Reikistjarna finnst í kringum tvíburasystur sólar í stjörnuþyrpingu

Þrjár nýjar reikistjörnur fundnar í Messier 67 efir sex ára leit með HARPS

Sævar Helgi Bragason 14. jan. 2014 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa fundið þrjár reikistjörnur á braut um stjörnur í Messier 67 stjörnuþyrpingunni. Ein reikistjarnanna nýju gengur um stjörnu sem er sjaldgæf tvíburasystir sólar.

  • Teikning listamanns af fjarreikistjörnu á braut um stjörnu í þyrpingunni Messier 67

Stjörnufræðingar hafa fundið þrjár reikistjörnur á braut um stjörnur í Messier 67 stjörnuþyrpingunni með HARPS reikistjörnuleitartæki ESO í Chile og fleiri sjónaukum víða um heim. Þótt hingað til hafi yfir þúsund reikistjörnur fundist fyrir utan sólkerfið okkar, hafa örfáar fundist í stjörnuþyrpingum. Ein reikistjarnanna nýju gengur um stjörnu sem er sjaldgæf tvíburasystir sólar — stjarna sem er næstum alveg eins og sólin okkar.

Í dag er vitað að reikistjörnur á braut um stjörnur utan sólkerfisins eru mjög algengar. Þessar reikistjörnur hafa fundist á braut um stjörnur á ýmsum aldri og efnasamsetningu og á víð og dreif um himininn. Hingað til hafa mjög fáar reikistjörnur hins vegar fundist í stjörnuþyrpingum [1]. Það þykir undarlegt, því flestar stjörnur fæðast í þyrpingum. Til að skýra fæð þeirra hafa stjörnufræðingar velt fyrir sér hvort eitthvað sé hugsanlega öðruvísi við myndun reikistjarna í þyrpingum.

Anna Brucalassi (Max Planck Institute for Extraterrestrial Physics í Garching í Þýskalandi), aðalhöfundur greinar um nýju rannsóknina, og teymi hennar vildi vita meira. „Stjörnurnar í Messier 67 þyrpingunni eru allar álíka gamlar og hafa svipaða efnasamsetningu og sólin. Þær eru því fullkomið viðfangsefni til að kanna hve margar nýjar reikistjörnur myndast í þvögunni og hvort þær myndist aðallega umhverfis massamiklar eða massaminni stjörnur.“.

Stjörnufræðingarnir notuðu HARPS reikistjörnuleitartækið á 3,6 metra sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni. Athuganirnar voru einnig studdar mælingum frá nokkrum öðrum stjörnustöðvum víða um heim [2]. Fylgst var grannt með 89 völdum stjörnum í Messier 67 [3] yfir sex ára tímabil svo greina mætti hárfína hreyfingu stjarna til og frá jörðinni sem komnar eru til af reikistjörnum á sveimi um þær.

Þyrpingin er í um 2.500 ljósára fjarlægð í krabbamerkinu og inniheldur um 500 stjörnur. Margar stjarnanna eru heldur daufari en þær sem alla jafna eru notaðar í leit að reikistjörnum, svo þrýsta þurfti greinigetu HAEPS til hins ítrasta til að nema veik merki frá mögulegum riekistjörnum.

Þrjár reikistjörnur fundust, tvær umhverfis stjörnur sem svipa til sólar og ein á braut um massameiri og þróaðari rauðan risa. Fyrri reikistjörnurnar tvær eru báðar um þriðjungur af massa júpíters og hafa sjö og fimm daga umferðartíma. Þriðja reikistjarna hefur 122 daga umferðartíma og er massameiri en Júpíter [4].

Fyrsta reikistjarnan er á braut um merkilega stjörnu — stjörnu sem hingað til hefur reynst líkjast sólinni okkar hvað mest og er næstum alveg eins og sólin (eso1337) [5]. Hún er fyrsa tvíburasystir sólar í þyrpingu sem hefur reynst hafa reikistjörnu.

