon

  • Óríon, stjörnumyndunarsvæði, geimþoka,

Á þessari nýju og glæsilegu mynd af geimþoku í stjörnumerkinu Óríon sést það sem virðist vera logandi slæða á himinhvolfinu. Appelsínugula bjarmann má rekja til daufrar birtu sem berst frá köldum rykögnum í geimnum, á bylgjulengd sem er of löng til að mannsaugað fái greint. Myndin var tekin með Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukanum sem ESO starfrækir í Chile.

Gas- og rykský í geimnum eru hráefnin sem nýjar stjörnur verða til úr. Þessar litlu rykagnir byrgja sýn á það sem leynist innan í og fyrir aftan skýin — að minnsta kosti í sýnilegu ljósi — og gerir stjörnufræðingum erfitt fyrir að rannsaka myndunarferli stjarna.

Þetta er jafnframt ástæða þess að stjörnufræðingar verða að nota tæki sem nema aðrar bylgjulengdir ljóss. Í stað þess að byrgja sýn skína rykagnir skært á hálfsmillímetrasviðinu vegna þess að hitastig þeirra er örfáar gráður yfir alkul [1]. APEX sjónaukinn er mjög hentugur til þessara athugana enda útbúinn myndavél, LABOCA, sem greinir hálfsmillímetrabylgjur og er auk þess í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor hásléttunni í Andesfjöllum Chile.

Á þessari nýju og glæsilegu mynd sést lítill hluti af miklu stærra sameindaskýí i stjörnumerkinu Óríon. Þetta nokkur hundruð ljósára breiða svæði er mikill suðupottur af björtum þokum, heitum, ungum stjörnum og köldum rykskýjum í um 1.350 ljósára fjarlægð frá okkur. Hálfsmillímetrageislunin á myndinni er appelsínugul og stafar af köldu rykskýjunum en hún hefur verið lögð ofan á mynd af svæðinu sem tekin var í sýnilegu ljósi.

Stóra bjarta skýið efst til hægri á myndinni er Sverðþokan fræga í Óríon sem einnig er kölluð Messier 42. Hún sést auðveldlega með berum augum sem þokukennd „stjarna“ í miðju sverðsins í Óríon. Sverðþokan er bjartasti hlutinn af risavöxnu stjörnuhreiðri þar sem nýjar stjörnur klekjast út og er jafnframt nálægasti myndunarstaður massamikilla stjarna við Jörðina.

Rykskýin mynda fallega þræði, slæður og bólur sem rekja má til myndunarferla stjarna og stjörnuvinda. Vindarnir eru gasstraumar sem stjörnur varpa frá sér en þeir eru nægilega öflugir til að móta skýin í kring og skapa þá ringulreið sem hér birtist okkur.

Stjörnufræðingar hafa stuðst við þessar mælingar og fleiri frá APEX en líka myndir frá Herschel geimsjónauka ESA til að leita að frumstjörnum — einu af frumstigum stjörnumyndunar — á Óríonssvæðinu. Hingað til hafa fundist 15 fyrirbæri sem eru mun bjartari á lengri bylgjulengdum ljóss en styttri. Þessi nýfundu og sjaldgæfu fyrirbæri eru líklega með yngstu frumstjörnum sem fundist hafa og færir stjörnufræðinga sífellt nær því að sjá stjörnur byrja að myndast.

Skýringar

[1] Heitari fyrirbæri gefa að mestu frá sér geislun með styttri bylgjulengdir á meðan kaldari fyrirbæri geisla lengri bylgjulengdum. Þannig eru mjög heitar stjörnur (með hitastig í kringum 20.000 gráður Kelvin) bláar en kaldari stjörnur (með hitastig í kringum 3000 gráður Kelvin) rauðar. Rykský sem er aðeins um tíu gráður Kelvin hefur hámarksútgeislun á mun lengri bylgjulengdum — í kringum 0,3 millímetra — á þeim hluta rafsegulrófsins þar sem APEX er mjög næmur.

Frekari upplýsingar

Sagt er frá rannsókninni á þessu svæði í greininni „A Herschel and APEX Census of the Reddest Sources in Orion: Searching for the Youngest Protostars“ eftir A. Stutz o.fl., í The Astrophysical Journal.

Thomas Stanke (ESO), Tom Megeath (Toledo háskóla í Bandaríkjunum) og Amy Stutz (Max Planck stofnunni í stjörnufræði í Heidelberg í Þýskalandi) höfðu umsjón með mælingum APEX sem myndin er búin til úr. APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu.

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1321.

Tengdar myndir

  • stjörnumyndunarsvæði, geimþoka, ÓrionÁ þessari nýju og glæsilegu mynd af geimþoku í stjörnumerkinu Óríon sést það sem virðist vera logandi slæða á himinhvolfinu. Appelsínugula bjarmann má rekja til daufrar birtu sem berst frá köldum rykögnum í geimnum, á bylgjulengd sem er of löng til að mannsaugað fái greint. Myndin var tekin með Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukanum sem ESO starfrækir í Chile. Hálfsmillímetrageislunin á myndinni er appelsínugul og stafar af köldu rykskýjunum en hún hefur verið lögð ofan á mynd af svæðinu sem tekin var í sýnilegu ljósi. Stóra bjarta skýið efst til hægri á myndinni er Sverðþokan fræga í Óríon sem einnig er kölluð Messier 42. Mynd: ESO