Demantar í hala Sporðdrekans

Ný ljósmynd ESO af stjörnuþyrpingunni Messier 7

Sævar Helgi Bragason 19. feb. 2014 Fréttir

Stjörnufræðingar ESO hafa tekið nýja mynd af einni mest áberandi stjörnuþyrpingu himins — Messier 7

  • Stjörnuþyrpingin Messier 7

Á þessari nýju ljósmynd sem tekin var úr La Silla stjörnustöð ESO í Chile, sést bjarta stjörnuþyrpingin Messier 7. Þyrpingin sést vel með berum augum við hala stjörnumerkisins Sporðdrekans og er raunar ein mest áberandi lausþyrping stjarna á himninum — sem gerir hana líka að mikilvægu rannsóknarefni stjörnufræðinga.

Messier 7, einnig þekkt sem NGC 6475, er björt þyrping um 100 stjarna í tæplega 800 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Þyrpingin er mjög áberandi á þessari nýju mynd — sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum — fyrir framan nokkur hundruð þúsund stjörnur við miðju Vetrarbrautarinnar.

Messier 7 er um 200 milljón ára, svo stjörnurnar í þyrpingunni eru dæmigerðar miðaldra þyrpingastjörnur á um 25 ljósára breiðu svæði í geimnum. Þegar björtustu stjörnurnar — sem telja um tíunda hluta af heildarfjölda stjarna í þyrpingunni — eldast, munu þær enda sem sprengistjörnur. Til lengri tíma litið munu hinar stjörnurnar, þær sem eru daufari og mun fleiri, reka hægt og rólega í sundur uns þyrpingin leysist upp.

Lausþyrpingar á borð við Messier 7 eru hópar stjarna sem urðu til á sama stað næstum samtímis úr stóru gas- og rykskýi í Vetrarbrautinni. Stjörnufræðingar hafa mikinn áhuga á stjörnuhópum af þessu tagi, því stjörnurnar í þeim eru nokkurn veginn jafnaldra og hafa heimlíka efnasamsetningu. Þess vegna eru þær ómetanlegar til að rannsaka uppbyggingu og þróun stjarna.

Athyglisvert er að þótt stjörnuskarinn á myndinni sé mjög þéttur, er hann ekki fullkomlega samfelldur og augljóslega rykugur. Ástæðan er næsta örugglega tilviljunarkennd uppröðun þyrpingarinnar og rykskýjanna. Þótt freistandi sé að álykta sem svo að dökku rykslæðurnar séu leifar skýsins sem þyrpingin varð til úr, hefur Vetrarbrautin snúist næstum einn hring frá því að þyrpingin myndaðist. Fyrir vikið hafa önnur ský og aðrar stjörnur raðast upp fyrir aftan hana. Gasið og rykið sem stjörnurnar Messier 7 urðu til úr er því löngu horfið.

Stærð- og stjörnufræðingurinn Kládíus Ptólmæos lýsti þyrpingunni fyrstur manna í kringum árið 130 f.Kr. Hann sagði hana „þoku við odd Sporðdrekans“ sem er nokkuð nákvæm lýsing enda sést hún sem með berum augum sem þokukenndur blettur fyrir framan bjartan bakgrunn Vetrarbrautarinnar. Honum til heiðurs er Messier 7 stundum kölluð þyrping Ptólmæosar. Árið 1764 var þyrpingin sjöunda fyrirbærið sem rataði í skrá Charles Messier. Síðar, á 19. öld, lýsti John Herschel útliti hennar, eins og það birtist honum í gegnum sjónauka, sem „gisinni þyrpingu stjarna“ — sem lýsir henni fullkomlega.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org