Ungar stjörnur móta glæsilegt landslag í geimnum

Sævar Helgi Bragason 13. nóv. 2013 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa náð bestu myndinni hingað til af forvitnilegum skýjum í kringum stjörnuþyrpinguna NGC 3572

  • Stjörnuþyrpingin NGC 3572 og nágrenni hennar
Stjörnufræðingar hjá ESO hafa tekið bestu myndina hingað til af forvitnilegum skýjum í kringum stjörnuþyrpinguna NGC 3572. Á nýju myndinni sést hvernig vindar frá heitum, ungum stjörnum hafa myndað sérkennilegar bólur, boga og form sem kallast fílsranar í gas- og rykskýin. Björtustu stjörnurnar í þypringunni eru mun efnismeiri en sólin okkar og munu enda ævina sem sprengistjörnur.

Stjörnur myndast alla jafna ekki stakar heldur í stórum systkinahópum, svo að segja samtímis úr einu gas- og rykskýi. NGC 3572 í stjörnumerkinu Kilinum er dæmi um slíka stjörnuþyrpingu. Í henni eru margar heitar, ungar, blá-hvítar stjörnur sem skína skært og gefa frá sér öfluga vinda sem feykja afgangsgasi og -ryki burt úr umhverfinu. Gasskýin glóandi og stjörnuþyrpingarnar eru viðfangsefni þessarar nýju myndar frá Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile [1].

Á neðri helmingi myndarinnar sést stór hluti af sameindaskýinu sem gat af sér stjörnurnar ungu. Öflug geislun frá glóandi heitum afkvæmum þess hefur haft feikilega mikil áhrif á skýið. Geislunin veldur ekki aðeins því að skýið gefur frá sér einkennandi rauðan bjarma, heldur mótar hún líka ýmis forvitnileg mynstur eins og bólur, boga og dökka stólpa sem stjörnufræðingar kalla fílsrana [2].

Rétt fyrir ofan miðja mynd sést harla sérkennilegt fyrirbæri sem lítur út fyrir að vera kringlótt þoka. Stjörnufræðingar klóra sér enn í kollinum yfir þessu forvitnilega fyrirbæri. Líklega er það þétt leif af sameindaskýinu sem myndaði þyrpinguna eða ef til vill bóla sem varð til um bjarta og heita stjörnu. Aðrir telja að fyrirbærið gæti verið sérkennilega löguð hringþoka — leifar deyjandi stjörnu [3].

Stjörnur sem fæðast í þyrpingum eru systkini en ekki tvíburar. Þær eru svo til jafnaldra en þó misstórar, misefnismiklar, misheitar og mislitar. Æviskeið stjarna veltur að stærstum hluta á massa þeirra. Í þyrpingu eru stjörnur á mismunandi ævistigum og þar af leiðandi eru þyrpingar fullkomnar tilraunastöðvar fyrir stjörnufræðinga sem rannsaka þróun stjarna [4].

Ungu stjörnurnar halda hópin í fremur stuttan tíma, venjulega tugi eða hundruð milljónir ára. Þyngdarkrafturinn leysir hópinn hægt og rólega upp en massamestu stjörnurnar leika þar líka hlutverk. Þær eru skammlífar, brenna eldsneyti sínu hratt og enda að lokum ævina sem sprengistjörnur. Þegar þær springa, leggja þær sitt af mörkum við dreifingu afgangsagassins og stjarnanna í þyrpingunni.

Skýringar

[1] Hópur stjörnufræðinga undir forystu Giacomo Beccari hjá ESO aflaði gagnanna sem notuð voru í þessa mynd. Stjörnufræðingarnir notuðu Wide Field Imager til að rannsaka frumskífur við ungar stjörnur í NGC 3572. Það kom þeim á óvart að sjá að í þyrpingunni eru meira en tíu milljón ára gamlar stjörnur sem enn eru að sanka að sér efni og eru því umluktar sífum. Það sannar að stjörnumyndun í NGC 3572 hefur staðið yfir í 10-20 milljónir ára og gefur til kynna að myndunarferli sólkerfa gæti haldið áfram í mun lengri tíma en áður var talið.

[2] Frægasta dæmið um fílsranamyndarnir eru Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni, sem sjást í mögnuðum smáatriðum á mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA (http://www.spacetelescope.org/images/opo9544a/)

[3] Þegar stjarna eins og sólin klárar eldsneyti sitt, varpar hún ytri lögum sínum út í geiminn. Heitar leifar stjörnunnar skína áfram skært og lýsa upp efnið, svo til verður falleg en skammlíf glóandi skel úr jónuðu gasi eða hringþoku.

[4] Ævilengd stjörnu veltur að mestu á þyngd hennar. Stjarna sem er fimmtíu sinnum efnismeiri en sólin okkar endist aðeins í nokkrar milljónir ára. Til samanburðar lifir sólin okkar í um tíu milljarða ára en massalitlar rauðar dvergstjörnur geta enst í trilljónir ára — mun lengur en sem nemur núverandi aldri alheimsins.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1347.