Hubble myndar náin kynni vetrarbrauta

Sævar Helgi Bragason 20. jún. 2013 Fréttir

Hubblessjónauki NASA og ESA tók nýverið mynd af þessu glæsilega vetrarbrautapari sem kallast Arp 142

  • Arp 142, vetrarbrautir,

Hubblessjónauki NASA og ESA tók nýverið mynd af þessu glæsilega vetrarbrautapari sem kallast Arp 142. Þegar tvær vetrarbrautir svífa of nálægt hvor annarri víxlverka þær og taka að afmyndast. Stundum renna þær saman og stundum rifna þær sundur.

Rétt neðan við miðja mynd er NGC 2936, bláleit og undin vetrarbraut, önnur tveggja vetrarbrauta sem mynda Arp 142 í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Sumir kalla hana líka mörgæsina eða höfrunginn. NGC 2936 var eitt sinn hefðbundin þyrilþoka, áður þyngdarafl nágrannans togaði hana í sundur.

Leifar þyrilgerðarinnar sjást þó enn. Vetrarbrautarbungan myndar nú auga mörgæsarinnar og umhverfis hana má enn sjá hvar armarnir voru. Armarnir, sem nú eru að mestu leyti brenglaðir, móta búk geimfuglsins með bláar og rauðar rendur þvers og kruss um myndina. Rendurnar renna niður að förunauti NGC 2936, sporvöluþokunni NGC 2937, sem birtist björt og hvít. Parið líkist mörgæs sem gætir eggs síns.

Áhrif þyngdartogs milli vetrarbrauta getur rústað þeim. Vetrarbrautirnar í Arp 142 eru nógu nálægt hvor annarri til að víxlverka harkalega og valda mikilli eyðileggingu.

Á efri hluta myndarinnar eru tvær bjartar stjörnur áberandi, báðar miklu nær okkur en Arp 142. Önnur stjarnan virðist umlukin slóð glitrandi, bláleits efnis en í raun er þar um að ræða aðra vetrarbraut. Sú er of langt í burtu til að hafa nokkur áhrif á samkrull Arp 142, rétt eins þær vetrarbrautir sem sjást í gegnum og umhverfis NGC 2936. Í bakgrunninum mótar fyrir öðrum bláleitum og rauðleitum vetrarbrautum sem eru órafjarri okkur en Hubble þó eygir.

Tvíeykið er nefnt eftir bandaríska stjörnufræðingnum Halton Arp, sem setti saman Atlas of Peculiar Galaxies, skrá yfir afbrigðilegar vetrarbrautir sem fyrst var gefin út árið 1966. Arp gerði skrána í því skyni að öðlast betri skilning á því hvernig vetrarbrautir þróast og breytast með tímanum, nokkuð sem honum þótti skorta skilning á. Hann valdi í skrána með hliðsjón af undarlegu útliti fyrirbæranna en stjörnufræðingar áttuðu sig síðar á að í mörgum tilvikum var um að ræða vetrarbrautar að renna saman [1].

Myndin er samsett úr sýnilegu og innrauðu ljósi úr gögnum frá Hubblessjónauka NASA og ESA sem aflað var með Wide Field Planetary Camera 3 (WFC3).

Skýringar

[1] Fæðing og vöxtur samrunavetrarbrauta var viðfangsefni bókarinnar Cosmic Collisions – The Hubble Atlas of Merging Galaxies, sem Springer forlagið og European Southern Observatory gáfu út. Fjölmargar myndir Hubblessjónaukans prýða bókina.

Hubblessjónaukinn er samstarfsverkefni NASA og ESA.

Tenglar

Tengiliðir

Ottó Elíasson
Stjörnufræðivefnum
Dalvíkurútibú
Sími: 663 6867
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1311

Tengdar myndir

  • Arp 142, NGC 2936, vetrarbrautir, samruni vetrarbrautaMyndin sýnir vetrarbrautirnar NGC 2936, sem eitt sinn var þyrilþoka, og NGC 2937, öllu smærri sporvöluþoku, sem verka hvora á aðra. Þær minna á mörgæs sem gætir eggsins síns. Myndin er samsett úr gögnum í sýnilegu og innrauðu ljósi sem Wide Field Camera 3, myndavél Hubblessjónaukans safnaði. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA).
  • Arp 142, NGC 2936, vetrarbrautir, samruni vetrarbrautaMyndin kemur úr Digitized Sky Survey og sýnir svæðið umhverfis Arp 142 sem er í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Arp 142 eru tvær vetrarbrautir að renna saman: NGC 2936, sem eitt sinn var þyrilþoka, og sporvöluþokan NGC 2937. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey 2.