Tvær reikistjörnurnar af þremur eru „heitir gasrisar“ — reikistjörnur sem eru á stærð við Júpíter en miklu nær móðurstjörnunum og þar af leiðandi mun heitari. Allar þrjár eru langt fyrir innan lífbelti sinna móðurstjarna, þess svæðis þar sem vatn gæti verið fljótandi.

„Niðurstöðurnar nýju sýna að reikistjörnur í lausþyrpingum eru um það bil eins algengar og í kringum stakar stjörnur — en ekki er auðvelt að finna þær,“ sagði Luca Pasquini (ESO í Garching í Þýskalandi), meðhöfundur nýju greinarinnar [6]. „Niðurstöðurnar eru líka ólíkar eldri rannsóknum, þar sem reikistjörnur fundust ekki í þyrpingu, en í samræmi við aðrar nýlegri athuganir. Við munum halda áfram að fylgjast með þyrpingunni til að finna út hvað skilur á milli massa og efnasamsetningar stjarna með og án reikistjarna“.

Skýringar

[1] Stjörnuþyrpingar eru af tveimur megingerðum. Lausþyrpingar eru hópar stjarna sem hafa myndast nýlega saman úr einu gas- og rykskýi. Þær eru aðallega í þyrilörmum vetrarbrauta eins og okkar. Á hinn bóginn eru kúluþyrpingar miklu stærri kúlulaga söfn af mun eldri stjörnum á braut um miðju vetrarbrautarinnar. Þrátt fyrir nákvæma leit hafa engar reikistjörnur fundist í kúluþyrpingum og innan við sex í lausþyrpingum. Fjarreikistjörnur hafa einnig fundist síðastliðin tvö ár í þyrpingunni NGC 6811 og Messier 44 og enn styttra er síðan ein fannst í hinni björtu og nálægu þyrpingu Regnstirninu.

[2] Stjörnufræðingarnir notuðu einnig gögn frá SOPHIE mælitækinu í Observatoire de Haute-Provence í Frakklandi, svissneska 1,2 metra Leonhard Eular sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile og Hobby-Eberly sjónaukanum í Texas í Bandaríkjunum.

[3] Flestar lausþyrpingar leysast upp eftir nokkra tugi milljóna ára. Hins vegar geta þyrpingar sem sem myndast með meiri þéttleika stjarna haldist saman mun lengur. Messier 67 er dæmi um langlífa eldri þyrpingu og er ein elsta og mest rannsakaða þyrping sinnar tegundar nærri jörðinni.

[4] Doppler litrófsmælingar gefa lægri mörk á massa reikistjarna sem finnast með aðferðinni. Halli braut reikistjörnu mikið, gæti hún verið massameiri og haft sömu mælanlegu áhrif.

[5] Tvíburasystur sólar, hliðstæður sólar og stjörnur sömu gerðar og sólin eru stjörnur sem flokkaðar eru samkvæmt líkindum við sólina. Sólartvíburar líkjast sólinni mest því þeir hafa svipaða massa, hitastig og efnasamsetningu. Sólartvíburar eru mjög sjaldgæfir en hinar gerðirnar, þar sem líkindin eru ekki eins mikil, eru miklu algengari.

[6] Uppgötvun á þremur reikistjörnum í 88 stjarna úrtaki í Messier 67 er nálægt meðalfjölda reikistjarna sem finnast um stjörnur sem ekki eru í þyrpingum.

Frekari upplýsingar

Skýrt var frá rannsókninni í greininni „Three planetary compnaions around M67 stars“ eftir A. Brucalassi et al.., sem birtist í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • fjarreikistjarna í stjörnuþyrpingunni Messier 67Teikning listamanns af fjarreikistjörnu á sveimi um tvíburasystur sólar í stjörnuþyrpingunni Messier 67. Mynd: ESO/L. Calçada
  • Messier 67Víðmynd af stjörnuþyrpingunni Messier 67 sem sett var saman úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide de Martin