Hringþokan í meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr

Sævar Helgi Bragason 23. maí 2013 Fréttir

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur nú gert nákvæmustu athuganir sínar á Hringþokunni (Messier 57)

  • Messier 57, hringþoka, Harpan

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur nú gert nákvæmustu athuganir sínar á Hringþokunni (Messier 57). Myndin afhjúpar innri gerð þokunnar sem sást ekki glöggt í fyrri athugunum. Vísindamenn hafa nú útbúið þrívíddarmynd af þokunni sem sýnir hina sönnu lögun þokunnar.

Hringþokan Messier 57 er dæmigerð hringþoka (e. planetary nebula [1]) enda dregur fyrirbærið, sem myndast þegar stjarna (með tiltölulega lágan massa) deyr og þeytir frá sér ytri lögum sínum og myndar hringlaga þoku umhverfis kjarnann, nafn sitt af Hringþokunni í Hörpunni. Þokan er bæði nokkuð nálægt jörðu og þokkalega björt og fannst á 18. öld. Fjarlægðin til hennar er nokkuð á reiki sem títt er með stjarnfræðileg fyrirbæri en sennilega er hún í rétt rúmlega 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðu.

Frá jörðu séð virðist þokan sporöskjulaga. Nú hafa stjarnfræðingar sameinað mælingar frá Jörðinni við athuganir Hubblessjónauka NASA og ESA í leit að nýjum vísbendingum um gerð, þróun og hreyfingar þokunnar.

Hringþokan er eins og bjagaður kleinuhringur að lögun. Við horfum hér um bil beint ofan á annan pól þokunnar með bjartleitan efnistanga sem teygir sig frá okkur. Þótt miðja kleinuhringsins virðist tóm, er hún stútfull af efni með lágan efnisþéttleika sem teygir sig að okkur og frá okkur og má líkja við ruðningsbolta sem troðið hefur verið í gat kleinuhringsins.

Bjartasti hluti þokunnar er litríkur aðalhringurinn. Hann er úr gasi sem hin deyjandi stjarna í miðju þokunnar þeytti út. Stjarnan sú breytist nú í hvítan dverg — afar smáan, þéttan og heitan kjarna, sem er lokastig þróunar stjörnu eins og sólarinnar okkar.

Hringþokan er eitt athyglisverðasta fyrirbærið á himninum. Stjörnufræðingurinn Antoine Darquier de Pellepoix uppgötvaði það árið 1779 og síðar í sama mánuði fann Charles Messier þokuna og þætti henni í skránna sína. Báðir römbuðu þeir á fyrirbærið þegar þeir eltu braut halastjörnu gegnum stjörnumerkið Hörpuna, sem fór hjá skammt frá Hringþokunni. [2]

Skýringar

[1] Hringþokur draga nafn sitt af hér um bil hringlaga lögun sinni, eins og þær birtast í gegnum sjónauka í tiltölulega lítill stækkun.

[2] Messier 57 var ekki eina fyrirbærið sem fannst fyrir tilstilli halastjörnunnar C/1779 A1. Messier og aðrir stjörnufræðingar bættu þónokkrum fyrirbærum við, M 56, M 58, M 59, M 60 og M 61.

Frekari upplýsingar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni ESA og NASA.

Rannsókninni á Messier 57 er lýst í þremur greinum. Tvær þeirra hafa þegar birst í The Astronomical Journal og sú þriðja mun birtast þar.

Hægt er að fræðast betur um Messier 57 á Stjörnufræðivefnum.

Myndir: NASA, ESA, og Hubble Heritage Team (STScI/AURA), og C.R. O'Dell.

Tengiliðir

Ottó Elíasson

Stjörnufræðivefnum
 — Dalvík

Sími: 663 6867

Netfang: [email protected]

Tengdar myndir

  • Messier 57, hringþoka, HarpanMyndin sýnir tilkomumikla lögun og lit Hringþokunnar (Messier 57). Frá jörðu séð tekur þokan á sig einfalt sporöskjulaga form með óljósum jöðrum. Nýju myndirnar, í bland við eldri myndir teknar frá Jörðinni, leiða í ljós að þokan er eins og bjagaður kleinuhringur í laginu. Miðjan er stútfull af efni með lágan efnisþéttleika sem teygir sig að okkur og frá okkur og má líkja við ruðningsbolta sem troðið hefur verið í gat kleinuhringsins. Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team (STScI/AURA), C.R. O'Dell.
  • Messier 57, hringþoka, HarpanMyndin er skeytt saman úr myndum frá Wide Field Camera 3 í Hubblessjónaukanum og mynd frá Large Binocular Telescope (LBT) í Arizona af svæðinu í kringum þokuna. Mynd: NASA, ESA, STScI, Large Binocular Telescope Observatory (LBTO), og C.R. O'Dell
  • Messier 57, hringþoka, HarpanÞessi mynd sýnir gerð Hringþokunnar (Messier 57) frá hlið. Hér sjást hjúpurinn, innra svæðið, efnistungur af lágum þéttleika sem teygja sig að okkur og frá og greinilegur glóandi diskurinn. Við horfum hér um bil beint ofan á annan póla þokunnar og við sjáum bjartasta hluta hennar sem litríkan „hring“. Hann er úr gasi sem þeytist af deyjandi stjörnunni í miðri þokunni. Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team (STScI/AURA), C.R. O'Dell, A. Feild
  • Messier 57, hringþoka, HarpanVíðmynd af hringþokunni Messier 57 úr Digitized Sky Survey. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey 2.