Stækkunargler Pandóru

Fyrsta myndin úr Frontier Fields verkefni Hubbles

Sævar Helgi Bragason 07. jan. 2014 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa birt fyrstu myndina úr Frontier Fields verkefni Hubbles. Verkefnið gengur út á að skyggnast dýpra út í alheiminn en nokkru sinni fyrr.

  • Mynd Hubble geimsjónaukans af vetrarbrautaþyrpingunni Abell 2744

Hér sést vetrarbrautaþyrpingin Abell 2744 á fyrstu myndinni úr Frontier Fields verkefni Hubble geimsjónaukans. Verkefnið gengur út á að skyggnast dýpra út í alheiminn en nokkru sinni fyrr með hjálp risavaxinna vetrarbrautaþyrpinga sem verka eins og náttúrulegar linsur. Abell 2744, sem gengur einnig undir gælunafninu þyrping Pandóru, er talin hafa myndast við mikla árekstra margra vetrarbrautaþyrpinga.

Árið 2011 könnuðu stjörnufræðingar sögu Abell 2744 með Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Í ljós kom að að minnsta kosti fjórar vetrarbrautaþyrpingar höfðu runnið saman og myndað Abell 2744 og um leið urðu til nokkur sérkennileg og áhugaverð fyrirbæri, sem sum höfðu aldrei sést áður. Þetta varð til þess að Abell 2744 var gefið gælunafnið Pandóruþyrpingin.

Á miðri mynd sjást nokkrar þokukenndar sporvöluþokur og litríkar þyrilþokur i hnapp. Áhrif þyngdarkrafts þyrpingarinnar sjást í bláu bogunum og bjöguðu myndunum á víð og dreif, þar á meðal vetrarbrautir sem virðast „blæða“ út í geiminn í kring. Bogarnir eru í raun bjagaðar myndir af enn fjarlægari vetrarbrautum.

Abell 2744 er fyrsta vetrarbrautaþyrpingin af sex sem kanna á í Frontier Fields verkefninu. Verkefnið nær yfir þrjú ár og 840 umferðir Hubblessjónaukans um jörðina (mælingar Hubbles standa alla jafna yfir í nokkra tugi umferða í mesta lagi) og mun skila dýpstu myndum okkar af alheiminum til þessa. Það er hægt með því að láta Hubble kanna þyngdarlinsur í kringum sex mismunandi vetrarbrautaþyrpingar.

Þyndarlinsur verða til vegna þyngdaráhrifa fyrirbæra á geiminn í kring. Efnismikil fyrirbæri eins og vetrarbrautaþyrpingar hafa svo mikinn þyngdarkraft, að þær sveigja og bjaga geiminn í kring. Það veldur því að ljós frá fjarlægari fyrirbærum á bakvið þessa náttúrulegu linsu (þyrpinguna) bjagast, svo stundum verða til sérkennileg mynstur.

Fyrir utan mynstrin magnar linsan líka upp ljós frá fjarlægum fyrirbærum og gerir þau, sem eru of fjarlæg og dauf til að sjást, sýnileg. Þessi ljósmögnun verður nýtt í Frontier Fields verkefninu næstu árin.

Myndin af stækkunargleri Pandóru var birt 7. janúar 2014 á 223. fundi American Astronomical Society í Washington DC í Bandaríkjunum.

Mynd: NASA, ESA, and J. Lotz, M. Mountain, A. Koekemoer, and the HFF Team (STScI).

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984