Hubble finnur smástirni með sex hala

Hvenær er halastjarna ekki halastjarna?

Sævar Helgi Bragason 07. nóv. 2013 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa fundið sérastakt fyrirbæri í smástirnabeltinu sem skartar sex hölum, líkt og um halastjörnu væri að ræða

  • Fjölhala smástirnið P/2013 P5 á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA

Stjörnufræðingar hafa með Hubblessjónauka NASA og ESA fundið sérastakt fyrirbæri á himni sem vakið hefur undrun þeirra. Fyrirbærið er í smástirnabeltinu og líkist helst garðúðara eða fokku. Þótt fyrirbærið sé í smástirnabeltinu virðist það vera halastjarna og af því rýkur ryk út í geiminn.

Hefðbundin smástirni virðast agnarlitir ljósblettir á himni. Smástirni (kallað P/2013 P5) hefur hinsvegar sex hala, svipaða þeim sem halastjörnur bera. Það sást fyrst í ágúst í ár og leit þá út eins og loðbolti á himni á myndum Pan-STARRS 1 stjörnusjónaukans á Hawaii [1].

Stjörnufræðingar hafa aldrei sé nokkuð fyrirbæri þessu líkt og klóra sér nú í kollinum í leit að skýringum á því.

Halar fyrirbærisins sáust á myndum Hubble geimsjónaukans sem teknar voru 10. september síðastliðinn. Þegar Hubble beindi sjónum sínum á ný að smástirninu þann 23. september, hafði það breyst og virtist hafa umvenst.

„Þegar við sáum það urðum við þrumulostnir“<\em>, sagði David Jewitt, stjörnufræðingur við Kaliforníuháskóla í Los Angeles sem leiðir jafnframt hópinn. „Ekki þótti okkur síður undarlegt að sjá hve ásýndin hafði breyst á aðeins 13 dögum við það að þeyta út ryki. Það kom okkur alveg að óvörum og okkur þykir erfitt að trúa því að þetta sé smástirni.“

Möguleg skýring á sérstöku útliti smástirnisins er að snúningshraði þess hafi aukist svo mjög, að yfirborðið taki hreinlega að losna og rjúka út í geiminn í hrinum sem hófust síðasta vor. Hópurinn aftekur að hér hafi verið um að ræða árekstur við annað smástirni, því þá hefði miklu meira ryk þeyst út í geiminn í einni hrinu. Hér virðist P5 hafa sent út ryk jafnt og þétt yfir síðustu fimm mánuði [2].

Jessica Agarwal við Max Planck Institute for Solar System Research í Lindau í Þýskalandi, útbjó nákvæm tölvulíkön af fyrirbærinu sem sýndu að halana mátti mynda með röð „rykgosa“ af yfirborðinu [3]. Geislunarþrýstingur frá sólinni mótar svo gosin í hala. „Með hliðsjón af athugunum og líkagerð bendir flest til þess að P/2013 P5 losi sig við ryk þegar það snýst hratt um sjálft sig“, segir Agarwal. „Sólin dregur svo halana fram úr mekkinum.“

Smástirnið gæti smám saman hafa tekist að snúast við það að þrýstingur frá ljósi sólar féll á það og valdið snúningsátaki. Snúist smástirnið nægilega hratt, dugar veikt þyngdarafl þess ekki til að halda því saman, segir Jewitt. Rykið fellur að miðbaug og hverfur kannski þaðan útí geiminn. Nú hefur þó aðeins lítill hluti massans tapast, kannski 100 til 1.000 tonn. Massi smástirnisins er þó um nokkur þúsund sinnum meiri og breiddin líklega tæplega 500 metrar.

Frekari athuganir gætu sýnt hvort rykið rýkur af smástirninu frá miðbaugnum. Það gæfi sterklega til kynna tvístrun vegna mikils snúnings. Þá stendur til að reyna að mæla snúningshraðann.

Túlkun Jewitts bendir til þess, að tvístrun vegna snúnings sé algengur atburður í smástirnabeltinu. Þetta gæti verið helsta feigðarleið smárra smástirna. „Finnirðu einn slíkan atburð í stjörnufræði, rekstu áreiðanlega á talsvert fleiri“, segir Jewitt.

Grein Jewitt og félaga birtist 7. nóvember í hefti The Astrophysical Journal Letters.

Skýringar

[1] Michell og fleiri fundu fyrirbærið þann 27. ágúst 2013. Það sást einnig á athugunum sem gerðar voru 18. ágúst 2013. Greint var frá uppgötvuninni í Minor Planet Electronic Circular.

[2] Agarwal reiknaði út að fyrsta gosið hafi orðið 15. apríl og það síðasta 4. september 2013. Önnur gos urðu 18. júlí, 24. júlí, 8. ágúst og 26. ágúst 2013.

[3] Annar möguleiki, þó öllu ólíklegri, er að gosin stafi af þurrgufun vatnsíss. Vatnsís getur haldist á föstu formi innan smástirnabeltisins, þó aðeins í úthverfunum, svo að segja, eða ef hann liggi þeim mun dýpra í stóru smástirni. P5 er þó sennilega að megninu til úr myndbreyttu bergi sem getur ekki haldið í ís með sama hætti og halastjörnur gera. Þetta, í bland við braut P5 og smæð þess, gera þess skýringu þó ósennilega.

Hubblesjónaukinn er samstarfsverkefni NASA og ESA.

Tenglar

Tengiliður

Ottó Elíasson
Stjörnufræðivefnum
Dalvíkurútibú
Sími: 663 6867
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1320

Tengdar myndir

  • smástirni, halastjarnaSmástirnið (kallað P/2013 P5) skartar hölum eins og halastjarna á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Myndin var tekin með Wide Field Camera 3, myndavél Hubbles. P/2013 P5 er vinstra megin 10. september 2013, og hægra megin 23. september 2013. Mynd: NASA, ESA, D. Jewitt (University of California, Los Angeles), J. Agarwal (Max Planck Institute for Solar System Research), H. Weaver (Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory), M. Mutchler (STScI), og S. Larson (University of Arizona)

Krakkavæn útgáfa