Sérkennilegt par

Tvö gerólík gasský í nágrannavetrarbraut okkar

Sævar Helgi Bragason 07. ágú. 2013 Fréttir

Very Large Telescope tók þessa mynd af tveimur ólíkum stjörnumyndunarsvæðum í Stóra Magellansskýinu
  • NGC 2020, NGC 2014, Stóra Magellansskýið, stjörnumyndunarsvæði

Very Large Telescope ESO tók þessa mynd af forvitnilegu stjörnumyndunarsvæði í Stóra Magellansskýinu — einni af fylgivetrarbraut okkar Vetrarbrautar. Á myndinni sjást tvö mismunandi glóandi gasský: NGC 2014 sem er rauðleitt og NGC 2020 sem er bláleitt. Mjög heitar, nýfæddar stjörnur hafa mótað skýin með öflugum stjörnuvindum og einnig lýst þau upp.

Þessi mynd var tekin með Very Large Telescope (VLT) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile — besta staðnum á suðurveli Jarðar til að stunda stjörnuathuganir. Þegar þaðan er horft á heiðskíru kvöldi í átt að stjörnumerkinu Sverðfisknum [1], án hjálpar sjónauka á borð við VLT, sést þokublettur sem við fyrstu sýn virðist eins og hvert annað ský í lofthjúpi Jarðar.

Ský var að minnsta kosti það fyrsta sem landkönnuðinum Ferdinand Magellan datt í hug þegar hann sigldi um suðurhöf árið 1519. Þótt Magellan sjálfur hafi verið myrtur í Filippseyjum áður en hann gat snúið heim, tilkynntu skipverjar hans um tilvist þessa skýs og smærra systurskýs þegar til Evrópu var komið aftur. Þessi ský eru tvær vetrarbrautir og voru nefnd Magellan til heiðurs. Áður höfðu aðrir evrópskir könnuðir og stjörnuathugendur séð skýin frá suðurhveli en sögðu aldrei frá þeim.

Í Stóra Magellansskýinu verða nýjar stjörnur til mjög ört. Sum stjörnumyndunarsvæðin sjást jafnvel með berum augum, til dæmis Tarantúluþokan fræga. Í skýinu eru mörg önnur smærri og ekki síður áhugaverð svæði sem sjónauka geta sýnt í smáatriðum. Á þessari mynd VLT sjást tvö harla ólík: NGC 2014 og NGC 2020.

Bleikglóandi skýið hægra megin, NGC 2014, er mestmegnis úr vetni. Í því er þyrping heitra ungra stjarna. Orkurík geislunin frá þessum nýju stjörnum rífur rafeindir af atómunum í vetnisgasinu, jónar það, svo til verður þessi einkennandi rauði bjarmi.

Fyrir utan þessa orkuríku geislun gefa massamiklar og ungar stjörnur líka frá sér öfluga stjörnuvinda sem blása gasinu í kring burt. Vinstra megin við meginþyrpinguna sést stök, skær og mjög heit stjarna [2] sem virðist hafa hafið þetta ferli nú þegar og myndað holrúm í kringum bólulaga myndun sem kallast NGC 2020. Blái liturinn á þessu dularfulla fyrirbæri er komin til af geislun frá heitu stjörnunni sem jónað hefur súrefni í stað vetnis.

Litamunurinn á NGC 2014 og NGC 2020 má bæði rekja til mismunandi efnasamsetningar gassins í kring og hitastigs stjarnanna sem lýsa upp skýin. Fjarlægðin milli stjarnanna og gasskýjanna leikur líka hlutverk.

Stóra Magellansskýið er í aðeins 163.000 ljósára fjarlægð frá Vetrarbrautinni okkar og því mjög nálægt okkur á stjarnfræðilegan mælikvarða. Vegna nálægðar er skýið mikilvægt rannsóknarefni stjörnufræðinga því hægt er að skoða það í mun meiri smáatriðum en önnur fjarlægari kerfi. Þetta var eitt af því sem leiddi til þess að menn ákváðu að smíða sjónauka á suðurhveli og stofna ESO fyrir meira en 50 árum. Þótt Stóra Magellansskýið sé risavaxið á jarðneskan mælikvarða er það aðeins einn tíundi af massa Vetrarbrautarinnar og einungis 14.000 ljósár í þvermál — til samanburðar er Vetrarbrautin okkar 100.000 ljósár á breidd. Stjörnufræðingar flokka skýið sem óreglulega dvergvetrarbraut. Líklega má rekja óreglulega lögun þess og áberandi stjörnubjálka í miðjunni, til víxlverkunnar við Vetrarbrautina okkar og aðrar nálægar vetrarbrautir, til dæmis Litla Magellansskýsins.

Myndin var tekin með FORS2 (FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph) mælitækinu, sem nemur sýnilegt og nær-útfjólublátt ljós, á VLT sjónauka ESO fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið [3].

Skýringar

[1] Þótt stjörnumerkið sé oftast tengt sverðfiski eru ýmsar ástæður fyrir því að flugfiskur passaði betur við merkið. Hér eru frekari upplýsingar um það.

[2] Þessi stjarna er dæmi um Wolf-Rayet stjörnu sem er sjaldgæf tegund stjörnu. Þessar skammlífu stjörnur eru mjög bjartar og mjög heitar — yfirborð þeirra geta verið meira en tíu sinnum heitari en yfirborð sólar — og allsráðandi á svæðunum í kringum þær.

[3] Þessi mynd kemur úr ESO Cosmic Gems verkefninu sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1335.

Tengdar myndir

  • stjörnumyndunarsvæði, NGC 2020, NGC 2014, Stóra MagellansskýiðVery Large Telescope ESO tók þessa mynd af stjörnumyndunarsvæði í Stóra Magellansskýinu — einni af fylgivetrarbraut Vetrarbrautarinnar. Myndin sýnir tvö glóandi gasský. NGC 2014 (til hægri) er rautt og óreglulegt en nágranninn, NGC 2020, er blá og kúlulaga. Stjörnuvindar frá mjög heitum, nýfæddum stjörnum mótuðu þessi sérkennilegu og ólíku form og lýsa þau einnig upp. Mynd: ESO