Ljósbergmál RS Puppis

Sævar Helgi Bragason 17. des. 2013 Fréttir

Hubble hefur náð einstökum myndum af ljósbergmáli sveiflustjörnunnar RS Puppis

  • RS Puppis

Fyrir skömmu fylgdist Hubble geimsjónauki NASA og ESA með sveiflustjörnunni RS Puppis um fimm vikna skeið og sýndu mælingarnar hvernig stjarnan breytir birtu sinni. Birtusveiflurnar birtast á glæsilegan hátt í fyrirbæri sem kallast ljósbergmál en þá virðist sem ljós endurómi um drungalegt ský í kringum stjörnuna.

Stjörnur eru fremur stöðugar stærstan hluta ævinnar og brenna eldsneyti í kjarna sínum og skína þannig skært. Þegar mestur hluti vetnisins í kjarnanum er uppurinn, breytast sumar stjörnur í sveiflustjörnur. Þær verða óstöðugar og þenjast út og dragast saman á örfáum dögum eða mánuðum og breyta um leið birtu sinni.

Á þessari nýju og glæsilegu mynd frá Hubble geimsjónaukanum sést RS Puppis, sveiflustjarna af gerð Sefíta, sem er í um 6.500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. RS Puppis er meira en tíu sinnum efnismeiri en sólin okkar og um það bil 15.000 sinnum bjartari. Sefítar hafa gjarnan tiltölulega langar lotur og er RS Puppis þar engin undantekning — hún breytir birtu sinni um næstum fimm stærðargráður á 40 dögum eða svo.

RS Puppis er harla óvenjuleg því hún er umlukin þoku — þykkum, dökkum gas- og rykskýjum. Árið 2010 fylgdist Hubble með stjörnunni og drungalegu umhverfi hennar í fimm vikur og tók myndir af henni á mismunandi stigum svefilulotunnar. Vísindamenn hafa nú útbúið myndskeið af þessu himneska fyrirbæri.


Sýndarhreyfingin á myndunum er dæmi um fyrirbæri sem kallast ljósbergmál. Árið 2008 tókst stjörnufræðingum að mæla mjög nákvæmlega fjarlægðina til RS Puppis með hjálp ljósbergmálsins, en mælingarnar eru með hinum nákvæmustu sem gerðar hafa verið fyrir sefíta.

Rykið í kringum RS Puppis veldur því að áhrif bergmálsins eru mjög greinileg. Þegar stjarnan þenst út og eykur birtu sína, berst hluti ljóssins til okkar eftir að það hefur endurvarpast frá sífellt fjarlægari ryk- og gasskeljum í kringum stjörnuna. Úr verður sú missýn að gasið færist út á við, en svo er ekki. Ljósið sem endurvarpast þarf að ferðast lengri vegalengd og berst því til Jarðar á eftir ljósi sem ferðast beina leið frá stjörnunni til okkar. Áhrifin valda því að svo virðist sem ljósið breiðist út með meiri hraða en ljóshraða, en svo er þó ekki. Bergmál hljóðs er hliðstætt.

Þótt áhrifin séu tilkomumikil í sjálfu sér, liggur önnur mikilvæg ástæða að baki rannsóknum á sefítum eins og RS Puppis. Sveiflutíminn er beintengdur birtustiginu. Það gerir stjörnufræðingum kleift að nota sefíta sem staðalkerti til fjarlægðarmælinga. Það hjálpar okkur að mæla og skilja stærð alheims.

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þessi frétt er byggð á fréttatilkynningum frá ESA/Hubble.

Tengdar myndir

  • RS PuppisRS Puppis á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA. RS Puppis er sveiflustjarna af gerð sefíta sem breytir birtu sinni um næstum fimm stærðargráður á 40 dögum eða svo. Stjarnan er umvafin þykkum, dökkum rykskýjum sem gerir fyrirbæri sem nefnist ljósbergmál kleift að myndat. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)-Hubble/Europe Collaboration. Þakkir: H. Bond (STScI og Penn State University)