Kaldur bjarmi stjörnumyndunar

Ný og öflug myndavél APEX tekin í notkun

Sævar Helgi Bragason 25. sep. 2013 Fréttir

Ný myndavel fyrir APEX sjónaukann hefur verið tekin í notkun og Kattarloppuþokan er fyrsta viðfangsefni hennar

  • Stjörnumyndunarsvæðið Kattarloppuþokan með augum ArTeMIS

Nýju mælitæki sem kallast ArTeMIS hefur verið komið fyrir á APEX — Atacama Pathfinder Experiment. APEX er 12 metra breiður sjónauki hátt í Atacamaeyðimörkinni sem nemur millímetra- og hálfsmillímetrageislun — milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna í rafsegulrófinu — og er stjörnufræðingum mikilvægt tól til að sjá lengra út í alheiminn. Nýja myndavélin hefur þegar náð glæsilegri mynd af Kattarloppuþokunni.

ArTeMIS nefnist myndavél sem komið hefur verið fyrir á APEX sjónaukanum. Myndavélin hefur vítt sjónsvið og greinir hálfsmillímetrageislun sem mun efla APEX til muna [1]. Í ArTeMIS er ný kynslóð ljósnema sem virka á svipaðan hátt og CCD myndflögur. Þessi nýi tækjabúnaður mun hjálpa stjörnufræðingum að kortleggja himininn mun hraðar og í meiri smáatriðum en áður.

Teymið [2] sem kom að smíði ArTeMIS þurfti að berjast við afar erfiðar veðuraðstæður til að koma tækinu fyrir í sjónaukanum. Mikil snjókoma var á Chajnantor hásléttunni svo nánast fennti yfir stjórnstöð APEX. Með hjálp starfsmanna ALMA og APEX tókst teyminu þó að ferja kassana undir ArTeMIS upp að sjónaukanum í gegnum troðinn vegslóða en þannig var hægt að sneiða framhjá sköflum. Að lokum náðist að koma tækinu fyrir á sjónaukanum og setja upp kælikerfið.

Hópurinn varð þó að hinkra eftir þurrviðri til að prófa tækið, því vatnsgufa í lofthjúpnum dregur í sig hálfsmillímetrageislunina sem APEX nemur. Þegar tími gafst loks til, voru gerðar mælingar sem gáfust mjög vel. Í kjölfar prófana og annarra athugana var ArTeMIS notuð í tilraunarannsóknir. Eitt af meginviðfangsefnunum var stjörnumyndunarsvæðið NGC 6334 (Kattarloppuþokan) í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Þessi nýja mynd ArTeMIS er mun skarpari en eldri myndir APEX af sama svæði.

Prófanir á ArTeMIS standa enn yfir en innan tíðar verður myndavélin send aftur til Saclay í Frakklandi þar sem fleiri nemum verður komið fyrir í henni. Teymið allt er hæstánægt með útkomu fyrstu mælinga og eru það góð laun margra ára erfiðisvinnu en mælingarnar hefðu ekki orðið að veruleika án aðkomu starfsmanna APEX.

Skýringar

[1] ArTeMIS stendur fyrir Architectures de bolomètres pour des Télescopes à grand champ de vue dans le domaine sub-Millimétrique au Sol (Bolometer arrays for wide-field submillimetre ground-based telescopes).

[2] Í tækjahópnum, sem kemur frá CEA, eru Philippe André, Laurent Clerc, Cyrille Delisle, Eric Doumayrou, Didier Dubreuil, Pascal Gallais, Yannick Le Pennec, Michel Lortholary, Jérôme Martignac, Vincent Revéret, Louis Rodriguez, Michel Talvard og François Visticot.

Frekari upplýsingar

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu.

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragson
University of Iceland
Reykjavik, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1341.

Tengdar myndir

  • APEX, Kattarloppuþokan, geimþokaÁ þessari mynd, sem er ein sú fyrsta sem tekin var með ArTeMIS mælitækinu á APEX, sést stjörnumyndunarsvæðið NGC 6334. Myndin sýnir ljós með 0,35 millímetra bylgjulengd en það stafar af rykögnum í skýinu. Mælingar ArTeMIS eru táknaðar með appelsínugulum lit og hafa verið lagðar ofan á mynd af sama svæði sem VISTA sjónauki ESO í Paranal tók í nær-innrauðu ljósi. Mynd: ArTeMiS Team/Ph. André, M. Hennemann, V. Revéret et al./ESO/J. Emerson/VISTA Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit
  • APEXHér sést kælibúnaður ArTeMIS mælitækisins á APEX sjónaukanum á Chajnantor hásléttunni í norðurhluta Chile. ArTeMIS er ný myndavél með vítt sjónsvið sem greinir hálfsmillímetrageislun og mun efla APEX til muna. Í ArTeMIS er ný kynslóð ljósnema sem virka á svipaðan hátt og CCD myndflögur. Þessi nýi tækjabúnaður mun hjálpa stjörnufræðingum að kortleggja himininn mun hraðar og í meiri smáatriðum en áður. Mynd: ArTeMiS team/ESO
  • Rækjuþokan, geimþokaArTeMIS teymið mokar snjó til að komast inn í stjórnstöð APEX á Chajnantor hásléttunni í norðurhluta Chile. Fremst er Laurent Clerc, í miðjunni eru Jérôme Martignac (vinstri) og François Visticot (hægri) en aftast við dyrnar á byggingunni er Yannick Le Pennec. Þú getur borið þessar myndir saman við myndir af byggingunni við venjulegar aðstæður. Mynd: ArTeMiS team/ESO

Krakkavæn útgáfa